Grein Jóns Sigurðssonar um háskólavæðinguna
Jón Sigurðsson (f. 23. ágúst 1946, d. 10. september 2021) var skólastjóri Samvinnuskólans á Bifröst árið 1981 og fyrsti rektor Samvinnuháskólans Bifröst, en því embætti gegndi hann til ársins 1991.
Háskólatilraun á Bifröst 1985 - 1995 -- ný tegund háskóla á Íslandi.
I
Á árunum 1985 - 1995 urðu miklar breytingar á starfi og skipulagi Samvinnuskólans á Bifröst. Þessar breytingar snertu bæði innviði og skólastig og ekki síður hlutverk og stöðu skólans. Skólinn var í tveimur áföngum færður af skólastigi sem áður hafði að hluta tilheyrt gagnfræðaskóla yfir á grunnstig starfsmenntaháskóla, breytt í svonefndan ,,sérskóla á háskólastigi" sem var þá að mestu leyti nýjung hér á landi. Samtímis var kennsluskipan, starfsháttum og skipulagi gerbreytt. Í þessu síðastnefnda voru ýmsar róttækar nýjungar hérlendis. Loks var nafni skólans breytt í ,,Samvinnuháskólinn", og skólinn varð að sjálfseignarstofnun. Skólinn fylgdi þessum nýjum starfsháttum til ársins 1999. Höfundur þessa lesmáls, Jón Sigurðsson, var skólastjóri og síðar rektor fram til 1991; síðan rektorar þeir Vésteinn Benediktsson til 1995 og þá Jónas Guðmundsson til 1999.
Þessi saga er sögð í ritinu: ,,Bifrastarævintýrið og Jónasarskólinn" sem út kom 1999 og höfundur þessa lesmáls skráði. Fáir hafa séð þá bók, og ýmsir þræðir þessarar sögu eru aðeins í örstuttu ágripi þar. Ástæða er til að varðveita yfirlit um þessi atriði.
II
Rétt er að rifja upp nokkur aðalatriði um sögu Samvinnuskólans.
Samvinnuskólinn var stofnaður 1918 og starfaði í Reykjavík til vors 1955, en síðan á Bifröst í landi Hreðavatns í Norðurárdal í Borgarfirði. Á Bifröst var nám á tveimur fyrstu árum framhaldsskólastigs, en frá og með hausti 1973 starfaði einnig Framhaldsdeild í Reykjavík og veitti tvö lokaár framhaldsskólastigsins og stúdentspróf af verslunarbraut, fyrstu fjögur árin í samstarfi við Menntaskólann við Hamrahlíð. Samvinnuskólinn stóð um langt árabil fyrir mjög víðtæku námskeiðahaldi á vegum kaupfélaganna, Sambands íslenskra samvinnufélaga og samstarfsfyrirtækja, og heimsóttu kennarar skólans kaupfélögin um land allt árum saman í þeim störfum, fræðslu og ráðgjöf.
Samvinnuskólinn var í eigu Sambandsins sem sjálfstæð undirdeild skipulags- og fræðsludeildar SÍS. Í starfi skólans var fylgt lögum um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi, nr. 51 frá 25. maí 1976, en þau tóku til starfsemi Samvinnuskólans á Bifröst og Verslunarskóla Íslands í Reykjavík. Samkvæmt þessum lögum skipaði stjórn SÍS skólanefnd fimm manna, en í henni var einn fulltrúi menntamálaráðherra.
Haustið 1986 hófust störf á tveimur lokaárum framhaldsskólastigs á Bifröst, og 1. maí 1988 voru stúdentar fyrsta sinni brautskráðir á Bifröst. Framhaldsdeild í Reykjavík lauk störfum vorið 1989. Hinn 1. ágúst 1988 hófust störf á háskólastigi á Bifröst í nýrri rekstrarfræðadeild, og fyrstu rekstrarfræðingar með diplóma voru brautskráðir á Bifröst 19. maí 1990. Við þessar breytingar var tekin upp sérhæfð kennsluskipan með megináherslu á hagnýta og hagnýtta þætti við hæfi starfa við rekstur og stjórnun á vettvangi atvinnulífsins. Þegar störf hófust á háskólastigi var einnig stofnuð sérstök Frumgreinadeild við skólann, sem aðfaradeild fyrir þá umsækjendur sem skorti á forsendur. Hinn 1. febrúar 1990, varð ,,Samvinnuháskólinn" sjálfseignarstofnun, en nafni skólans var þá jafnframt breytt. 20. maí 1995 voru rekstrarfræðingar fyrsta sinni brautskráðir frá Bifröst með bakkalárgráðu, B.S., að loknu þriggja ára námi.
Árið 2000 var nafni skólans breytt í ,,Viðskiptaháskólinn á Bifröst" og enn árið 2006 í ,,Háskólinn á Bifröst". Um aldamótin urðu enn miklar breytingar á starfsemi skólans og var þá horfið frá flestu því sem um hríð hafði veitt honum sérstöðu og lýst er í þessu lesmáli. Á síðustu árum hefur skólinn veitt prófgráður í viðskiptafræði, viðskiptalögfræði og á blönduðu sviði hagfræði, stjórnmálafræði og heimspeki; mikil áhersla er lögð á fjarnám, og einnig eru veittar meistaragráður af nokkrum námsbrautum.
III
Þær breytingar sem ofar eru nefndar, árin 1985-1995, gerðust með þeim hætti sem nú verður rakið.
Svonefnd framhaldsskólabylting á Íslandi hafði afar víðtæk samfélagsáhrif og þeirra var tekið að gæta í upphafi 9. áratugarins; af þessu hlutust miklar breytingar á forsendum umsækjenda um nám við Samvinnuskólann og þá á allri stöðu skólans. - Í júní 1983 var upplýsingum um skóla, skólastig, kennsluskipan og fleira tengt efni safnað á ráðstefnu evrópskra samvinnuskóla í Vínarborg; og um sömu mundir leitaði skólastjóri til allmargra fyrrverandi nemenda frá Bifröst, sem leitað höfðu sér framhaldsmenntunar erlendis, og fékk upplýsingar, viðhorf, reynslusögur og hugmyndir frá þeim. - 20.10.1984 var samþykkt frumvarp að nýrri reglugerð um skólann eins og hann þá var, fyrir þær breytingar sem hér verður lýst. - 9.1.1985 sendi skólastjóri bréf til formanns skólanefndar með hugmyndum um framtíðarþróun skólans í ljósi nýrra aðstæðna. - 30.1.1985 kynningarbréf skólastjóra sent til forstjóra og stjórnarformanns Sambands íslenskra samvinnufélaga. - 2.2.1985 voru þessar hugmyndir kynntar á kennarafundi á Bifröst. - 6.4.1985 sendi skólastjóri bréf um málið til verkmenntadeildar Menntamálaráðuneytisins. - 10.6.1985 sent kynningarbréf skólastjóra til rektors Háskóla Íslands. - 14.6.1985 samþykkti skólanefnd breytingu skólans yfir á síðara hluta framhaldsskólastigs, að Samvinnuskólinn á Bifröst skyldi hætta að starfa á fyrstu tveimur árum framhaldsskólastigs en tæki til starfa á tveimur síðari árum þess með brautskráningu stúdenta, en Framhaldsdeildinni voru þá ætluð önnur hlutverk síðar. - Í júní 1985 var upplýsingum safnað á ráðstefnu norrænna samvinnuskóla í Osló og farin kynnisferð síðan um nokkra héraðsháskóla í Noregi. - 7.7.1985 sent kynningarbréf skólastjóra til forseta Viðskiptadeildar Háskóla Íslands. - 25.9.1985 samþykkti stjórn SÍS breytingarnar á starfi skólans.
25.9.1985 kom bréf Menntamálaráðuneytis með jákvæðum viðbrögðum. - 14.11.1985 samþykkti skólanefnd nánari drög, tilhögun og framkvæmdarþætti. - 19.11.1985 sendi skólastjóri nýtt bréf til Menntamálaráðuneytis um málið með nánari lýsingum. - 26.11.1985 kom bréf Menntamálaráðuneytisins með heimild til breytinga á starfsemi skólans yfir á tvö síðari ár framhaldsskólastigs með brautskráningu stúdenta á Bifröst. - 12.12.1985 sendi skólastjóri enn bréf til menntamálaráðherra um málið. - Í febrúar 1986 var farin kynnisferð um sérskóla og háskóla í San Francisco, Berkeley, Santa Barbara og Los Angeles í Kaliforníu og í Madison í Wisconsin vestan hafs. - 1.8.1986 komu breytingarnar til framkvæmda, og Samvinnuskólinn á Bifröst færðist á lokaár framhaldsskólastigs, en að sjálfsögðu starfaði skólinn á breiðara skólastigi fyrst. - 1.5.1987 var ný reglugerð birt, með ákvæðum í samræmi við breytingarnar. - 5.6.1987 staðfesti stjórn SÍS reglugerðina. - Samkvæmt þessum breytingum voru stúdentar brautskráðir á Bifröst fyrsta sinni 1.5.1988.
