Misserisverkefni
Sérstaða í kennsluháttum Háskólans á Bifröst felst meðal annars í svokölluðum misserisverkefnum. Misserisverkefnin eru kennd á sumarönn og snúast um rannsóknaverkefni sem nemendur vinna að eigin vali í 4-6 manna teymi. Niðurstöður rannsókna eru kynntar á uppskeruhátíð misserisverkefna eða MIssó og eru að því búnu yfirfarin af dómnefnd. Sá misserishópur sem hlýtur flest stig fer með sigur af hólmi. Misserisverkefnin veita nemendum einstaka þjálfun í framkvæmd og verkefnastjórn lokaverkefna á háskólastigi.
Í misserisverkefnum er byggt á kennsluaðferð sem kallast lærdómsþróun (e. Learning by Developing). Þetta er kennsluaðferð sem byggir á náinni samvinnu nemenda og leiðbeinenda sem og annarra fagaðila á vinnumarkaði. Verkefnavinnan gerir miklar kröfur til nemenda en í verkefnunum er haft að leiðarljósi að þróa nýjar leiðir til að auka verðmætasköpun, samkeppnishæfi, sjálfbærni og nýsköpun. Með aðferðum lærdómsþróunar hafa nemendur stórt hlutverk sem styrkir þá og eykur hæfni þeirra til að takast á við raunverkefni þegar út á vinnumarkaðinn er komið að loknu námi. Einnig hjálpa þessi verkefni nemendum að undirbúa sig við þá vinnu sem felst í því að skrifa lokaritgerð.