BA í skapandi greinum er námslína til 180 ECTS eininga, sem veitir nemendum menntun og þjálfun til að starfa í þessum vaxandi atvinnuvegi eða hafa áhuga á að leggja fyrir sig rannsóknir. Námsbrautin er til dæmis sniðin fyrir þá sem vilja öðlast innsýn og skilning á starfi framleiðenda, verkefnastjóra, umboðsmanna, útgefenda, sýningastjóra, listrænna stjórnenda, framkvæmdastjóra, frumkvöðla og „brautryðjenda“ í hinum margvíslegu menningar- og hugverkagreinum sem sameinast undir skilgreiningunni skapandi greinar. Þessar greinar eru til dæmis, tónlist, kvikmyndir, leikir, leikhús, hönnun, fjölmiðlar, auglýsingar, tíska, upplifun, afþreying og nýmiðlun.
BA í skapandi greinum er þverfaglegt á sviði viðskiptafræði, stjórnunar, menningarfræði og markaðsfræði. Námið er tengt raunhæfum verkefnum þar sem lögð er áhersla á að veita góðan grunn fyrir nemendur til að finna störf við hæfi eða til að bæta við sig frekara námi á meistarastigi, til dæmis í menningarstjórnun. Náminu lýkur með 14 ECTS eininga BA-ritgerð.
Námið veitir innsýn í bæði hagnýta og fræðilega þætti. Lögð er áhersla á að læra með því að koma hugmyndum og verkefnum í framkvæmd en um leið kynnast nemendur því helsta sem er að gerast í rannsóknum í skapandi greinum. Námið miðar að því að miðla þekkingu um þau störf sem eru í boði í atvinnugreininni og þjálfa hæfni til að vinna innan geirans. Markmið námsins er að veita nemendum grunn sem nýtist þeim í fjölbreyttum verkefnum sem í boði eru og um leið dýpka skilning þeirra í gegnum eigin verkefnavinnu á völdu sviði innan skapandi geira.
-
Lærðu heima
Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarnámi, sem gerir þér kleift að vera í námi á þínum forsendum. Áhersla er lögð á einstaklingsbundna nálgun og námsumhverfi er stafrænt og sveigjanlegt. Stafrænt fjarnám er þannig frábær valkostur fyrir fólk sem hentar að vera í sveigjanlegu háskólanámi, vegna vinnu með námi eða af einhverjum allt öðrum ástæðum. Nánar um námið við Háskólann á Bifröst
-
Námsskipulag og námsmat
Fyrsta námsárið hefst á vinnusmiðju þar sem nemendur og kennarar koma saman til að ræða námið og tilgang þess. Hlutverk mitt í lífinu er áfangi þar sem nemendur eru leiddir í gegnum markmið sín og áseting með náminu þar sem gestafyrirlesarar koma með innblástur. Unnið verður út frá þessari vinnusmiðju í gegnum skólaárið. Öll námskeið eru kennd í fjarkennslu en gert er ráð fyrir því að nemendur geti hist reglulega til að vinna saman hópverkefni.
Námsmat byggir á hópverkefnum og einstaklingsverkefnum. Nemandi getur gert ráð fyrir hópverkefni í hverju námskeiði en samhliða því eru unnin smærri einstaklingsverkefni. Meðal verkefna sem nemendum stendur til boða að vinna er viðskiptaáætlun sem samanstendur af verkefnalýsingu og fjárhagsáætlun ásamt tímaramma og styrkleikagreiningu. Einnig er hægt að vinna markaðsáætlun eða áætlun um framkvæmd á ákveðnu verkefni eða viðburði.
-
Nám á Bifröst
Við Háskólann á Bifröst er áhersla lögð á persónulega þjónustu til nemenda. Ánægjukannanir sýna að mikill meirihluti nemenda er afar ánægður með námið og samskipti við kennara og starfsfólk. Hverri önn er skipt upp í tvær lotur. Verkefnavinna er stór þáttur í námsmati háskólans og vinna nemendur að verkefnum jafnt og þétt yfir lotur skólaársins. Sjö vikur eru í hvorri lotu og ein staðbundin helgarlota, þar sem þú hittir kennara og samnemendur og tekur þátt í umræðum og hópverkefnum.
Önnur sérstaða í kennsluháttum Háskólans á Bifröst eru misserisverkefni eða missó, eins og verkefnin eru gjarnan nefnd. Missó tekur mið af á kennsluaðferð sem kallast lærdómsþróun (e. learning by developing) og miðar að því að auka hæfni nemenda á fyrir vinnumarkaðinn að námi loknu. Nánar um sérstöðu námsins við Háskólann á Bifröst -
Inntökuskilyrði og umsóknarfrestur
Til að geta innritast í námið þurfa nemendur að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.
Opnið er fyrir umsóknir vegna skólaársins 2024-2025 til og með 5. júní nk. en aðeins er tekið við umsóknum í námið einu sinni á ári.
Forgangsröðun við inntöku nemenda ræðst af einkunnum.
-
Hvaða hæfni tileinkar nemendi sér?
Nemandi sem hefur lokið BA-prófi í skapandi greinum ætti að hafa tök á þeim aðferðum og verkfærum sem notuð eru til að þróa hugmyndir innan geirans og koma þeim í framkvæmd.
Við leggjum áherslu á að nemendur hafi að námi loknu:
- Góðan skilning á skapandi greinum sem atvinnuvegi
- Góðan skilning á störfum og tækifærum innan skapandi greina
- Yfirsýn yfir verkferla og framleiðslu menningarviðburða og menningarefnis
- Átti sig á sífelldum breytingum og þróun innan geirans
- Kunni að sýsla með hagnýtan hugverkarétt
- Hafi tileinkað sér akademísk vinnubrögð
Stefnt er að því að nemendur:
- Skilji eðli skapandi greina og hvers konar störf henta þeim sjálfum best
- Geti þróað og framkvæmt eigin hugmyndir
- Tileinki sér aga og góð vinnubrögð
- Átti sig á mikilvægi þess að hugsa í lausnum og meta verkefni
- Kunni að vinna úr reynslu og nýjum upplýsingum
- Séu meðvitaðir og sýni skilning á afleiðingum sem varða lagalegt umhverfi, siðfræði og samfélagmál
- Séu hæfir um að beita akademískum vinnubrögðum við úrlausn verkefna
Námsskipulag og námsmat