Kynnisferðir þær, sem ofar eru nefndar, í júní 1985 í Noregi og í febrúar 1986 til Kaliforníu og Wisconsin, sneru að mestu að síðara áfanga breytinganna, yfir á nýtt sérhæft háskólastig starfsmennta, í svonefndum ,,sérskóla á háskólastigi" en það heiti var almennt notað á þessum árum. - Í júní 1987 var sótt ráðstefna evrópskra samvinnuskóla í Basel í Sviss og síðan farin kynnisferð í sérskóla og háskóla í París, London og Oxford; í Oxford var meðal annarra háskólastofnana heimsókn í Ruskin College sem er stjórnunar- og félagsmálaháskóli bresku samvinnuhreyfingarinnar; einnig var leitað upplýsinga frá sérskólum og háskólastofnunum á Norðurlöndum og Þýskalandi. - Í síðara hluta júní 1987 áttu skólastjóri og formaður skólanefndar fundi um framtíðarhugmyndir og háskólastörf í sérskóla á háskólastigi, um diploma-nám og síðar bakkalárgráðu, B.S. - 26.8.1987 skipaði Menntamálaráðherra skólastjóra Samvinnuskólans í samstarfsnefnd háskólastigsins. - 9.9.1987 sendi skólastjóri bréf til forstjóra SÍS um kennslu á háskólastigi í Samvinnuskólanum. - 22.9.1987 sendi skólastjóri bréf til menntamálaráðherra um störf á háskólastigi og fór fram á heimild fyrir sérskóla á háskólastigi á Bifröst á þeim fræðasviðum sem Samvinnuskólinn vann að, viðskiptum, rekstri, stjórnun og félagsmálum. - 27.10.1987 fjallar kennarafundur sérstaklega um nýja kennslufræði og kennsluskipan. - 11.12.1987 samþykkti skólanefnd tillögu um háskólastig og tilhögun fræðslu; á fundinum varð ágreiningur um málið. - 9.2.1988 samþykkti stjórn SÍS þessa nýju breytingu Samvinnuskólans; á fundi stjórnarinnar varð ágreiningur um málið. - 22.4.1988 samþykkti samstarfsnefnd um háskólastigið almenna tillögu um málið.
27.4.1988 barst samþykki og heimild Menntamálaráðuneytisins um fyrirætlanir um sérskóla á háskólastigi; en skýrt var tekið fram að ríkið tæki ekki ábyrgð á framkvæmdinni og hún væri án allra skuldbindinga, m.a. um fjárveitingar; heimildin barst þremur dögum fyrir skólaslit vorið 1988, löngu eftir að námið hafði verið auglýst og byrjað að ræða við umsækjendur. - 1.5. 1988 fyrstu stúdentar útskrifaðir frá Bifröst. - Í júní 1988 var ráðstefna samvinnuskóla í Stokkhólmi og Saltsjöbaden í Svíþjóð og efni safnað um sérskóla á háskólastigi frá Norðurlöndum. - 1.8.1988 hefjast störf á háskólastigi á Bifröst, en fyrst um sinn var Samvinnuskólinn bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi; var stefnt að diplómanámi í sambærilegum stíl við námsbrautir sem þá voru dönsku gráðurnar ,,almen erhvervsøkonomisk uddannelse" og ,,Handelsvidenskabelig Afgangseksamen", norska gráðan ,,højskolekandidat" og breska námsgráðan ,,Higher National Diploma". - Samvinnuskólinn var áfram á fjárlögum sem framhaldsskóli um margra ára skeið og fékk engar sérstakar viðbætur í fjárveitingum.
Í júní 1989 var evrópsk ráðstefna verslunarskóla í Glasgow og kynnisferð farin í sérskóla þar og í nágrenni borgarinnar. - 13.11.1989 samþykkti skólanefnd frumvarp að skipulagsskrá Samvinnuháskólans sem sjálfseignarstofnunar. - 14.11.1989 samþykkti stjórn SÍS sama frumvarp; þótti slík ráðstöfun skynsamleg, m.a. í ljósi þeirra erfiðleika sem Sambandið stóð frammi fyrir. - 31.1.1990 var skipulagsskráin opinberlega birt: Samvinnuháskólinn ses., og tók gildi daginn eftir, 1.2.1990. - 16.3.1990 setur skólanefnd nýja Reglugerð fyrir Samvinnuháskólann. - 27.5.1990 voru fyrstu rekstrarfræðingarnir brautskráðir með diplóma að loknu tveggja ára námi á háskólastigi frá Samvinnuháskólanum á Bifröst. - Í maí 1990 var gerð þróunaráætlun til fimm ára, með þriðja námsári og bakkalárgráðu, B.S.-gráðu, frá Bifröst, en Menntamálaráðuneytið og Bandalag háskólamanna BHM höfðu áður gert það samkomulag að háskólastig og háskólapróf hlyti að byggjast á þriggja ára námi hið minnsta. - Í júní 1990 var sótt evrópsk skólaráðstefna verslunarskóla í Barcelona á Spáni og upplýsingum safnað þar; um sama leyti var upplýsinga og ráðgjafar leitað til stórs hóps háskólamanna og stjórnenda og millistjórnenda í íslensku atvinnulífi. - Haustið 1991 var unnið að fyrstu drögum að reglum um nýja Framhaldsdeild er veita skyldi B.S.-gráðu frá Bifröst. - 26.2.1993 samþykkti skólanefnd tillögu um bakkalárgráðu, B.S.gráðu, tilhögun, röðun námsgreina, lokaverkefni og kennsluskipan. - 22.3.1993 var enn sent bréf til Menntamálaráðuneytis um fyrirætlanir um B.S.gráðu. - 23.4.1993 sendi Menntamálaráðuneytið málið áfram til Samstarfsnefndar um háskólastigið. - 20.10. 1993 samþykkti skólanefnd stofnun ,,Rekstrarfræðadeildar II" sem yrði þriðja námsár og lyki með B.S.-gráðu. - 3.12.1993 samþykkti kennarafundur starfsreglur og framkvæmdarákvæði um B.S.-gráðu og voru þær sendar áfram til hóps ráðgjafa í íslensku atvinnulífi og háskólastofnunum. - 3.3.1994 var gengið frá endanlegri gerð og jafnframt samþykkti kennarafundur að æskja þess að akademískt gæðamat fari fram á öllu starfi skólans hið fyrsta. - 20.4.1994 átti rektor fund með Menntamálaráðuneytinu um þessar óskir um gæðamat. - 2.5.1994 birtist samþykki Menntamálaráðuneytisins fyrir B.S.-gráðu í samræmi við tillögurnar. - 19.5. 1994 samþykkti skólanefnd stefnu Samvinnuskólans til næstu ára. - 29.8.1994 hófst kennsla á 3. ári til B.S.gráðu. - 20. maí 1995 voru fyrstu rekstrarfræðingar með bakkalárgráðu, B.S.-gráðu, brautskráðir frá Bifröst að loknu þriggja ára námi.
IV
Með þessum breytingum var að því stefnt að Samvinnuskólinn/Samvinnuháskólinn fengi aftur stöðu sem lokastig skólagöngu fyrir stjórnunar- og ábyrgðarstörf í atvinnulífinu. Slíka stöðu hafði skólinn við stofnun 1918 og lengi síðan og var það í samræmi við markmið og tilgang skólans. Þessi staða, sem lokastig fyrir ábyrgðarstörf, var meginforsendan undir öllu starfi Samvinnuskólans áratugum saman áður en íslenska skólakerfið tók að opnast og þroskast. Nú var staða skólans könnuð og greind á ný í gerbreyttu umhverfi og sú afstaða tekin að honum bæri að verða aftur slíkt lokastig. Á ráðstefnu um félags- og fræðslumál samvinnumanna sem haldin var árið 1978 hafði verið fjallað um þessi sömu mál í svipuðum anda, og í viðtali í byrjun þessa breytingaferlis komu sömu viðhorf fram hjá sr. Guðmundi Sveinssyni fyrrverandi skólastjóra Samvinnuskólans sem nú var rektor Fjölbrautaskólans í Breiðholti.
Samvinnuskólanum og síðar Samvinnuháskólanum var sett sérstakt aðalmarkmið í reglugerð og síðar skipulagsskrá: ,,að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf og samfélag." Með þessu var sérstaða þessa skóla ítrekuð með ótvíræðum hætti. Nú var samvinnuhreyfingin að víkja til hliðar í atvinnulífi og þjóðlífi, og því varð það einnig að ráði að leggja niður alla beina tengingu við hana og fyrirtæki hennar í kennslunni. Aftur á móti var víðtækt innra samstarf og samvinna einkenni á þeirri kennsluskipan og kennslufræði sem skólanum var ákvörðuð í þessum breytingum. Því þótti vel viðeigandi, auk annarra málsástæðna, að halda orðinu ,,samvinna" í reglum og nafni skólans eftir sem áður.
Samhliða þeirri greiningu á stöðu skólans sem ofar er nefnd var leitast við að leggja á það mat hverjum hlutverkum skólinn gæti sinnt fyrir atvinnulífið í landinu á komandi tímum og hvers konar fyrirtæki og samtök gætu einkum orðið fyrir valinu sem viðmið í störfum skólans. Niðurstaða varð sú að menntun á grunnáföngum háskólastigs í starfsmenntaháskóla hentar einkum smáum fyrirtækjum og meðalstórum á íslenska vísu, opnum samtökum almennings og sveitarfélögum. Eðlilega var þá ekki síst horft til fyrirtækja og samtaka á landsbyggðinni, enda þótt slíkt væri ekki sett sem eina viðmiðun. Erlendar hliðstæður sýndu samsvaranir við þetta mat og þessa viðmiðun. Vestan hafs var til dæmis vel kunn sú afstaða að diplóma-nám á grunnstigum háskóla hæfði vel skóla með slíka viðmiðun í atvinnulífi, og reyndar einnig bakkalárgráða, en verkaskipting og stjórnunaraðstæður í stærri fyrirtækjum kölluðu á meiri sérhæfingu í lengra háskólanámi stjórnenda og millistjórnenda. Könnun aðstæðna í íslensku atvinnulífi benti til þess sama. Miðað við þetta urðu samvinnufélögin augljóslega áfram hluti af viðmiðun Samvinnuháskólans, við hlið annars atvinnurekstrar og félagastarfs í landinu.
