Samningar og sáttamiðlun

12 ECTS eininga örnám

Markmið örnámsins Samningar og sáttamiðlun er að skapa tækifæri fyrir fólk til að efla færni sína við gerð samninga og túlkun þeirra, svo minnka megi líkurnar á því að ágreiningur skapist vegna þeirra. Þá er í náminu lögð áhersla á árangursríka samningatækni sem hefur það að markmiði að koma á samningum sem báðir samningsaðilar vilja efna. Í kjölfarið sitja nemendur námskeið í samningagerð þar sem áhersla er lögð á ritun vandaðra samninga með skýrum samningsákvæðum. Þá felur námið í sér hagnýta þjálfun í sáttamiðlun svo að nemendur geti að því loknu leyst ágreiningsmál áður en deilur aðila verða tímafrekar og kostnaðarsamar. Námið er kennt í fjarnámi og hentar vel meðfram vinnu.

Örnámið hentar fyrir þau sem starfa í íslensku atvinnulífi sem stjórnendur og millistjórnendur hjá fyrirtækjum og opinberum stofnunum eða sem sjálfstæðir atvinnurekendur.
Námið er einnig gagnlegt fyrir þau sem starfa sem löggiltir fasteignasalar eða löggiltir bifreiðasalar.

Fjöldi ECTS eininga og dreifing vinnuálags

Námið er samtals 12 ECTS einingar og samanstendur af fjórum námskeiðum sem eru 3 ECTS einingar hvert. Hvert námskeið er kennt í sjö vikna lotu í fjarnámi. Fjórar lotur sem dreifast á haust- og vorönn.

  • Inngangur að samningarétti – Lota 1 haustönn
  • Hagnýt samningatækni – Lota 2 á haustönn
  • Samningagerð – Lota 1 vorönn
  • Inngangur að sáttamiðlun – Lota 2 vorönn

Fagstjóri námsins er Elín H. Jónsdóttir

Verð: 490.000 kr.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn.

  • Aðgangsviðmið

    Gerð er krafa um stúdentspróf, aðfararnám að háskóla eða sambærilegt nám.

  • Hæfnis- og lærdómsviðmið

    Í náminu munu nemendur kynnast helstu meginreglum samningaréttar með áherslu á túlkun samninga. Þá verður gerð grein fyrir reglum um ógilda samninga. Í kjölfarið munu nemendur sitja námskeið í hagnýtri samningatækni þar sem kappkostað verður að kynna til leiks helstu aðferðir sem reynst hafa vel og miða að því að koma á samningum sem báðir aðilar vilja efna.

    Nemendur munu kynnast helstu meginreglum sem gilda um samningagerð og markmið námsins er að nemendur öðlist skilning á aðferðum til að undirbúa og útbúa vandaða og skýra samninga.

    Í náminu munu nemendur kynnast helstu aðferðum sáttamiðlunar með því markmiði að þeir hafi öðlast hæfni til að greina raunverulega ástæðu deilumála og þekki leiðir til að leysa úr þeim til lengri tíma litið.

  • Námsmat

    Áhersla er á verkefnadrifið námsmat þar sem nemendur vinna raunhæf verkefni sem þeir geta nýtt beint í störfum sínum. Nemendur fá leiðbeinandi endurgjöf á úrlausnir sínar.

  • Að námi loknu

    Nemandi sem lýkur námsleið í örnámi fær staðfestingu á námslokum með upplýsingum um fjölda ECTS eininga. Hann fær einnig námsferilsyfirlit með upplýsingum um skipulagningu örnámsins.

    Námskeið í örnámi leiða ekki til prófgráðu.

    Nemandi sem lýkur stökum námskeiðum í örnámi til ECTS eininga, en ekki fullri námsleið fær námsferilsyfirlit yfir lokin námskeið.

    Nemandi sem lýkur ekki ECTS einingum fær ekki staðfestingu á námslokum, en þeir geta fengið staðfestingu á skráningu.