Fjarnám við Háskólann á Bifröst

Háskólinn á Bifröst er hágæða fjarnámsháskóli sem leggur ríka áherslu á persónulega þjónustu við nemendur. Ánægjukannanir sýna að mikill meirihluti nemenda er afar ánægður með námið og samskipti við kennara og starfsfólk. Kannanir sýna einnig að nemendur kunna að meta hvernig háskólinn tengir í náminu fræði og framkvæmd.

Hágæða fjarnám

Nám við Háskólann á Bifröst er hagnýtt með áherslu á frumkvæði og sjálfstæði nemenda. Háskólinn sérhæfir sig í kennslu viðskiptatengdra greina og að mennta fólk til forystustarfa í atvinnulífinu og samfélaginu. Fjölbreytt viðfangsefni, umræður og samstarf nemenda og kennara tryggja nemendum góðan undirbúning fyrir ábyrgðarstöður.  Þá er áhersla lögð á að nemendur geti unnið bæði sjálfstætt og í hópi og er verkefnavinna því einnig gildur þáttur í námsmati.  

Allt nám við Háskólann á Bifröst er kennt í fjarnámi og eru fyrirlestrar ásamt öðru námsefni aðgengilegir í kennslukerfi háskólans. Yfirferð námsefnis er því að verulegu leyti undir hverjum og einum nemenda komið og fellur nám við Háskólann á Bifröst því vel að þörfum þeirra sem vilja eiga þess kost að vera í námi samhliða vinnu, eða öðrum mikilvægum verkefnum daglegs lífs. 

Loturnar

Námið í Háskólanum á Bifröst fer fram í lotubundinni kennslu. Hverri önn er skipt upp í tvær lotur, sem taka 7 vikur hvor. Hver lota gerir jafnframt ráð fyrir einni staðlotu. Staðlotur eru í kringum helgar og er dagskrá þeirra jafnan fjölbreytt. Enda þótt ekki sé skyldumæting á staðlotur eru nemendur, sem þess eiga kost eindregið hvattir til að taka þátt.

Nánari upplýsingar um staðlotur eru á Uglu.  

Fræði og framkvæmd

Sérstaða í kennsluháttum Háskólans á Bifröst felst meðal annars í svokölluðum misserisverkefnum. Misserisverkefnin eru kennd á sumarönn og snúast um rannsóknaverkefni sem nemendur vinna að eigin vali í 4-6 manna teymi. Sá misserishópur sem hlýtur flest stig fer með sigur af hólmi. Í misserisverkefnum er byggt á kennsluaðferð sem kallast lærdómsþróun (e. Learning by Developing).