V
Háskólastarf hafði löngum verið í föstu og hefðbundnu móti á Íslandi. Háskóli Íslands var aðallega skóli embættismanna- og framhaldsskólakennara og hafði lengst af einbeitt sér að grunnáföngum háskólastigs og stjórnsýslubrautum, en smám saman styrktust þar einkenni rannsóknaháskóla einnig. Þær breytingar sem hér getur fólu það í sér að efnt var með nýjum hætti til háskólastarfsemi á Íslandi. Starfsmenntaháskólar höfðu ekki notið formlegrar viðurkenningar í landinu sem slíkir fram til þessa. Þó var ljóst að Búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri, skipherradeild Stýrimannaskólans í Reykjavík, efsta stig vélfræði í Vélskóla Íslands, efstu stig Tækniskóla Íslands, lokaáfangar listaskólanna og lokapróf Hjúkrunarskóla Íslands, Þroskaþjálfaskóla Íslands og Kennaraskóla Íslands töldust öll til háskólastigs í alþjóðlegu mati, enda þótt flokkuð væru til framhaldsskólastigs hérlendis.
Í grófustu dráttum hafa starfsmenntaháskólar þá sérstöðu að þeir starfa fyrst og fremst eða aðeins á fyrstu áföngum háskólastigs, flestir á einu eða tveimur fyrstu námsárum þess. Í öðru lagi einbeita þeir sér flestir að einu eða fáum tengdum sviðum, en eru ekki víðtækar deildaskiptar fjölfræða- eða alfræðastofnanir. Í þriðja lagi leggja þeir aðaláherslu á kennslu, þjálfun og beinan undirbúning námsmanna fyrir hagnýtingu, undir tiltekin sérhæfð störf, en leggja þá miklu minni áherslu á rannsóknir eða grunnrannsóknir. Þessi tilteknu störf eru yfirleitt á vettvangi atvinnulífsins en ekki embættisframi eða svokölluð sérfræðivinna. Í stað rannsókna leggja þeir áherslu á hagnýt og hagnýtt verkefni við stjórnsýslu, ráðgjöf, stjórnun, viðskipti, mannvirkjagerð, tækniþróun, listir, uppeldi, kennslu og annað slíkt sem beinlínis tengist kennslunni og sérsviðum hvers skóla. Að þessu leyti mætti reyndar segja að þeir beri svipuð einkenni sem lagadeildir með lögfræði- og embættisstörf að markmiði, guðfræðideildir með prestsstörf að markmiði, heimspekideildir með kennarastörf að markmiði eða læknadeildir með læknisstörf að markmiði, að því leyti sem þessi hefðbundnu akademísku svið tengjast beinlínis væntanlegum starfsferli námsmanns og tengdum hagnýtum og hagnýttum verkefnum.
Alþjóðastofnanir, svo sem t.d. Efnahags- og framfarastofnunin OECD, hafa um langt skeið lagt til grundvallar að grunnskólastig taki til 9 námsára og framhaldsskólastig til 3 námsára. Á Íslandi er hefðbundið að skilgreina skil skólastiga með mjög ólíkum hætti: grunnskóli til 10 námsára og síðan framhaldsskóli til 4 námsára. Alls er hér um tveimur árum lengri skólagöngu að ræða en víða tíðkast, og eru þó ýmis frávik í ýmsum þjóðlöndum heims. Allar þessar skilgreiningar og alþjóðlegu mælistikur í skólamálum hafa lengi notið takmarkaðs skilnings í umræðum úti hér og hefur það valdið margvíslegum ruglingi og misskilningi.
Framhaldsskólabyltingin á Íslandi varð frá miðjum sjöunda áratug 20. aldar og fram á níunda áratuginn. Með henni urðu víðtækar breytingar á skólagöngu Íslendinga og geysileg fjölgun skólagenginna, ekki síst við þátttöku kvenna. Framhaldsskólar spruttu upp víða um land og nýir voru stofnaðir í þéttbýli. Þegar leið á 9. áratuginn gat ekki hjá því farið að framhaldsskólabyltingin verkaði á marga eldri skóla á framhaldsskólastigi, og ekki síður beinlínis á þróun og aðstöðu háskólastigsins. Talsverðar umræður urðu því m.a. um svonefnda ,,sérskóla á háskólastigi" sem eru starfsmenntaháskólar. Þá var miðað við fyrirmyndir í nágrannalöndum í háskólum sem báru heiti eins og distriktshøjskole, högskola, yrkeshögskola, polytechnic, business college, handelshögskola, community college, technical college, two year college, college of higher education, college of further education, technikum, højskolesenter, Handelshochschule, Fachhochschule, Berufsakademie, institute of technology, agricultural and mechancial university, école nationale des ponts et chaussées, og fjöldamörg fleiri dæmi mætti telja. En slíkar stofnanir eru ákaflega margar í öllum nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs.
Á sömu árum sem Samvinnuskólanum var breytt urðu sambærilegar breytingar einnig í nokkrum öðrum sérskólum. Verslunarskóli Íslands í Reykjavík stofnaði Tölvuháskóla VÍ, en hann varð m.a. grunnur að Háskólanum í Reykjavík. Þroskaþjálfaskóli Íslands og Hjúkrunarskóli Íslands færðust upp á háskólastig. Tækniskóli Íslands efldist, og Háskólinn á Akureyri tók til starfa. Á eftir Hvanneyri varð Samvinnuháskólinn á Bifröst fyrsti háskólinn á Íslandi með eigin heimaþyrpingu, ,,campus". Rétt er að geta þess að í fyrstu var ekki ráðgert að breyta nafni stofnunarinnar. Niðurstaða reynslu Verslunarskólans og Samvinnuskólans varð sú sama sem Kennaraskólans áður að óhjákvæmilegt væri að taka upp nafn ,,-háskóla" - vegna kynningarmála, vegna námsmanna og vegna stöðu stofnananna í fræðslukerfi þjóðarinnar.
VI
Athyglisvert var að þetta þóttu nýmæli á Íslandi og vöktu jafnvel hneykslun og fyrirlitningu sumra enda þótt allar nágrannaþjóðir þekktu ákaflega margar og fjölbreytilegar skólastofnanir í löndum sínum af þeim gerðum sem ofar eru nefndar. Stúdentsprófið stóð eins og kökkur í hálsi margra, og hefur sá kvilli lengi enst mönnum á landi hér. Margir hafa talið það óhjákvæmilegt skilyrði háskólastigs yfirleitt að fræðilegar akademískar rannsóknir, helst frumrannsóknir, yrðu í fyrirrúmi auk kennslu í sama anda. Sem dæmi má nefna að í nefnd til að undirbúa frumvarp að nýjum lögum um háskóla árið 2005 reyndist mjög erfitt að fá fram víkkun í skilgreiningum á viðfangsefnum háskóla út fyrir þröng hefðbundin akademísk rannsóknaviðhorf; nokkur orð fengu þó að fljóta með í greinargerð. Og haustið 2013 lét þjóðkunnur fjáraflamaður með hugann við lyfja- og lækningarannsóknir svo um mælt í Ríkisútvarpinu að Bifrastarskólinn hefði ,,ekkert lagt til íslensks samfélags" og vissi trúlega fátt um skólann, áherslur eða markmið hans.
Ef litið er til nágrannaþjóðanna, hvort sem er vestan eða austan hafs, sést í sjónhendingu að hvarvetna er háskólastigið samsett af mjög fjölbreytilegum skólum og stofnunum sem starfa saman og miðla námsmönnum og fræðimönnum milli sín með ýmsum hætti. Hvarvetna standa alfræðastofnanir eða rannsóknaháskólar, Universitäten, universities, universiteter, fremst í fylkingunni og hvarvetna er áhersla lögð á rannsóknir og grunnrannsóknir auk fræðslu. En jafnframt eru hvarvetna fjölmargir háskólar og sérskólar sem leggja megináherslu á fræðsluna sjálfa og á önnur verkefni auk kennslunnar, á framfylgju og hagnýtingu fræða og vísinda, á stjórnsýslu, viðskiptastjórnun, mannvirkjagerð, tækniþróun, kennslu og uppeldi, listsköpun, lækningar, lögmannsstörf, prestsstörf, skipstjórn, flugstjórn, vélstjórn, meistarastörf í iðngreinum, hjúkrunar- og umönnarstörf, og margt fleira.
