Ágúst Einarsson
Ágúst Einarsson er prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst og var áður prófessor við Háskóla Íslands. Hann hefur fengist við rannsóknir í menningarhagfræði, sjávarútvegsfræðum, smásöluverslun og heilbrigðismálum. Ágúst hefur meðal annars rannsakað skipulag smásöluverslunar og hagræn áhrif menningar í alþjóðlegu samhengi. Hann ritaði bók um rekstrarhagfræði sem kom út 2005. Ágúst hefur skrifað bækur um hagræn áhrif tónlistar, kvikmyndalistar og ritlistar auk bókar um menningarhagfræði, sem kom út 2012. Bækur eftir hann um menningarhagfræði hafa einnig komið út á ensku. Ágúst er höfundur 31 bókar um fagleg málefni og hafa bækur eftir hann verið tilnefndar til viðkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna. Ágúst lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og prófi í rekstrarhagfræði frá háskólanum í Hamborg í Þýskalandi. Hann stundaði framhaldsnám við háskólana í Hamborg og Kíel og lauk doktorsprófi frá háskólanum í Hamborg árið 1978.
Eftir Ágúst hafa eftirtalin rit komið út: Íþróttir hérlendis og erlendis í alþjóðlegu samhengi (Háskólinn á Bifröst, 2019), Íslensk heilbrigðismál í alþjóðlegu samhengi (Háskólinn á Bifröst, 2019), Fagur fiskur í sjó (Háskólinn á Bifröst, 2017), Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi (Háskólinn á Bifröst, 2016), Rekstrarhagfræði (Mál og Menning, 2005) og Verkefni í rekstrarhagfræði (Mál og menning, 2007).
Þá err Axel Hall meðhöfundur Ágústar að Rekstrarhagfræði og samfélagið, einni umfangsmestu bók sem hefur verið skrifuð á íslensku um rekstrarhagfræði. Útgefendur eru Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík (2022).