Í náminu er fræðilegur bakgrunnur öryggishugtaksins kynntur um leið og hugtakið er sett í alþjóðlegt samhengi sem og í samhengi við íslenskt samfélag, sögu, stjórnmál, menningu og lagaumhverfi. Því er fylgt eftir með að kynna og greina þær varnir sem alþjóðasamfélagið og Ísland sérstaklega, býr að. Áhersla er lögð á að ræða ríkjandi ógnir í samfélaginu, varnir gegn og viðbrögð við þeim. Fjallað verður um þá innviði, auðlindir og regluverk sem styrkja varnir gegn öryggisvá sem og þá aðila sem koma að almannvörnum gegn slíkri ógn.
Námslínan hentar þeim sem áhuga hafa á stjórnunarstörfum og alþjóðasamskiptum, hvort sem er á vegum hins opinbera, einkaaðila eða félaga- og hjálparsamtaka, ekki síst á sviði öryggismála og almannavarna. Námið veitir innsýn og þjálfun í að leysa áskoranir í öryggismálum meðal annars með hliðsjón af áhrifum stjórnarhátta, skipulagsheilda, fjölmiðla og upplýsinga- og samskiptatækni.
Í náminu er litið til margvíslegra ógna og áskorana hvort sem þær eru af völdum náttúru eða manna.
Frá örófi alda hafa Íslendingar lifað við ógnir náttúrunnar sem hafa leitt til margvíslegra áfalla þegar þær hafa raungerst. Þær jarðhræringar og eldsumbrot sem hafa skekið Reykjanesskaga undanfarið hafa m.a. leitt berlega í ljós hversu miklu tjóni náttúruhamfarir geta valdið á mikilvægum innviðum. Á þeim tæpa aldarfjórðungi sem liðinn er á öldina hefur íslenska þjóðin tekist á við stórvægilega ógn við efnahagslegt öryggi í kjölfar bankahrunsins 2008 og heilsufarsvá vegna Covid-19 faraldursins. Í báðum tilfellum var um ógnir að ræða sem teygðu sig yfir landamæri.
Að bregðast við ógnum sem stafar af hnattrænni hlýnun af mannavöldum er knýjandi áskorun fyrir heimsbyggðina. Margslungnar afleiðingar hlýnunar felast m.a. í auknu álagi á ýmis vistkerfi. Þannig hefur t.d. ís á norðurslóðum bráðnað og opnað nýja sjóleið á milli heimsálfa þar sem Ísland er í alfaraleið. Landfræðileg staðsetning landsins setur því Ísland í lykilhlutverk þegar kemur að siglingaöryggi og stjórnmálum norðurslóða. Þá vofir yfir æ meiri öryggisógn vegna skaða sem framinn er af ásetningi, hvort sem er vegna hryðjuverka, skipulagðrar glæpastarfsemi, netárása eða átaka, svo dæmi séu tekin. Þessi þróun krefst menntunar og almennrar hæfni til að skilja þær ógnir sem steðja að samtímanum og þær varnir og viðbrögð sem mögulega er hægt að þróa og beita. Náminu er ætlað að bregðast við þeirri kröfu en það er jafnframt fyrsta grunnnámið á háskólastigi tileinkað öryggisfræðum. Er það hannað með hliðsjón af erlendum fyrirmyndum sem voru sóttar m.a. til Norðurlandanna og Bandaríkjanna.
Nám í öryggisfræðum og almannavörnum er góður undirbúningur fyrir meistaranám í áfallastjórnun.
-
Lærðu heima
Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarnámi, sem gerir þér kleift að vera í námi við HB á þínum forsendum. Áhersla er lögð á einstaklingsbundna nálgun og námsumhverfi er stafrænt og sveigjanlegt. Stafrænt fjarnám er þannig frábær valkostur fyrir fólk sem hentar að vera í sveigjanlegu háskólanámi, vegna vinnu með námi eða af einhverjum allt öðrum ástæðum. Nánar um námið við Háskólann á Bifröst
-
Fyrirkomulag kennslunnar
Við Háskólann á Bifröst er áhersla lögð á persónulega þjónustu til nemenda. Ánægjukannanir sýna að mikill meirihluti nemenda er afar ánægður með námið og samskipti við kennara og starfsfólk.
Hverri önn við Háskólann á Bifröst er skipt upp í tvær lotur. Verkefnavinna er stór þáttur í námsmati háskólans og vinna nemendur að verkefnum jafnt og þétt yfir lotur skólaársins.
Sjö vikur eru í hvorri lotu og ein staðlota, þar sem nemendur hitta kennara og samnemendur og taka þátt í umræðum og hópverkefnum. Önnur sérstaða í kennsluháttum Háskólans á Bifröst eru misserisverkefni eða missó, eins og verkefnin eru gjarnan nefnd. Missó tekur mið af á kennsluaðferð sem kallast lærdómsþróun (e. learning by developing) og miðar að því að auka hæfni nemenda fyrir vinnumarkað að námi loknu. Nánar um námið á Bifröst
-
Framvinda og námslok
Grunnnám við Háskólann á Bifröst er 180 ECTS fjarnám og geta nemendur að verulegu leyti ráðið námshraða sínum.
Jafnframt gefst kostur á því að ljúka flestu grunnnámi á tveimur og hálfu ári. Sumarönn er kennd við Háskólann á Bifröst og nemdur geta því lokið 80 ECTS einingum á ári í stað 60. Námskeiðum má þannig að mestu leyti ljúka á fyrstu tveimur námsárunum. Á þriðja ári gera nemendur svo lokaverkefni auk þess að ljúka einingum sem kunna að vera eftir vegna starfsþjálfunar eða valnámskeiða.
-
Inntökuskilyrði
Til að geta innritast í námið þurfa nemendur að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.
Forgangsröðun við inntöku nemenda ræðst af einkunnum.
-
Umsóknarfrestur
Opið er fyrir umsóknir um nám við Háskólann á Bifröst vegna haustannar 2024 til og með 5. júní nk.