Af þessum hefðbundnu viðhorfum á Íslandi leiðir margs konar misskilning í háskóla- og menntamálum. Eflaust má skýra og afsaka margt í þessu sem afleiðingu af áhuga manna á því að efla og styrkja Háskóla Íslands og af vitund manna um takmarkanir hans og veikleika, að menn hafi ekki viljað ,,dreifa" átakinu og ekki talið að þjóðin hefði afl til slíks. Önnur skýring kann að vera málfarsleg. Á íslensku tölum við um ,,háskóla" í mjög víðri merkingu. Á tungumálum skyldþjóðanna tala menn um ,,college", ,,institute", ,,Hochschule" eða ,,højskole" annars vegar og hins vegar um ,,university", ,,Universität" eða ,,universitet". Til þess að mæta þessu gerði Sveinbjörn Björnsson rektor Háskóla Íslands einu sinni tillögu um orðin fjölfræðasetur eða alfræðasetur um þetta síðast nefnda; oftast er reyndar notað heitið rannsóknaháskóli. Öllum er ljós skýr munur á þessum megingerðum háskólastofnana erlendis og veldur þar hvergi ruglingi eða hugarangri.
Sem dæmi má nefna umræður um fjölda háskóla í landinu. Eðlilegt er að menn miði m.a. við mannfjölda og spyrji þá hverjar þarfir samfélags með um 320 þúsundir manna eru í þessum efnum. Frá sjónarmiði námsmannsins liggur svarið beint við: Nám og kennsla er samtal, og forsendur og hæfni kennara eru mikilvægar, og einnig að námsmenn séu ekki fleiri en svo saman að hver þeirra geti komist að í þessu samstarfsverkefni; þá varðar fjöldi stofnana litlu. En ef litið er til samfélagsins alls og alþjóðlegra viðmiða fer æskilegur fjöldi stofnana alveg eftir einkennum þeirra, hlutverkum og gerð, svo og eftir samstarfsferlum þeirra í milli. Hæpið er að slíkt samfélag starfræki fleiri en einn víðtækan og deildaskiptan rannsóknaháskóla eða alfræðastofnun sem veitir doktorsgráður, en tveir háskólar veiti meistaragráður, og ef til vill einhverjir sérskólar í samstarfi við aðra. Slíkt samfélag á að geta borið tvo til þrjá háskóla alls sem veita bakkalárgráður, auk einhverra sérskóla í samstarfi við aðra. En sérskólar á háskólastigi og svonefndir starfsmenntaháskólar eða fagháskólar á grunnáföngum háskólastigs, sem einbeita sér hver að einu eða fáum tengdum sviðum og veita diplóma, ættu að geta verið talsvert fleiri.
Um fjölda slíkra skóla í nágrannalöndum ætti að nægja að vísa til reynslunnar þar og benda mönnum einfaldlega á skrár um skólastofnanir á háskólastigi í einstökum borgum og landshlutamiðstöðvum. Mjög lausleg skönnun sýnir t.d. að í Málmey í Svíþjóð starfar hátt á þriðja tug slíkra sérskóla á háskólastigi til viðbótar við Malmö Högskola og Lunds Universitet í nágrenninu. Í Kolding í Danmörku losa þeir tug; svipað verður sagt um Árósa og heldur fleiri í Sønderborg.
Þegar þær breytingar sem hér getur voru á döfinni vitnuðu menn gjarnan til skilgreininga frá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD og Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna Unesco. Áður hefur verið getið um alþjóðlegar skilgreiningar um grunnskóla, 9 námsár, og framhaldsskóla, 3 námsár. En af þessu leiðir þá að háskólastig er talið frá og með 13. formlegu fullu námsári nemandans. Öll formleg skipuleg fræðsla að loknum tólf fullum námsárum telst þá til háskólastigsins. Hér á landi reyndist harla erfitt að skýra þær staðreyndir að háskólar eru margs konar og alls ekki allir skipulagðir og starfræktir að hætti Háskóla Íslands. Allar slíkar hugmyndir um víkkun og jarðtengingu í þessum efnum hafa lengi mætt tortryggni og ugg víða.
Breytingarnar á Samvinnuskólanum/Samvinnuháskólanum höfðu aðra innri hlið sem í raun var miklu róttækari og nýstárlegari en skólastigið. Upp var tekin samræmd hagnýt kennslufræði og kennsluskipan sem byggðist beint á kennslufræðinni. Einstök atriði og þættir þessarar kennsluskipanar voru kunn, ekki síst erlendis, en samsetningu, tilhögun og útfærslu hér má telja sérstæða að nokkru leyti.
Ein sérstaða þessarar kennsluskipanar var sú að öllum kennurum var gert skylt að framfylgja henni með samræmdum hætti. Kennarar Samvinnuskólans/Samvinnuháskólans voru með öðrum orðum sviptir því frjálsræði og sjálfræði um vinnubrögð sem er eitt aðaleinkenni á stöðu kennarans og háskólakennarans alveg sérstaklega. Meðal annars var öllum kennurum ætlað að leggja fyrirfram inn nákvæm undirbúningsgögn fyrir hvert misseri, með efnislýsingum, útdráttum fyrirlestra, viðfangsefnum hópa, heimildaskrám og tilvísunum til rita, yfirliti um námskröfur o.s.frv. Slík gögn voru tekin sameiginlega til umræðu á kennarafundum fyrirfram fyrir hvert misseri, og þá tekin sameiginleg afstaða til þess hvort einhvers staðar væri misræmi, tvíverknaður, efnisleg göt eða eitthvað slíkt annað sem bæta þyrfti úr þegar í stað. Rétt er að minna á að þessi vinnubrögð voru tekin upp áður en menn höfðu kynnst þægindum þeirrar tölvuvinnslu sem nú er alsiða.
Annað nýmæli á þessum tíma var virk gæðastjórnun í öllu starfinu. Til þess var ætlast m.a. að kennarar fjölluðu hver um viðfangsefni annars, og námsskrár og námslýsingar yrðu staðfestar fyrirfram sameiginlega á kennarafundum. Auk þess var leitað út fyrir skólann að áliti sérfræðinga og stjórnenda í atvinnulífi. Á hverju misseri voru námsmenn spurðir formlega um kennsluna, gæði hennar og framgang, efni og efnismeðferð, námskröfur og hagnýti námsins. Voru samdir sérstakir spurningalistar um þetta sem námsmenn notuðu. Svör voru að lyktum tekin saman og dreift og þau rædd sameiginlega á kennarafundum. Þannig varð hver kennari að sæta slíku eftirliti og aðhaldi á hverju misseri. Rétt er að minna á að þetta var tekið upp árið 1988 og studdist að hluta til við margra ára reynslu áður í Samvinnuskólanum. Unnið var alveg frá byrjun Samvinnuháskólans að því að fá opinbert ytra gæðamat á skólann sem Menntamálaráðuneytið annaðist um nokkrum árum síðar og lauk í ársbyrjun 1997.
Námsbraut Samvinnuháskólans var nefnd ,,Rekstrarfræðadeild" og var tveggja námsára diplóma-braut. Fjárveitingum ríkisins til Samvinnuháskólans var þannig farið að ásamt tiltölulega háum skólagjöldum námsmanna hrukku tekjur skólans engan veginn til fræðslu námshópa og áfanga að hætti háskóla almennt. Fjárveitingarnar miðuðust áfram við mælistikur framhaldsskólastigsins og hækkuðu ekki að raungildi. Því varð óhjákvæmilegt að kenna námsmönnum á báðum námsárum saman, slá allri kennslunni í eina samfellu í sparnaðarskyni. Misserum námsbrautarinnar var þannig ekki raðskipað heldur hliðskipað, og sameiginlega fjallað um tiltekið eitt meginsvið á hverju misseri. Minnti þetta að sínu leyti nokkuð á hefðbundna efnisröðun í sumum deildum Háskóla Íslands á fyrri tíð. En í þessu fólust líka áhugaverð kennslufræðileg tækifæri. Við þetta voru námsmenn á 2. ári og 1. ári saman, unnt var að blanda árgöngunum saman í náms- og verkefnahópum og nýta þannig jafningja-aðstoð náminu til framgangs.
Fjárhagslegar ástæður vógu einnig þungt þegar ákvarðanir voru teknar um stærðir námshópa og kennsluaðferðir. Þannig voru allir námsmenn, á báðum námsárum saman, í fyrirlestrum á hverju misseri. Með þessu var unnt að beina miklu meira fé en ella hefði verið til fræðslu smáhópa, verkefnavinnu í smáhópum, svo og til leiðsagnar og aðstoðar beint við einstaklinga í hópi námsmanna. Fyrirlestrar voru mjög fáir og ætlaðir beinlínis sem inngangur að efninu, yfirsýn og yfirlitsfræðsla. Hópatímar voru aftur á móti margir og meginþáttur námsins, með gagnvirkum aðferðum, samtölum, útskýringum og samvinnu. Samkvæmt þessu var stundaskrá skipulögð miðað við námsefni og einnig miðað við einstaklinga og misstóra námshópa, en kennsluaðferð og tilhögun mótuð og fyrirskrifuð sérstaklega fyrir hvern þátt. Í fyrirlestrum voru allir námsmenn saman, en skiptust síðan á u.þ.b. 9 - 12 manna hópa, og loks átti hver námsmaður rétt á viðtalstímum við kennara samkvæmt stundaskránni. Reglur kváðu skýrt á um einhliða fyrirlestramiðlun þegar við átti og á hinn bóginn um gagnvirkar aðferðir samstarfs í hópatímum. Stundataflan var þannig miðuð ekki aðeins við tíma, stað, áfangahóp, námsefni og kennara eins og alls staðar tíðkast, heldur bættust einnig við mælistikurnar: stærð námshóps og kennsluaðferð.
Kennurum var ætlað að taka saman efnisþætti, glærur og útdrætti úr öllum fyrirhuguðum fyrirlestrum komandi misseris og dreifa þessu fyrirfram til námsmanna, en í fyrstu voru ekki tæknilegar aðstæður til að taka fyrirlestra beinlínis upp og dreifa þannig rafrænt. Það var einnig tekið upp í vaxandi mæli þegar er tæknilegar aðstæður leyfðu. Þegar þar var komið sögu hafði reglum um skyldusókn námsmanna í fyrirlestra verið breytt. Síðar var þessi tækni auðvitað notuð til fulls við fjarkennslu á vegum skólans.
Hverju misseri var skipt í tiltekna áfanga eða stig. Framan af hverju misseri stunduðu námsmenn fyrirlestra og verkefnavinnslu í hópatímum. Nokkru eftir miðju misseris var öllu starfinu sprett upp heila viku í samþætt raunhæft verkefni að hætti atvinnulífsins sem allir námsmenn og allir kennarar tóku virkan þátt í. Var námsmönnum þá skipt í sérstaka hópa sem störfuðu að sjálfvöldu, en samþykktu, verkefni, og vikunni lauk með sýningu, frásögu og skýringum hópsins. Mótuðust merkilegar hefðir og reglur um tilhögun samþættinga. Mjög athyglisverð reynsla varð af þessum samþættu vikuverkefnum í Samvinnuháskólanum og Samvinnuskólanum áður. Að þessu loknu héldu námsmenn, í nýjum hópum, til starfa við sjálfvalið samþykkt verkefni úti í samfélagi og atvinnulífi og störfuðu að því til loka misserisins. Í misserislok voru loks haldnar miklar málsvarnir hvers hóps, þar sem hópurinn lagði fram greinargerð sína og mælti fyrir henni á opnum fundi og svaraði síðan fyrirspurnum og gagnrýni kennara. Kennurum var skipt í smáhópa til að fjalla um og meta verkefnin. Mjög markverð reynsla varð til um samþætt verkefni og málsvarnir, en í þessu fólst mjög mikil fyrirhöfn og sameiginleg skipulagsvinna og matsgerð kennara. Var lögð sérstök rækt við þjálfun í greinargerðum námshópa, bæði skriflegum og munnlegum, í alhliða samstarfi hópsins þar sem kröfur voru gerðar til allra námsmannanna, til viðbragða og leiðréttinga eftir athugasemdir kennara, og loks til lokaskila. Gera má ráð fyrir að skipulagsgögn og skráðar reglur um þetta allt séu ennþá til á skjalasafni Háskólans á Bifröst, svo og sjálfsmatsskýrsla og önnur gögn um gæðamat.
Nú verður lesanda þegar ljóst að örðugt er að samræma slíka kennsluskipan við svonefnt akademískt frelsi. Áður hafa takmarkanir á frelsi kennaranna verið nefndar. Að sama skapi gerði kennsluskipanin ráð fyrir skyldusókn námsmanna í fyrirlestra, hópatíma, samþættingu, verkefnavinnslu og málsvarnir, enda ljóst að þessu kerfi verður einfaldlega ekki framfylgt án fullrar þátttöku. En auk þessa voru flestir hópar og verkefnahópar myndaðir sameiginlega og urðu námsmenn að lúta þeirri skiptingu. Þetta var skýrt meðal annars með skírskotun til þess að í atvinnulífinu ráða menn alls ekki samstarfshópi sínum heldur verða að una þeim starfsmannahópi sem um er að ræða á hverjum vinnustað. Aftur á móti kváðu reglur alveg skýrt á um frelsi kennara og námsmanna til tjáningar og sjónarmiða, til fræðilegrar og hagnýtrar umfjöllunar um námsefni og skyld mál, svo og í vali nemenda um verkefni og í ákvörðunum hvers kennara um eigin verkefni, rannsóknir og ráðgjöf. En um það ríkti enginn vafi að hagnýt og hagnýtt verkefnavinna í hópum, tengd aðstæðum og viðfangsefnum atvinnulífsins, var þungamiðja og megináhersla í öllu starfinu.
Í ákvörðunum um námsefni og námssvið var sérstök áhersla lögð á það að fylgja ekki efni, efnisröðun eða efnistökum í tilteknum kennslubókum. Námssvið voru mótuð, aðgreind og undirbúin eftir hagnýtingu þeirra hvers um sig í fyrirtækjum en ekki eftir þeim venjum sem mótast hafa við erlenda háskóla þar sem höfundar kennslubóka starfa. Úr þessu varð feikileg undirbúningsvinna fyrir kennarana, og skólinn hlaut að standa fyrir talsverðri fjölföldunarvinnu til þess að halda kostnaði námsmanna í skefjum. Stefnumið allra námssviða varð hagnýting, rauntenging og þjálfun námsmannanna fyrir störf í atvinnulífinu. Í þetta var lagður mikill metnaður, en viðurkenna ber að með árunum sigu námsbækurnar aftur á og alkunnar námsgreinar tóku við af sértækum námssviðum í skólanum.
Í samræmi við markmið og viðmiðanir var námsmat stöðugt allt frá fyrstu viku misseris. Meginhluti lokaeinkunnar mótaðist af verkefnum í hópavinnu, samþættingu og lokaverkefni með málsvörn. Lokaprófið sjálft var haldið nokkru fyrir lok misseris og var aðeins hluti lokaeinkunnar, vóg 30 % á móti öðrum verkefnum námsmanna. Reglur voru settar um heimildir námsmanna til að fá óháðan prófdómanda. Lokapróf voru heimildapróf og reyndu mjög á leikni og skipulag námsmanna við að nýta heimildir og gögn. Einkunnastiginn var miðaður beint við markmið námsbrautarinnar og við það annað, að ýta ekki undir samkeppni námsmanna innbyrðis, og við hitt, að ekki yrði of mikil vinna kennara við einkunnagjöfina. Einkunnastiginn var samkvæmt þessu: Staðist / ekki staðist, en auk þess: frábært / nóg en á mörkum. Þetta einkunnakerfi var óvenjulegt og reyndist erfitt í framkvæmd. Var horfið frá því að nokkrum árum liðnum og vægi lokaprófs aukið.
Við ákvarðanir um námsefni og námskröfur á tveggja ára námsbraut til diplóma-prófs í rekstrarfræðum var við það miðað að öll áhersla lægi á verklegum, hagnýtum og hagnýttum þáttum. Efni og kröfum í stærðfræði, tölfræði og hagfræðilegum kenningum var því stillt í hóf á móti, svo og ýmsum efnisþáttum sem tilheyra framhaldsáföngum rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði, reikningshalds og ársreikninga. Sama átti við um ýtarlega ritgerðasmíð einstaklinga. Þegar til þess kom að þriðja námsári yrði bætt við með B.S.-gráðu urðu þessir efnisþættir því mestu ráðandi á lokaárinu. Þessi efnisröðun studdist við markmið og stöðu skólans og inntak kennslufræði hans, en efnisröðunin var óvenjuleg og var að miklu leyti horfið frá henni síðar.
Augljóst er af þessari lýsingu að námsskipanin bar tvö mikilvæg almenn einkenni. Annars vegar einkenndist hún af víðtækri samvinnu námsmanna innbyrðis, samvinnu kennara innbyrðis og ekki síður samvinnu kennara og námsmanna. Þetta var í senn erfitt, fyrirhafnarsamt og þó ótrúlega skemmtilegt í reyndinni. Margt bar til tíðinda, stundum tekist á og blásið hressilega en oft var líka hlegið og fagnað. Hins vegar einkenndist námskipanin af stöðugum skírskotunum til atvinnulífsins, vinnubragða þar og til hagsmuna, aðstæðna og þarfa atvinnufyrirtækjanna. Reynslan varð, sem löngum fyrr í liðinni sögu Samvinnuskólans áður, að margir námsmenn frá Bifröst þóttu vel búnir undir störf, nýsköpun, frumkvæði, átök, álag, streitu, framlag, samstarf og ábyrgð í atvinnulífinu. Er óhætt að segja að íslenskt atvinnulíf tók vel undir með Samvinnuháskólanum í ráðningum brautskráðra námsmanna til áhugaverðra starfa, ábyrgðar og frama.
VIII
Eins og framar segir er það eitt einkenni sérskóla á háskólastigi, fagháskóla og starfsmenntaháskóla að þar er ekki lögð sama áhersla á rannsóknir og frumrannsóknir sem í rannsóknaháskóla eða alfræðaháskóla, Universität. Alþekkt er víða um lönd að rannsóknaskylda sé minni í slíkum skólum og skilgreind með öðrum hætti. Þannig viðurkenna listaháskólar listsköpun og listskýringu að einhverju leyti á móti rannsóknaþættinum; verkfræði- og tæknifræðiskólar meta störf við mannvirkjagerð eða tækniþróun; viðskiptaskólar störf við ráðgjöf, stjórnun eða sérfræðivinnu við atvinnufyrirtæki. En í öllum atvikum er þó um einhverja rannsóknavinnu að ræða sem starfshluta og einnig gert ráð fyrir rækilegri og vandaðri skýrslugerð og greinargerðum kennara um slík verkefni.
Við Samvinnuháskólann á Bifröst var frá upphafi gert ráð fyrir um það bil helmingi minni rannsóknaskyldu en miðað er við í Háskóla Íslands. Í öðru lagi var með vitund Menntamálaráðuneytisins ákveðið að skilgreiningar rannsóknarverkefna yrðu með sérstæðum hætti. Þannig mat Samvinnuháskólinn ráðgjafarverkefni og sérstök stjórnunarverkefni miðað við vandaða greinargerð kennara. Árlega fékk Samvinnuháskólinn dr. Þóri Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands og síðar ríkissáttasemjara, í heimsókn að Bifröst. Fór dr. Þórir vandlega yfir allar greinargerðir og skýrslur kennaranna fyrir liðið ár, kannaði forsendur þeirra og fór jafnframt yfir þætti í námslýsingum liðins námsárs í skólanum. Veitti hann síðan kennurum og skólastjóra yfirlit um athuganir sínar og lagði mat á störfin. Þessi ytri aðstoð var Samvinnuháskólanum ómetanleg, en kennararnir fengu hér óháð ytra mat sérfræðings á öllu starfinu, bæði sameiginlegum þáttum og einstaklingsbundnu framlagi sínu. Þetta skipti miklu máli, ekki síst í upphafi og áður en Menntamálaráðuneytið gat sett alþjóðlegt gæðamat af stokkunum. Þegar B.S.-gráða var veitt var dr. Runólfur Smári Steinþórsson dósent við Háskóla Íslands fenginn sem prófdómari með sambærilegu umboði sem dr. Þórir Einarsson. Eru hér dæmi um samstarf sérskóla við óháðan ytra matsaðila frá öðrum stærri og viðurkenndum háskóla til að tryggja forsendur, stöðu, þróun og gæði.
Samvinnuháskólinn lýsti opinberlega yfir því að meginviðfangsefni hans væri kennsla og þjálfun námsmanna, umfram rannsóknavinnu kennara. Í annan stað lýsti skólinn því opinberlega að hann starfaði beinlínis í þjónustu atvinnulífsins og atvinnufyrirtækjanna á Íslandi. Það fór aldrei á milli mála af hálfu skólans að markmið hans og meginstef í kennslufræði og allri starfsemi greindu sig greinilega frá hefðbundnum rannsóknaháskólum eða alfræðasetrum.
Með vitund Menntamálaráðuneytisins hóf Samvinnuháskólinn að beita raunfærnimati við umsóknir um skólavist. Skólinn vildi leggja sérstaka áherslu á að ná til sín þroskuðum einstaklingum til náms, fólki á þrítugs- og fertugsaldri, og vildi geta komið til móts við forsendur þess úr fyrra skólanámi, námskeiðum og sérgreindri starfsreynslu. Í þessu var auðvitað flókin frumvinnsla, en hún gaf yfirleitt ágæta raun. Námsmenn sem komu til náms í Frumgreinadeild eða jafnvel beint í Rekstrarfræðadeild fyrir tilstyrk raunfærnimats stóðu sig langflestir mjög vel og luku námi sínu með sóma. Minnt skal á að þetta var tekið upp þegar árið 1988.
IX
Velunnarar skólastarfs á Bifröst töldu það skipta máli að skólinn starfaði áfram á sama stað og töldu þetta skerf til byggðastefnu og byggðaþróunar. Setrið á Bifröst í landi Hreðavatns í Norðurárdal er býsna vel í sveit sett, á Miðvesturlandi sunnan fjalla en nærri vegamótum Norðlendingafjórðungs og Vestfjarða. Áratugum saman hafði verið góð sátt samvinnumanna af öllu landinu um þennan sameiginlega stað, og allir töldu þeir sig réttilega eiga í honum, hvar svo sem menn voru búsettir á landinu. Er af því athyglisverð saga er Vilhjálmur Þór forstjóri Sambandsins tók skarið af um staðarvalið á sínum tíma.
Um stund kom lítillega til umræðu af hálfu stjórnvalda að skólinn yrði fluttur norður í Hrútafjörð, en það varð aldrei nema skammær orðasveimur. Vegna húsþrengsla kom einnig til greina að einhver hluti skólans yrði færður í Borgarnes. Til slíks þurfti þó ekki að koma enda fengust lán úr húsnæðismálakerfinu til byggingar Nemendagarða, og var fyrsta skóflustunga tekin 21. mars 1992. Ástæður þessara umræðna voru fjárhagsþrengingar Sambands íslenskra samvinnufélaga og samstarfsfyrirtækja þess sem virtust geta hindrað uppbyggingu og jafnvel viðhald húsa á skólasetrinu einmitt á árum þeirra breytinga sem hér er lýst. Það hafði mikil áhrif á stöðu skólans að 1. desember 1985 færðu erfingjar Hreðavatnshjónanna, Sigurlaugar Daníelsdóttur og Kristjáns Gestssonar, skólanum að gjöf lóðina á Bifröst þar sem skólinn stendur. Enn styrktist skólinn 4. apríl 1990 þegar Olíufélagið hf, fyrir hönd Olíustöðvarinnar í Hvalfirði, afhenti honum eignarhluta sinn í Bifrastarfasteignum sem var þriðjungur þeirra. Sumarið 1991 afhenti Sambandið skólanum síðan annan þriðjung eignanna, og loks afhenti Vátryggingarfélag Íslands hf skólanum síðasta þriðjung Bifrastareigna til fullrar eignar árið 1997. Ekki skiptir litlu máli að í októberlok árið 1991 fannst vinnanlegt heitt vatn á Bifrastarlóðinni, og var Hitaveitufélag Norðurárdals stofnað á þeim grunni.
Við mat á stað skólasetursins má þess minnast að hvarvetna um nágrannalöndin þykir það vel henta að háskólastarf sé stundað í dreifbýli svo sem klukkstundarferð út frá höfuðborg, í eigin heimaþyrpingu eða ,,campus". Þetta þykir hvarvetna mynda hentugar aðstæður til þess næðis og einbeitingar sem nám, þjálfun og fræðastörf kalla eftir. Er einfalt að telja fjöldamörg dæmi þessa úr flestum nágrannalöndum beggja vegna hafsins, og hafa reyndar víða sprottið upp þorp eða smáborgir við þá háskóla. Ekki verður gert lítið úr gildi háskólastarfs fyrir byggðaþróun og nægir hér að vísa til Laugarvatns, Lauga, Eiða, Skóga, Núps, Hvanneyrar, Reykja í Ölfusi, Hóla í Hjaltadal og einnig til Akureyrar auk Bifrastar, og ekki síður má lengra aftur í tímann nefna reynsluna af alþýðuskólunum og héraðsskólunum áratugum saman. En hvað sem verður um byggðamál er um það aldalöng alþjóðleg reynsla að staður nokkurn spöl utan við þéttbýli hentar háskólastarfi býsna vel. Í sjálfu sér þarf skóli því ekki að höfða til byggðahagsmuna. Ekki þarf að orðlengja hverju máli framfarir í vegamálum hafa skipt í allri þessari framvindu skólasetursins á Bifröst.
Að sínu leyti mætti segja að breytingarnar á Samvinnuskólanum í Samvinnuháskólann á Bifröst hafi verið svar við horfum og framvindu í byggðamálum og skólamálum. Á sama tíma voru héraðsskólarnir óðum að víkja undan þunga framhaldsskólabyltingarinnar. Er það dapurleg saga. Skólastjóri Samvinnuskólans var á þessum árum í sambandi við séra Eirík J. Eiríksson þjóðgarðsvörð á Þingvöllum, fyrrum skólastjóra á Núpi í Dýrafirði, og séra Guðmund Sveinsson skólameistara, fyrrum skólastjóra á Bifröst. Þeir höfðu báðir miklu að miðla af reynslu og þekkingu. Arfur samvinnumanna, frá Ruskin College í Oxford og frá norrænum og evrópskum samvinnuskólum, svo og áhrif frá lýðháskólahreyfingu Friðriks Grundtvig og fylgjenda hans, þar á meðal frá Jónasi Jónssyni, skiptu einnig máli í breytingunum, enda þótt yfirbragð þeirra hlyti að hlíta aðstæðum, þörfum og horfum á líðandi stund. Í breytingunum naut skólinn öflugs stuðnings, áhuga og örvunar formanns skólanefndar sem var á fyrri stigum breytinganna Kjartan P. Kjartansson framkvæmdastjóri hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga og á síðari stigum Ólafur Sverrisson kaupfélagsstjóri Kaupfélags Borgfirðinga í Borgarnesi.
X
Eitt og annað var eftirminnilegt í þessari atburðarás. Rétt er að nefna nokkur sérstök minnisatriði. Stjórnendur Samvinnuskólans gátu fylgst með þróun umsókna og forsendum umsækjenda og urðu því snemma áskynja um djúptæk áhrif framhaldsskólabyltingarinnar um land allt. Ekki fór á milli mála að ,,fræðslumarkaður" Samvinnuskólans tók algerum stakkaskiptum á þessum árum. Þeim umsækjendum fjölgaði ár frá ári sem þegar höfðu lokið fyrstu árum framhaldsskólastigsins og væntu þess að aðfaranám þeirra yrði viðurkennt og metið. Afleiðingar framhaldsskólabyltingarinnar og nýrra grunnskóla fyrir héraðsskólana fóru ekki fram hjá neinum sem til sá. Óhjákvæmilegt varð að bregðast við þessum gerbreyttu aðstæðum. Á sama tíma herti mjög að samvinnuhreyfingunni, enda leið að lokum þess viðskiptakerfis sem hún hafði byggt upp undir forystu Sambands íslenskra samvinnufélaga. Sennilegt má telja að án gagngerðra breytinga hefði sögu Samvinnuskólans einfaldlega lokið.
