Skipulagsskrá Háskólans á Bifröst ses.

1.0. Heiti stofnunarinnar:

1.1. Stofnunin heitir Háskólinn á Bifröst. Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 33/1999, með síðari breytingum. um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur og lögum um háskóla nr. 63/2006.

2.0. Heimili og varnarþing:

2.1. Heimili og varnarþing stofnunarinnar er  í Borgarfirði.

3.0. Stofnandi, stofnfé og önnur framlög:

3.1. Stofnandi sjálfseignarstofnunarinnar var Samband íslenskra samvinnufélaga sem árið 1990 lagði til stofnunarinnar rekstur og eignir Samvinnuskólans Bifröst, undir nafninu Samvinnuháskólinn, síðar Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Síðar var nafni stofnunarinnar breytt í Háskólinn á Bifröst.

3.2. Stofnfé stofnunarinnar er að fjárhæð kr. 253.369.500 í formi fasteigna ásamt tilheyrandi eignarlóð skólans á Bifröst í Norðurárdal, ásamt samningsbundnum réttindum, áhöldum og öðru lausafé, kennslutækjum, bókasafni, listmunum og öðrum eignum. Auk þess stofnfjáraukning að fjárhæð kr. 65.105.022 frá árinu 2011 í formi styrkja frá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, Samvinnusjóðnum, Samkaupum, Kaupfélagi Borgfirðinga, Samtökum atvinnulífsins og Borgarbyggð.

3.3. Eigi má fara með eignir Háskólans á Bifröst með öðrum hætti en samrýmist markmiðum og tilgangi háskólans í þessari skipulagsskrá og stuðlar að framgangi hans.

3.4. Háskólinn á Bifröst ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum eignum er stofnunin kann að eignast síðar. Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnanda hennar.

3.5. Ráðstöfunartekjur Háskólans á Bifröst eru tekjur af skráningargjöldum og námskeiðahaldi, framlög frá opinberum aðilum, hugsanlegur arður af stofnfé, vaxtatekjur, og annað fé sem Háskólanum á Bifröst kann að áskotnast. Háskólinn á Bifröst veitir viðtöku hvers konar styrkjum, gjöfum og öðrum framlögum frá einstaklingum, fyrirtækjum, félögum, opinberum sem hálfopinberum aðilum, og öðrum sem vilja styrkja rekstur hans. Við ráðstöfun tekna Háskólans á Bifröst skal gæta þeirra markmiða sem fram koma í 4. gr. hér á eftir.

3.6. Háskólinn á Bifröst skal hafa sjálfstæðan fjárhag og kennitölu, og skal stjórn sjá til þess að bókhald stofnunarinnar verði fært. Starfsár og reikningsár Háskólans á Bifröst er almanaksárið, frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.

4.0. Tilgangur Háskólans á Bifröst:

4.1.  Megintilgangur Háskólans á Bifröst er að mennta fólk til áhrifa og ábyrgðar á sviði viðskiptafræði, lögfræði og félagsvísinda og með því efla og styrkja íslenskt atvinnulíf og samfélag. Við háskólann skulu einnig stundaðar rannsóknir í sömu greinum. Háskólinn leggur sérstaka áherslu á tengsl við atvinnulífið og skipuleggur nám á grundvelli sjálfstæðrar vinnu nemenda, raunhæfra verkefna og þróunar verkefna og hugmynda. Þá ræktar hann alþjóðlegt og innlent samstarf við aðrar háskólastofnanir á sviði kennslu og rannsókna. Háskólinn á Bifröst þjálfar nemendur með tilliti til samvinnu, frumkvæðis, og ábyrgðar með skapandi og gagnrýna hugsun að leiðarljósi.

Áherslur í framtíðarsýn Háskólans á Bifröst eru að hann:

sé skuldbundinn til vísindalegs sjálfstæðis og að stunda samfélagstengdar rannsóknir,
sé í fararbroddi í fjarnámi með sveigjanlega nálgun,
leggi áherslu á einstaklingsbundna nálgun í kennslu þar sem jafnvægi milli fræða og framkvæmdar er þungamiðja.

5.0. Stjórnskipulag Háskólans á Bifröst:

5.1. Stjórn Háskólans á Bifröst skal skipuð fimm einstaklingum tilnefndum til tveggja ára í senn, þar sem hver eftirgreindra aðila tilnefnir einn aðalmann og annan til vara. Þeir sem tilnefna stjórnarmenn eru: Borgarbyggð, Háskólaráð Háskólans á Bifröst, Hollvinasamtök Bifrastar, Samband íslenskra samvinnufélaga svf., og Samtök atvinnulífsins. Þrír aðalmenn í stjórn skulu tilnefndir annað hvert ár, en tveir aðalmenn í stjórn hin árin. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Varamenn skulu taka sæti í forföllum aðalstjórnarmanna fyrir þann stjórnarmann sem þeir eru tilnefndir til vara fyrir. Fulltrúaráð skal taka ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf sín.

5.2. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, og kýs sér formann og varaformann. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum í stjórn stofnunarinnar. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda Háskólann á Bifröst. Stjórnarmenn mega ekki sitja í fulltrúaráði Háskólans á Bifröst. Jafnframt skal þess gætt að meirihluti aðal- og varastjórnarmanna sé hvorki í námi né í störfum við Háskólann á Bifröst.

5.3. Stjórnin skal vinna að markmiðum og tilgangi Háskólans á Bifröst sem fram koma í 4. gr. og skal gæta þess eftir fremsta megni að kostnaður af starfseminni sé hóflegur og í samræmi við rekstraráætlanir. Stjórnin hefur yfirumsjón og eftirlit með öllum málefnum, eignum og rekstri Háskólans á Bifröst eins og lög leyfa, auk þeirra sjóða og félaga sem undir Háskólann á Bifröst heyra. Stjórnin markar stefnu skólans í samráði við fulltrúaráð, ákveður stofnun nýrra deilda, félaga og sjóða, ákvarðar meginstarfstilhögun háskólans, og ákveður m.a. skráningargjöld og önnur gjöld sem skólanum er heimilt að leggja á samkvæmt 24. gr. laga um opinbera háskóla. Formaður boðar til stjórnarfunda, en jafnframt skulu fundir haldnir ef einhver stjórnarmanna óskar þess. Í því tilviki skal stjórnarfundur haldinn innan einnar viku frá því að formleg skrifleg ósk um fund kemur fram. Stjórnarfundir skulu skráðir í gerðarbók. Stjórnin skal setja sér starfsreglur um störf sín og hvernig hún hyggst vinna samkvæmt markmiðum 4. gr. Mikilvægar ákvarðanir má ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið sé þess nokkur kostur. Reglur stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi skulu gilda um stjórnarmenn við afgreiðslu mála.

5.4. Stjórn Háskólans á Bifröst ræður rektor og ákveður starfskjör hans. Rektor kemur fram fyrir hönd Háskólans á Bifröst út á við og gagnvart nemendum og starfsfólki, annast daglegan rekstur hans og ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Rektor situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétti, nema stjórn ákveði annað um einstaka fundi. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða meiriháttar. Slíkar ráðstafanir getur rektor aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild stjórnar. Rektor fer með stjórn fjármála skólans í umboði stjórnar og skal árlega í lok hvers rekstrarárs leggja fram tæmandi fjárhagsáætlun fyrir háskólann, og öll félög sem tengjast rekstri hans, fyrir komandi skólaár fyrir stjórn til samþykktar. Óheimilt er að standa að útgjöldum eða skuldbindingum umfram heimildir sem stjórn hefur veitt. Rektor ræður starfsmenn og leysir þá frá störfum. Skal rektor upplýsa stjórn um ráðningu aðila er taka sæti í framkvæmdastjórn. Rektor ber ábyrgð á útgáfu skýrslu um starfsemi háskólans í lok hvers skólaárs. Stjórnin getur veitt öðrum en rektor prókúru fyrir háskólann eða ákveðið að fela þriðja aðila umsýslu eigna hans eða framkvæmd einstakra verkefna.

Stjórn skólans mótar stefnu hans og setur honum reglugerð. Samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð og öðrum reglum skólans er háskólaráð ráðgefandi aðili í innri málefnum skólans. Það er umræðuvettvangur og er ályktunarbært um vísindaleg málefni, kennslu, námskröfur og rannsóknir, starfshætti og samskipti í stofnuninni. Nánar er kveðið á um skipan og starfsemi háskólaráðs í reglugerð háskólans.

5.5. Aðalfundur Háskólans á Bifröst, sem jafnframt er fundur fulltrúaráðs háskólans, skal haldinn ár hvert í tengslum við ársfund skólans samkvæmt 23. gr. háskólalaga nr. 63/2006, ekki síðar en í maímánuði. Verkefni aðalfundar er að greina frá starfsemi háskólans og samþykkja ársreikning hans fyrir undanfarið rekstrarár.

5.6. Á aðalfundi Háskólans á Bifröst skulu eftirgreind málefni tekin til meðferðar og ákvörðunar:

A. Skýrsla stjórnar og rektors um starfsemi háskólans fyrir næstliðið skólaár.

B. Ársreikningur vegna næstliðins skólaárs lagður fram til kynningar og samþykktar.

C. Kynning á efnahag og rekstri allra þeirra félaga, dóttur- og hlutdeildarfélaga, sem tengjast rekstri Háskólans á  Bifröst.

D. Rekstraráætlun með tilheyrandi fjárfestingaráætlun fyrir yfirstandandi skólaár.

E. Kosning löggilts endurskoðanda fyrir Háskólann á Bifröst.

F. Tillögur til breytinga á skipulagsskrá Háskólans á Bifröst og samþykkt þeirra eftir atvikum.

G. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir nýliðið starfsár.

H. Önnur mál

5.7. Stjórn skal halda bókhald og skila ársreikningi á aðalfundi, endurskoðuðum af löggiltum endurskoðanda. Stjórnin skal fylgjast grannt með fjárhag Háskólans á Bifröst, einkum með því að tekjur standi undir kostnaði og skuldbindingum.

5.8. Í fulltrúaráði stofnunarinnar skulu sitja 15 einstaklingar, og fimm til vara. Fulltrúar skulu tilnefndir til þriggja ára í senn, og fara fimm fulltrúar frá á hverju ári. Óheimilt er að tilnefna aðalmenn í fulltrúaráðið lengur en þrjú kjörtímabil í röð. Varamenn í fulltrúaráðið skulu tilnefndir með sama hætti og aðalmenn, en þó aðeins til eins árs í senn. Þeir sem tilnefna aðal- og varamenn í fulltrúaráðið eru hinir sömu og tilnefna stjórn Háskólans á Bifröst. Þannig tilnefnir hver tilnefningaraðila einn fulltrúaráðsmann á ári hverju og einn varamann árlega. Við tilnefningar skal gætt fjölbreytni hvað samsetningu ráðsins varðar og m.a. haft að leiðarljósi að kynjahlutföll séu sem jöfnust.

5.9. Fulltrúaráðið heldur fund a.m.k. einu sinni á ári og er hann jafnframt aðalfundur Háskólans á Bifröst. Fulltrúaráðsfundir hafa æðsta vald í málefnum háskólans. Aukafundi heldur fulltrúaráðið, þegar stjórn Háskólans á Bifröst telur þess þurfa eða meirihluti fulltrúaráðsmanna æskir þess. Ef taka á til meðferðar á fulltrúaráðsfundi tillögu til breytinga á skipulagsskrá þessari skal meginefni tillögunnar fylgja fundarboði. Stjórn skólans boðar til fulltrúaráðsfunda og skulu þeir boðaðir með minnst tveggja vikna fyrirvara.

5.10. Hagnaði sem verður af starfsemi Háskólans á Bifröst skal varið til þeirra verkefna er greinir í 4. gr. skipulagsskrár þessarar. Stjórn er heimilt að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur háskólans. Hugsanlegt tap af starfsemi verður greitt úr sjóðum háskólans eða fært á næsta reikningsár.

6.0. Breytingar á skipulagsskránni, staðfesting og sérákvæði:

6.1. Tillögur að breytingum á skipulagsskrá þessari geta allir sem sitja í fulltrúaráði og stjórn skólans lagt fram. Slíkar tillögur skal leggja fyrir aðalfund eða fulltrúaráðsfund þar sem þær skulu kynntar, afstaða tekin til þeirra og greidd um þær atkvæði. Tillögur um breytingar á skipulagsskránni skulu berast stjórn með það góðum fyrirvara að unnt sé að geta slíkrar tillögu í fundarboði, sbr. gr. 5.9. Til að breytingar á skipulagsskránni geti öðlast gildi þurfa minnst 10 af þeim 15 sem sitja í fulltrúaráði að mæta á löglega boðaðan fund stofnunarinnar og sami fjöldi að samþykkja breytingarnar.

6.2. Með tillögur um að fella niður skipulagsskrá stofnunarinnar og leggja Háskólann á Bifröst niður skal farið með sama hætti og breytingar.

6.3. Komi til þess að sjálfseignarstofnunin/Háskólinn á Bifröst verði lögð niður skal fulltrúaráðið skipa sérstaka skilanefnd til að gera upp skuldir, ráðstafa eignum og slíta rekstri hennar, ef einhver er. Skulu eignir hennar að skuldum greiddum renna til málefna sem aukinn meirihluti fulltrúaráðs stofnunarinnar ákveður á formlegum fulltrúaráðsfundi, en þó innan markmiða 4. gr. skipulagsskrár þessarar.

6.4. Leita skal staðfestingar Ríkisskattstjóra á skipulagsskrá þessari. Ef skipulagsskránni verður breytt eða samþykkt að leggja stofnunina niður skal leita staðfestingar sama aðila á þeim ráðstöfunum.


Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999, með síðari breytingum, en ákvæði þeirra laga skulu gilda um starfsemi stofnunarinnar að því marki sem skipulagsskrá þessari sleppir.

Þannig samþykkt samhljóða á stjórnarfundi Háskólans á Bifröst

Reykjavík, 7. maí 2012

Með breytingum samþykktum á aðalfundi Háskólans á Bifröst þann 15. maí 2013, á fundi fulltrúaráðs Háskólans á Bifröst þann 28. mars 2023 og á fundi fulltrúaráðs Háskólans á Bifröst 3. október 2024.