Meistaranámi í forystu og stjórnun er ætlað að búa nemendur undir forystu- og stjórnunarstörf af fjölbreyttum toga. Að því loknu eiga nemendur að hafa tileinkað sér bæði hagnýta og fræðilega þekkingu á viðfangsefninu. Þá styður námið sérlega vel við það meginmarkmið Háskólans á Bifröst að undirbúa fólk fyrir forystustörf í atvinnulífi og samfélagi, með sjónarmið sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar að leiðarljósi.
Forysta og stjórnun er einnig í boði sem MS-MLM meistarnám með áherslu á mannauðsstjórnun eða MS-MLM meistarnám með áherslu á verkefnastjórnun.
-
Lærðu heima
Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarnámi, sem gerir þér kleift að vera í námi á þínum forsendum. Áhersla er lögð á einstaklingsbundna nálgun og námsumhverfi er stafrænt og sveigjanlegt. Stafrænt fjarnám er þannig frábær valkostur fyrir fólk sem hentar að vera í sveigjanlegu háskólanámi, vegna vinnu með námi eða af einhverjum allt öðrum ástæðum. Nánar um námið við Háskólann á Bifröst
-
Uppbygging námsins
Meistaranám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst er 90 ECTS eininga nám sem hægt er að ljúka með MS gráðu eða MLM gráðu. Á meðal kjarnanámskeiða eru stefnumótun og framtíðarsýn, samskipti og miðlun og sjálfbær stjórnun.
MS gráða er 90 eininga meistaranám þar sem nemendur ljúka 10 námskeiðum (60 ECTS einingar) og MS ritgerð (30 ECTS einingar).
MLM gráða er 90 eininga viðbótarnám á meistarastigi án lokaritgerðar. Nemendur ljúka 15 námskeiðum (90 ECTS einingar).
Forysta og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun
Námskeið línunnar taka á ýmsum kjarnaþáttum og hornsteinum mannauðsstjórnunar s.s. eins og þjálfun og þróun mannauðs, áætlanagerð, starfsmannavali og ráðningum, vinnusálfræði og þ.m.t. hvatningu og samskiptum á vinnustöðum ásamt ýmsu er varðar almenna velferð, vellíðan og hæfni starfsfólks í starfi. Auk þess eru námslínunni nokkur kjarnanámskeið þar sem áhersla er lögð á leiðtogafræði, sjálfbæra stjórnun og stefnumótun.
Forysta og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun
Námið byggir í grunninn á námskeiðum úr forystu og stjórnun, en auk þeirra felst sérstaða námsins í námskeiðum sem eru sniðin að starfi verkefnastjórans. Sértæk námskeið á sviði verkefnastjórnunar eru á haustönn annars vegar í ákvarðanatöku og líkanagerð og hins vegar straumlínustjórnun og skipulagi. Á vörönn er tekið í langri lotu námskeið í verkefnastjórnun.
-
Inntökuskilyrði meistaranáms
Inntökuskilyrði í meistaranám í viðskiptafræði er grunnnámsgráða á háskólastigi eða menntun sem telja má sambærilega við grunngráðu í háskóla, sem að jafnaði hefur verið lokið með 7,25 í einkunn eða jafngildi þess. Leitað er að fjölbreyttum hópi umsækjenda með mismunandi menntun og starfsreynslu. Sú dýrmæta reynsla sem nemendur öðlast af því að læra og vinna með fjölbreyttum hópi nemenda með mismunandi bakgrunn er ómetanleg. Nemendahópurinn á það sameiginlegt að vilja öðlast framúrskarandi þekkingu, þjálfun og undirbúning fyrir stjórnunarstörf nútímans.
-
Skipulag námsins
Hvert námskeið í stafrænu námi er allajafna kennt í 7 vikna lotum (tvö námskeið eru kennd yfir tvær lotur) og í hverju námskeiði er ein staðlota á Bifröst. Í öllum námskeiðum liggja fyrir ákveðin þekkingar-, leikni- og hæfnimarkmið. Lögð eru fyrir verkefni jafnt og þétt sem þjálfa nemendur í að öðlast þá leikni og hæfni sem að er stefnt í hverju námskeiði fyrir sig. Á staðlotum fer síðan fram verkefnavinna og umræður með kennara. Gert er ráð fyrir talsverðri verkefnavinnu í hverju námskeiði og lögð er áhersla á hópa- og teymisvinnu í verkefnum. Skipulag fjarnámsins er þannig að fyrirlestrar og kennsluefni í hverju námskeiði er aðgengilegt nemendum á fjarnámsvef háskólans og nemendur geta þannig skipulagt tíma sinn eins og þeim hentar best.
-
Umsóknarfrestur
Ekki er tekið við umsókum fyrir vorönn 2025. Umsóknarfrestur vegna náms á haustönn 2025 er til 5. júní.
Opnað verður fyrir umsóknir vegna haustannar þann 1. mars 2025.