Skemmtilegt er, löngu eftir á, að hugsa til þess að þessi þróun og umbreytingar í Samvinnuskólanum/Samvinnuháskólanum gátu átt sér stað af þeirri merkilegu ástæðu að það var ,,gat" í lögum um framhaldsskólastigið, en í lögum um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi var heimild til skóla að vinna að frekari framþróun starfseminnar, að ,,þróa" fræðsluna ,,áfram". Þetta var þá svo að skilja að stjórnvöld hefðu ekki heimild að sínu leyti til að hindra eða stöðva tilrauna- og þróunarstarfsemi, og Samvinnuskólinn og Verslunarskóli Íslands notfærðu sér þetta ,,gat" báðir á þessum árum, hvor með sínum hætti. Nokkru máli þótti skipta að nýta sér ,,gatið" með hraða áður en stjórnvöldin kynnu að loka því. Þetta ,,gat" í lögum fól óvart í sér frelsi og svigrúm til viðbragða og frumkvæðis.
En þar á móti verður að minnast þess að ríkisvaldið taldi sér þá engan veginn skylt að taka þátt í neinum þróunarkostnaði. Engin sérstök fjárveiting eða hækkun fjárveitingar fékkst á þessum árum til breytinganna. Og eftir sem áður fylgdu fjárveitingar mælistikum framhaldsskólans. Af þessum sökum urðu námsgjöld næsta há, en þó aldrei svo að það kæmi niður á aðsókn hæfra umsækjenda, enda fékkst viðurkenning Lánasjóðs íslenskra námsmanna á lánshæfi námsins á Bifröst.
Aðstæður samvinnufélaganna og Sambandsins á þessum tíma ollu því meðal annars að eigandi Samvinnuskólans fylgdist ekkert með breytingunum og veitti þeim ekkert eftirlit eða aðhald; óhætt er að segja Sambandið hafði nóg með sitt. Skólanefnd Samvinnuskólans tók auðvitað allar helstu stefnuákvarðanir og setti skólanum reglur og viðmið í starfsháttum. En segja verður með sanni að hún fylgdist lítið með og fundaði ekki oft. Þegar undirbúningur og aðdragandi háskólastarfa var kominn á flugstig gerðist það meira að segja á fundi skólanefndarinnar, 11. desember 1987, að sumir nefndarmenn vildu staldra við og taka sér betri tíma til að hugleiða betur horfur og valkosti; þá sá skólastjóri þann kost að víkja af fundi og bjóðast til að láta þegar í stað af starfi ef nefndin treysti sér ekki til samþykktar innan fimmtán mínútna. Nefndin samþykkti tillögur skólastjóra og þróun skólans hélt áfram. Tæpum tveimur mánuðum síðar, 9. febrúar 1988, lá við að eins færi á fundi stjórnar Sambands íslenskra samvinnufélaga, og þar kom fram eindregin andstaða og vantraust sumra stjórnarmanna og framkvæmdastjóra á fyrirætlanir þær sem fyrir fundinum lágu. Loks samþykkti meirihluti stjórnarinnar þó tillögurnar sem skólastjóri hafði borið fram.
Það var einfaldlega enginn tími veittur, og engar nefndir störfuðu og enginn sérstakur þróunarkostnaður var viðurkenndur eða greiddur. Ráðstefnuferðir skólastjóra fylgdu að mestu fyrri stofnanatengslum, fyrir utan kynnisferðina til Vesturheims, en Samvinnuskólinn hafði lengi verið í tengslum við bæði norræna og evrópska samvinnuskóla. Viðurkennd var aukavinna og fyrirhöfn kennara með einum auka-mánaðarlaunum á árinu 1988. Það var allt og sumt í því efni. Svo fór meira að segja að heimild Menntamálaráðherra um háskólastörf á Bifröst barst ekki fyrr en 27. apríl 1988, þremur dögum fyrir brautskráningu og skólahátíð, en þá var þegar búið að fjalla um verulegan hluta þeirra umsækjenda sem síðar komu til náms á háskólastigi í rekstrarfræðum í ágústbyrjun sama ár; það voru því þrír mánuðir til stefnu. Það skal viðurkennt að skólastjóri hafði ekki fyrirfram metið að breytingarnar þyrftu að gerast svo hratt sem raun varð á. Hann hafði ætlað áður að nokkur ár gætu liðið á milli tilfærslu upp á lokaár framhaldsskóla og stúdentspróf og hins vegar til upphafs starfa í starfsmenntaháskóla. Framvinda almennra skólamála í landinu ýtti mjög fast á eftir.
Ekki þarf að orðlengja hvílíkar starfsbyrðar voru lagðar á kennara Samvinnuskólans og síðar Samvinnuháskólans í þessum umbrotum. Mikil umskipti urðu í kennarahópnum sem vonlegt var og geysileg aukavinna og tímapressa. Má fullyrða að þetta tókst allt án hrakfara vegna ósérhlífni og áhuga kennaranna.
Nokkur óvænt sérverkefni bárust í hendur Samvinnuháskólans í þessum umbrotum. Allt í einu varð ljóst að skólinn yrði að starfrækja barnaheimili og leikskóla. Það var leyst með skyndingu. Taka þurfti fjöldamarga sumarbústaði í nágrenni skólans á leigu fyrir námsmenn og fjölskyldur þeirra. Brotist var í því og ýmsum tilfæringum í því skyni, símatengingum, snjóruðningi og síðar hitaveituframkvæmdum. Annað sinn fékk skólastjóri tilkynningu í aprílmánuði að óskertur grunnskóli yrði að standa til boða í upphafi næsta skólaárs ef einhverjir foreldrar ættu að fást til skólagöngu á Bifröst eða til að halda námi sínu áfram þar. Svo háttaði til að grunnskólinn að Varmalandi var rekinn með skerðingu námsstunda í staðnámi og sérstökum heimanámstímum á móti, en námsmenn í fullu námi á Bifröst treystu sér ekki til að veita þá aðstöðu sem til slíks þurfti á heimavist eða í nemendagörðum. Þetta var leyst í skyndi og teknir nokkrir aflagðir vegargerðarskúrar og aðstaða í nágrannahúsi á leigu. Grunnskóladeildin var rekin um hríð uns grunnskóli héraðsins breyttist, en leikskólanum var fengin aðstaða í fyrrverandi skólastjórabústað.
Athyglisvert var að þörf fyrir heimavist virtist lítt minnka enda þótt starfað væri á háskólastigi og meðalaldur námsmanna væri um og yfir þrjátíu ára. Vistarreglur breyttust að sjálfsögðu gersamlega, en þörf og vilji umsækjenda til að nýta sér heimavistina hvarf ekki. Nýir Nemendagarðar bættust við, svo og mörg tómstundahús á leigu í nágrenninu. Í annan stað var það sammæli allra að setrið á Bifröst hentaði sérstaklega vel, um 20 mínútna akstursleið frá Borgarnesi og tæpra tveggja klukkustunda akstursleið frá Reykjavík. Og stöðug aðsókn námsmanna frá höfuðborginni var athyglisverð. Námsmenn lýstu allir mikilli ánægju með þessa aðstöðu til einbeitingar í náminu og verkefnunum, eftir að leyst höfðu verið vandamál sem risu í byrjun vegna skólagöngu barna og barnagæslu. Reyndar varð það aukaverkefni skólastjórnenda einnig að hlutast til um atvinnuútvegun fyrir maka námsmanna, þá sem ekki voru líka í námi við skólann.
Þá kom það nokkuð á óvart að þörf fyrir Frumgreinadeild virtist ekki minnka með árunum. Þessi deild var sett upp til þess að mæta þörfum þeirra sem skorti á um undirbúning í viðskiptagreinum og tengdum greinum, en auk þess reyndist svo að marga umsækjendur sem studdust að einhverju leyti við raunfærnimat skorti á í kjarnagreinum framhaldsskólastigsins. Aðsókn í Frumgreinadeild minnkaði ekki á þeim áratug sem þetta lesmál fjallar einkum um.
Óvænt verkefni af öðrum toga var að þegar kom til þess að halda heimildapróf svo sem ráð var fyrir gert í Rekstrarfræðadeild, þá kom í ljós að skólinn hafði ekki nægilegt húsrými til að halda slík próf. Þetta var leyst í skyndi með því að kaupa bunka af byggjupappa í kassagerð Sambandsins. Úr þessu gerðu menn há spjöld sem reist voru á miðju borði á milli námsmanna svo enginn sæi til annars, en bækur sínar, möppur og önnur gögn urðu námsmenn að hafa á gólfinu umhverfis sig. Nokkur fleiri sambærileg dæmi mætti nefna til viðbótar.
