Frá vinstri: Gunnhildur Einarsdóttir, sérfræðingur hjá RSG, Björg Steinunn Gunnarsdóttir, styrkþegi, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst og formaður stjórnar RSG, Helga Guðrún Jónasdóttir, styrkþegi, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst og stjórnarmeðlimur RSG, Margrét Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmeðlimur RSG.
8. janúar 2025Aukin rannsóknavirkni á sviði skapandi greina
Þann 7. janúar veitti stjórn Rannsóknaseturs skapandi greina styrki úr meistaranemasjóði setursins. Styrkirnir eru ætlaðir meistaranemum sem vinna að lokaverkefni um atvinnulíf menningar og skapandi greina og þau fjölþættu og fjölbreyttu samfélags- og efnahagsáhrif sem þessi starfsemi leiðir af sér.
Þetta er í annað skipti sem úthlutað er úr sjóðnum en að þessu sinni voru styrkþegar, Björg Steinunn Gunnarsdóttir, nemandi í leikhús og performansfræðum við Háskólann í Kaupmannahöfn, fyrir verkefnið "Óbærilegur léttleiki leikhússins: Uppgangur alþýðuleiklistar á Íslandi" og Helga Guðrún Jónasdóttir, nemandi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst, fyrir verkefnið "Er menning máttur? Greining á stefnu sveitarfélaga í menningu og skapandi greinum".
Rannsóknaverkefni á sviðum menningartölfræði og sviðslista
Í verkefninu Er menning máttur? Greining á stefnu sveitarfélaga í menningu og skapandi greinum, rannsakar Helga Guðrún hvort sveitarfélög hafi markað sér stefnu á sviði menningar og hvort lesa megi úr þeirri stefnumörkun afstöðu hjá viðkomandi sveitarstjórn til menningar og skapandi greina sem verðmætaskapandi sviðs innan sveitarfélagsins. Samhliða kannar hún hvort sjá megi stefnumörkun sveitarfélaga stað í útgjöldum þeirra til menningarmála. Rannsóknarspurningar verkefnisins líta til menningarstefnu sem skýringarbreytu (spágildi) fyrir afstöðu sveitarstjórna til menningar og skapandi greina sem leið til að stuðla að efnahagslegum vexti. Með greiningu á menningarstefnu sveitarfélaga myndast yfirsýn yfir þennan málaflokk á sveitarstjórnarstigi, sem hefur ekki fengist áður, ásamt þekkingu sem nýst getur haghöfum á borð við sveitarfélög, landshlutasamtök og ríki til að undirbyggja betur en áður umræðu og stefnumarkandi ákvarðanir á þessu sviði.
Í meistaraverkefninu Óbærilegur léttleiki leikhússins: Uppgangur alþýðuleiklistar á Íslandi rannsakar Björg hvernig tiltekin leiksýning, Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar, náði að laða að nýjan áhorfendahóp í íslenskt leikhús og hvaða lærdóm megi draga af því fyrir framtíðarleikhús. Markmið verkefnisins er að greina velgengnisþætti sýningarinnar og skoða hvort og hvernig megi endurtaka þennan árangur með öðrum sýningum byggðum á formgerð alþýðuleiklistar, með áherslu á menningarlega fjölbreytni og lýðræði. Ásamt því að bæta við þekkingarsvið íslenskra leikhúsfræða opnar verkefnið á möguleika til frekari þverfaglegra rannsókna en ýmislegt mætti yfirfæra á aðra kima menningar og skapandi greina.
Um Meistaranemasjóðinn
Sjóðurinn er settur upp til að efla rannsóknavirkni á sviði menningar og skapandi greina á meistarastigi. Styrkir úr sjóðnum eru ætlaðir meistaranemum sem vinna lokavekrefni um atvinnulíf menningar og skapandi greina og þau fjölþættu og fjölbreyttu samfélags- og efnahagsáhrif sem þessi starfssemi leiðir af sér. Umsækjendur þurfa að stunda meistaranám við viðurkenndan háskóla, hvort sem er á Íslandi eða erlendis, og verkefnið þarf að fjalla um eða hafa skýra tengingu við íslenskt samfélag.
Fyrsta úthlutun sjóðsins var í apríl 2024. Það voru þau Lilja Björk Haraldsdóttir meistaranemi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst sem rannsakaði áhorfendaþróun í leikhúsi og Júlíus Jóhannesson meistaranemi í fjölmiðla- og boðskiptafræði við Háskóla Íslands sem skoðaði tækifæri sem íslenskum kvikmyndaframleiðendum bjóðast til dreifingar á myndum sínum á erlendum mörkuðum.
Næsti umsóknafrestur er 15. maí 2025. Til úthlutunar verða tvær milljónir sem áætlað er að styðji við 3-4 meistaraverkefni. Miðað er við að fyrir 60 ECTS eininga verkefni sé styrkupphæð 800 þúsund krónur og 400 þúsund krónur fyrir 30 ECTS einingar.
Um Rannsóknasetur skapandi greina
Meginmarkmið Rannsóknaseturs skapandi greina er að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina, með hliðsjón af fjölþættum áhrifum listsköpunar og menningarframleiðslu á samfélagið. RSG er óháður rannsóknaraðili og leggur áherslu á akademískt sjálfstæði í allri starfsemi. Setrið stendur fyrir reglubundnum málþingum um rannsóknir á sviði skapandi greina og stuðlar að samtali um skapandi greinar í víðu samhengi. RSG er í eigu Háskólans á Bifröst, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum og Listaháskóla Íslands. Samtök skapandi greina eru einnig aðili að setrinu.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta