Grunnnám í miðlun og almannatengslum er einstakt BA-nám hér á landi. Námið miðar að því að búa nemendur undir þátttöku á vinnumarkaði sem gerir æ ríkari kröfur um þekkingu og fagleg vinnubrögð er lúta að samskiptum við fjölmiðla, fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir.
Námi í miðlun og almennatengslum byggir á félagsvísindum, veitir nemendum skilning á hlutverki fjölmiðla í samfélaginu og undirbýr þá til að takast á við síbreytilegt fjölmiðlaumhverfi með auknum upplýsinga-, boðskipta- og miðlunarleiðum sem eykur flæði upplýsinga en ýtir á sama tíma undir samkeppni um athygli. Með almannatengslum öðlast nemendur færni í að byggja upp traust og skapa langvarandi sambönd og getu til að miðla stefnumótandi skilaboðum við ýmsar aðstæður.
Námið er tilvalið fyrir einstaklinga sem hafa hug á að vinna við samskipti og miðlun upplýsinga, hvort sem er á sviði fjölmiðlunar eða sem upplýsingafulltrúar, almannatenglar, ráðgjafar eða samskiptastjórar. Breiður grunnur námsins gerir nemendum kleift að takast á við fjölbreytt störf á margvíslegum starfsvettvangi. Sem dæmi má nefna störf á samskipta- eða markaðssviðum skipulagsheilda, á almannatengsla-, markaðs- og auglýsingastofum, eða hjá opinberum stofnunum og samtökum af ýmsum toga. Samfélagsleg þörf fyrir menntun á þessu sviði hefur aldrei verið meiri þar sem við stöndum frammi fyrir brýnum áskorunum þegar kemur að upplýsingaóreiðu og falsfréttum, varðveislu tjáningarfrelsis og lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla.
-
Einstakt nám
Námið, sem er til 180 ECTS eininga, byggir á 60 ECTS eininga grunni hug- og félagsvísinda þar sem nemendur byggja upp almennan þekkingargrunn á samfélags- og stjórnmálum og hæfni til þess að greina og vinna með hugmyndir á gagnrýninn og siðferðislegan hátt. Í þessum hluta taka nemendur meðal annars námskeið í stjórnmálum, samfélagslegri ábyrgð, loftslagsáhrifum, og í kynja- og fjölbreytileikafræðum.
Nemendur taka svo 48 ECTS eininga kjarnanámskeið í miðlun og almannatengslum þar sem þeir læra um samspil fjölmiðla og samfélagsins og hlutverk almannatengsla. Námið hefur bæði hagnýtar og fræðilegar hliðar þar sem nemendur eru þjálfaðir í stefnumótandi hugsun í framsetningu og miðlun hugmynda með hliðsjón af ólíkum markhópum, en fá einnig kennslu í fjölmiðlafærni, bæði í framkomu og skrifum.
Þá hafa nemendur 42 ECTS eininga val, þar sem þeim gefst kostur á að velja námskeið á eigin áhugasviði, s.s. í markaðs- og stjórnunarfræðum og félagsvísindagreinum. Nemendur eru stöðugt hvattir til að þjálfa og þroska sjálfstæða hugsun og nýta sér námið til þess.
-
Lærðu heima
Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarnámi, sem gerir þér kleift að vera í námi við HB á þínum forsendum. Áhersla er lögð á einstaklingsbundna nálgun og námsumhverfi er stafrænt og sveigjanlegt. Stafrænt fjarnám er þannig frábær valkostur fyrir fólk sem hentar að vera í sveigjanlegu háskólanámi, vegna vinnu með námi eða af einhverjum allt öðrum ástæðum. Nánar um námið við Háskólann á Bifröst
-
Fyrirkomulag kennslunnar
Við Háskólann á Bifröst er áhersla lögð á persónulega þjónustu til nemenda. Ánægjukannanir sýna að mikill meirihluti nemenda er afar ánægður með námið og samskipti við kennara og starfsfólk.
Hverri önn við Háskólann á Bifröst er skipt upp í tvær lotur. Verkefnavinna er stór þáttur í námsmati háskólans og vinna nemendur að verkefnum jafnt og þétt yfir lotur skólaársins.
Sjö vikur eru í hvorri lotu og ein staðlota, þar sem nemendur hitta kennara og samnemendur og taka þátt í umræðum og hópverkefnum. Önnur sérstaða í kennsluháttum Háskólans á Bifröst eru misserisverkefni eða missó, eins og verkefnin eru gjarnan nefnd. Missó tekur mið af á kennsluaðferð sem kallast lærdómsþróun (e. learning by developing) og miðar að því að auka hæfni nemenda fyrir vinnumarkað að námi loknu. Nánar um námið á Bifröst
-
Framvinda og námslok
Grunnnám við Háskólann á Bifröst er 180 ECTS fjarnám og geta nemendur að verulegu leyti ráðið námshraða sínum.
Jafnframt gefst kostur á því að ljúka flestu grunnnámi á tveimur og hálfu ári. Sumarönn er kennd við Háskólann á Bifröst og nemdur geta því lokið 80 ECTS einingum á ári í stað 60. Námskeiðum má þannig að mestu leyti ljúka á fyrstu tveimur námsárunum. Á þriðja ári gera nemendur svo lokaverkefni auk þess að ljúka einingum sem kunna að vera eftir vegna starfsþjálfunar eða valnámskeiða.
-
Inntökuskilyrði
Til að geta innritast í námið þurfa nemendur að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.
Forgangsröðun við inntöku nemenda ræðst af einkunnum.
-
Umsóknarfrestur
Opið er fyrir umsóknir um nám við Háskólann á Bifröst vegna haustannar 2024 til og með 5. júní nk.