Loks er að geta þess að engir fjármunir voru í neinum sjóðum Samvinnuháskólans aðfaranótt 1. febrúar árið 1990, en þá skyldi skólinn taka til starfa sem sjálfseignarstofnun. Þá brá skólastjóri sér síðla nætur suður í afgreiðslu Ríkisféhirðis í Reykjavík og stóð þar við dyr klukkan átta árdegis þegar afgreiðsla hófst, hirti fjárveitingu ríkisins til skólans og fór með hana um hæl upp í Borgarnes og lagði inn á nýjan reikning í Sparisjóði Mýrasýslu. Síðar sama dag var gripið í launakerfi sem sett hafði verið saman í tölvunni og fyrstu laun sjálfseignarstofnunarinnar greidd út. Að nokkuð áliðnum morgni kom símtal úr höfuðstöðvum Sambandsins syðra og var skólastjóra hótað kæru fyrir að stela stórfé af Sambandinu. Upplýsingar um ákvarðanir, sem stjórn Sambandsins hafði að lyktum tekið, höfðu ekki borist með þeim hætti til fjármáladeildar að menn þar á bæ hefðu getað búist við breytingum. Skólastjóri kvað fjármálastjóra frjálst að fara allra sinna ferða um Borgarfjörð, en kvaðst mundu tala við sýslumann og taka á móti fjármálastjóranum með lögbanni í hliðinu á Bifröst. Ekki varð af neinum athöfnum. Fjárhagur Samvinnuháskólans var stöðugur á fyrstu árum hans, ekkert aflögu umfram skuldbundin óhjákvæmileg útgjöld.
XI
Þess er áður getið að ákvarðanir annarra aðila urðu til þess að Samvinnuháskólinn ákvað að efna í nýja Framhaldsdeild, Rekstrarfræðadeild II, á þriðja námsári sem lauk með bakkalárgráðu, B.S.-gráðu, frá Bifröst frá og með 1995. Áður hafði það verið mat manna að diplóma að loknu tveggja vetra rekstrarfræðanámi hæfði þeim fyrirtækja- og samtakamarkaði sem skólinn miðaði fræðslu sína við. Í sjálfu sér þurfti þessi viðbót ein alls ekki að raska eðli og stöðu skólans sem sérskóla á háskólastigi, starfsmenntaháskóla. Hins vegar er alkunnugt að sérhver skóli dregur einkenni og ráðandi stefnu ævinlega af efsta fræðslustiginu sem hann veitir, hæstu námsgráðunni. Áður hefur verið nefnt að nokkur akademísk námssvið settu meginsvip á þriðja námsárið svo sem óhjákvæmilegt var. Innan fárra ára varð þróunin sú að röðun námsefnis á misseri og námsár tók að breytast í átt til þess sem almennt hefur tíðkast í öðrum háskólum, en í því fólst þá að sérstaða diplóma-námsins, á tveimur fyrstu námsárunum til rekstrarfræðaprófs, minnkaði stig af stigi.
Vitað var að menn mældu sig jafnan eitthvað við viðurkennda rannsóknaháskóla og alfræðasetur, enda er sjálfstraust ævinlega minna í nýrri fámennri skólastofnun sem brýst í því að bjóða sérstæða og nýstárlega námsbraut. Litlu gegndi að vísa stöðugt til fordæma, reynslu og fyrirmynda frá sérskólum í nágrannalöndunum. Til viðbótar kemur að almennt er talið að það sé æðra og betra að stunda rannsóknir heldur en stjórnunarráðgjöf eða skýrslugerð um viðskipti, svo og að akademískar rannsóknir, frumrannsóknir og grunnrannsóknir hljóti að teljast flestu öðru æðri í háskólastofnunum.
Hvað sem um þetta er að segja entist Samvinnuháskólinn heilan áratug með þau einkenni sem hér hefur verið lýst framar. Um aldamótin 2001 urðu hefðbundin akademísk viðhorf mestu ráðandi, og skólinn tók upp einkenni, kennslufræði og námsskipan miklu líkari því sem tíðkast hefur í öðrum skólum á háskólastigi á Íslandi. Bakkalárgráðan varð aðalgráða um sinn, uns boðnar voru sérhæfðar námsbrautir á meistarastigi. Sambærileg þróun varð á sama tíma í Háskólanum í Reykjavík, en hann er arftaki Tækniskóla Íslands og Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands. Hvarvetna varð helsta keppikefli að staðfesta áherslur á venjuleg, gamalkunn og viðurkennd akademísk verkefni og sjónarmið; áhersla minnkaði á sjálfa kennsluna en rannsóknastörf voru metin umfram önnur jarðbundnari verkefni.
Þegar eftir aldamótin má segja að hvarvetna hafi verið horfið frá tilrauninni um starfsmenntaháskóla, fagháskóla eða sérskóla á háskólastigi og viðeigandi kennslufræði og kennsluskipan þeirra, nema ef væri á Hvanneyri og í nýjum Tækniskóla í Reykjavík, en hann hafði tekið við af Iðnskólanum, Stýrimannaskólanum, Vélskólanum og fleiri sérskólum í tengslum við atvinnulífið. Miðað við almennan skilning á Íslandi á þessum málum verður að telja að það hafi verið nokkurt úthald í Samvinnuháskólanum að þessi tilraun fékk áratug að sýna sig og sanna, þótt ekki entist lengur. Reynsla námsmanna úr Samvinnuháskólanum á ferli þeirra síðan bendir og til þess að ekki hafi verið til einskis unnið.
XII
Nú er orðið langt um liðið frá þeim atburðum sem hér eru raktir. Flest í þessu er horfið og gleymt sem vonlegt er. Vera má að lesandi hafi eitthvert gagn af því að rifja þessa sögu upp, enda er hún hluti íslenskrar skólasögu þótt í litlu sé.
Endurtekið skal að samstarf, ósérhlífni og framlag kennaranna gerði þetta framkvæmanlegt, og þeir hafa aldrei fengið það endurgoldið í neinni mynd. Kynning Samvinnuháskólans og nýrra leiða hans var í lágmarki fyrstu árin, enda mikilvægt að komast í áfanga án þess að aðrir aðilar legðu steina í götuna eða hiksti hlypi í stjórnvöldin. Það var happ Samvinnuháskólans að ,,háskólasamfélagið" tók ekki eftir þessum þjófi í paradísinni meðan fæðingin stóð yfir. Betri kynning átti að koma síðar, þegar mestu byrjunarörðugleikum væri lokið. Um þetta varð nokkur kurr meðal námsmanna sem óskuðu kröftugra auglýsinga en gátu ekki ráðið í allar aðstæður að sinni. Þrátt fyrir þetta reyndist aðsókn hæfra og dugmikilla umsækjenda næg á þessum árum. Var það í samræmi við fyrri reynslu Samvinnuskólans að orðspor námsmanna, frá fyrri tíð og líðandi stund, og umsagnir þeirra sjálfra höfðu langmest áhrif á væntanlega umsækjendur. Fyrir kom að skólanum væri líkt við þrælabúðir; skólastjóri taldi þá að slíkt ætti að búa fólk vel undir starfsaðstæður og álag í atvinnulífinu!
Þegar nú er litið um öxl í næði mörgum árum síðar og þessi saga skoðuð verður að viðurkenna að flestallar reglur í mótun og framfylgju nýrrar stefnu og nýsköpun í skipulagseiningu voru hér þverbrotnar. Samvinnuskólanum var breytt og Samvinnuháskólinn tók sín fyrstu skref við alger vanefni. Og umhverfið fagnaði þessu ekki. Í héraðinu var talið að gamalgróinn skóli væri eyðilagður og grunnskólinn skemmdur líka. Lengra úti frá var litið á þetta sem sérviskulegt og afbrigðilegt tiltæki í örvæntingu enda væri Samvinnuskólinn auðvitað á sömu leið sem héraðsskólarnir og samvinnuhreyfingin. Bókstaflega allt vantaði til þess að ráðlegt væri að leggja út í þetta; en á hinn bóginn var greinilegt að öðrum kosti yrði skólanum einfaldlega lokað þegar Sambandið hætti starfsemi. Þetta var því umsvifalaust val: að brjótast út og það strax - eða falla ella. Ekkert ráðrúm var og engir peningar til ráðstöfunar. Þetta var alls ekki til eftirbreytni, eiginlega fráleitt. Aftur á móti hefur þörfin einhver verið í samfélaginu úr því að þessi stofnun entist heilan áratug.
Nokkrar heimildir:
Ársskýrslur Samvinnuskólans og Samvinnuháskólans.
Fundargerðabækur skólanefndar.
Fundargerðabækur kennarafunda.
Reglugerð um Samvinnuskólann.
Reglugerð um Samvinnuháskólann.
Skipulagsskrá Samvinnuháskólans.
Fox, G.Th. 1990. Cocoon or Butterfly ?
Jón Sigurðsson. 1999. Bifrastarævintýrið og Jónasarskólinn. Skerfur og saga Samvinnuskólans og Samvinnuháskólans frá upphafi til 1998. - Í heimildaskrá með þessu riti eru nefndar ýmsar skýrslur og kynningarrit, skipulagsskjöl og reglur Samvinnuháskólans.
Jón Sigurðsson. 1989. Keeping Abreast of the Times. A Report of a Transformation of an Icelandic College in the Context of Educational Administration and of Instructional Methodology. (Lbs.)
Jón Sigurðsson. 1988. Expansion and diversification. An Outline of the Development of Secondary Education in Iceland 1966-1986.(Lbs.)
Skýrsla stýrihóps: Úttekt á viðskipta- og rekstrarfræðimenntun í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Samvinnuháskólanum á Bifröst og Tækniskóla Íslands. 1997.
World Guide to Higher Education. A Comparative survey of Systems, Degrees and Qualifications. 1982.
Skrifað haustið 2013 / JS