Tveggja ára nám með vinnu
Diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun er nám fyrir verslunarstjóra. Styrkur námsins liggur í virku samstarfi við atvinnulífið.
Námið er metið til eininga í áframhaldandi námi í viðskiptafræði til BS gráðu við Háskólann á Bifröst. Nemendur sem útskrifast með diplómagráðu í verslunarstjórnun munu því geta haldið áfram námi til BS gráðu í viðskiptafræði kjósi þeir það.
Námið, sem er 60 ECTS einingar, er kennt með vinnu og tekur tvö ár í fjarnámi. Námið byggir á námskeiðum sem nú þegar eru kennd í grunnnámi til BS gráðu í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst, en einnig á námskeiðum sem eru hönnuð út frá sérþörfum verslunar og eru með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni.
Til að ljúka náminu á tveimur árum er gert ráð fyrir því að nemandi taki námskeiðin samkvæmt skipulag námsins í kennsluskrá skólans. Heimilt er að taka námið á lengri tíma eða allt að fjórum árum. Á fyrstu þremur önnum skal nemandi þó að lágmarki taka eitt sameiginlegt skyldunámskeið: heildræna verslunarstjórnun, birgða-, vöru- og rekstrarstjórnun, þjónustustjórnun eða hagnýta lögfræði.
-
Uppbygging náms
Sameiginleg skyldunámskeið (24 ECTS einingar) í verslunarstjórnun eru:
- Heildræn verslunarstjórnun
- Birgða-, vöru- og rekstrarstjórnun
- Þjónustustjórnun
- Hagnýt lögfræði
Gert er ráð fyrir að verkefni í þessum námskeiðum séu að verulegu leyti unnin út frá starfi og fyrirtæki nemandans og að nám hans geti þannig gagnast því fyrirtæki sem hann starfar hjá.
Skyldunámskeið eru kenndir í fjarnámi plús staðlotur og stendur hver áfangi yfir í sjö vikur. Kennsla samanstendur af fyrirlestrum, umræðutímum og verkefnavinnu, en einnig eru gestafyrirlestrar og vinnustofur hluti námsins.
Skyldunámskeið (24 ECTS einingar) í viðskiptafræði
Að auki taka nemendur fjögur skyldunámskeið í viðskiptafræði. Miðað er við að nemandi taki tvö slík námskeið á önn en heimilt er að ráða námshraða sínum hvað skyldunámskeið varðar. Skyldunámskeiðin eru:
- Inngangur að stjórnun og stefnumótun
- Reikningshald
- Mannauðsstjórnun og hlutverk leiðtogans
- Rekstrarhagfræði
Valnámskeið (6 ECTS) í viðskiptafræði
Einnig velja nemendur eitt af námskeiðunum úr viðskiptadeild sem valnámskeið.
Lokaverkefni (6 ECTS)
Lokaverkefni getur verið einstaklingsverkefni eða hópverkefni, fer eftir vali nemanda. Lokaverkefni er unnið í samstarfi við fyrirtæki í verslun í samstarfi við umsjónarkennara.
Jón Snorri Snorrason, dósent við viðskiptadeild, er fagstjóri diplómanáms og veitir frekari upplýsingar.
-
Umsóknir og inntökuskilyrði
Almenn inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærilegt nám. Reynsla af verslunarstjórnun eða víðtæk starfsreynsla á sviði verslunar er kostur.
Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks ásamt Starfsmenntasjóði verslunarinnar, SVS og SV, niðurgreiða og styrkja skólagjöld félagsmanna í VR/LÍV, að því gefnu að fyrirtæki og einstaklingur sæki um saman og eigi rétt á hámarksstyrk.
-
Umsóknarfrestur
Opið er fyrir umsóknir um nám við Háskólann á Bifröst vegna haustannar 2024 til og með 5. júní nk.