Siðareglur Háskólans á Bifröst

Sérstök siðanefnd starfar við Háskólann á Bifröst sem úrskurðar um það hvort siðareglur hafi verið brotnar. Sjá kaflann Skipulag, viðurlög, kæruleiðir.

Almenn atriði um líf, störf og nám í háskólasamfélaginu

Þeir sem aðild eiga að háskólasamfélaginu standa vörð um heiður skólans og leitast við að haga störfum sínum þannig að það styrki orðspor hans. Háskólasamfélagið leggst á eitt um að skólinn sinni hlutverki sínu sem best og starfi í anda þessara siðareglna.

Nemendur skólans og starfsfólk hans geta óhindrað sett fram gagnrýni á stefnu skólans og starfshætti hans og leggja sig fram um að efla frjáls skoðanaskipti innan skólans og í samfélaginu. Gagnrýni er miðlað á málefnalegan og sanngjarnan hátt.

Í störfum sínum og námi huga Bifrestingar að ábyrgð sinni gagnvart samfélagi, umhverfi og náttúru, sýna hver öðrum virðingu og vinna saman af heilindum.

Starfsfólk gætir trúnaðar um persónuleg málefni nemenda, umsækjenda og samstarfsfólks. Varúðar þegar málefni nemenda eða samstarfsfólks eru til umræðu.

Starfsfólk og nemendur gæta þess að enginn þurfi að þola mismunun til dæmis vegna kyns, fötlunar, aldurs, trúar, skoðana, þjóðernis, kynþáttar eða kynhneigðar.  Skólinn kemur til móts við mismunandi þarfir eins og eðlilegt getur talist og við á.

Einelti er ekki liðið í háskólasamfélaginu, né kynferðislegt og kynbundið áreiti og ofbeldi af nokkru tagi. Sá sem verður vitni að mismunun, ofbeldi eða áreitni skal gera skólayfirvöldum aðvart í samráði við brotaþola.

Kennsla, rannsóknir og nám

Kennarar, rannsakendur og nemendur leita þekkingar af heilindum og hlutlægni. Þeir leggja áherslu á fagleg vinnubrögð, gagnrýna hugsun og málefnalega umræðu.

Kennarar, rannsakendur og nemendur vinna samkvæmt eigin sannfæringu óháð því hver samstarfsaðili er eða hver fjármagnar þá vinnu sem unnin er. Upplýst er um öll hagsmunatengsl sem gætu vakið grun um ómálefnaleg sjónarmið.

Kennarar, rannsakendur og nemendur setja ekki fram hugverk annarra sem sín eigin. Þeir virða höfundarrétt og geta heimilda, í samræmi við viðtekin fræðileg vinnubrögð.

Kennarar, rannsakendur og nemendur eru gagnrýnir á sjálfa sig og vanda störf sín. Þeir falsa ekki eða afbaka upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna og forðast hvers kyns mistök og villur. Verði þeim slíkt á viðurkenna þeir mistökin og gera það sem þeir geta til að bæta fyrir þau.

Kennarar upplýsa um hvers konar tengsl sín við nemendur sem valdið gætu vanhæfi þeirra til ákvarðanatöku um námsmat eða aðra þætti sem máli kunna að skipta.

Sérstaklega um kennara og kennslu

Kennarar stuðla að menntun nemenda með vandaðri leiðsögn, viðeigandi faglegum kröfum, hvatningu og góðu fordæmi.  Þeir haga kennslu, leiðsögn og þjálfun samkvæmt reglum um kennslu og próf sem skólinn setur.

Kennarar virða réttindi nemenda sinna og hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi.

Kennarar gera sanngjarnar kröfur til nemenda og vanda námsmat. Ef grunur leikur á misferli nemenda ber þeim að fylgja málinu eftir samkvæmt reglum skólans.

Kennarar veita nemendum tímanlega upplýsingar um þær kröfur sem þeir eða skólinn gera til nemenda. Þeir standa við skuldbindingar sínar gagnvart nemendum og skila einkunnum og endurgjöf innan þeirra tímamarka sem reglur skólans gera ráð fyrir.

Kennarar eru meðvitaðir um stöðu sína sem leiðbeinendur og fyrirmyndir, og misnota ekki þá stöðu í samskiptum við nemendur.

Rannsakendur og rannsóknir

Skólinn, stjórn, stjórnendur og starfsmenn virða fullt rannsókna- og tjáningarfrelsi akademískra starfsmanna.

Starfsfólk sem vinnur við rannsóknir og fræðastörf hefur þá skyldu að viðhalda faglegri þekkingu sinni og miðla henni. Með slíku stuðlar það að framþróun sinnar fræðigreinar.

Þeir sem rannsóknir stunda virða og viðurkenna framlag hver annars til rannsókna. Þeir eigna sér ekki heiðurinn af hugmyndum nemenda og geta ávallt framlags þeirra til rannsókna. Þeir gæta þess hagsmunir þátttakenda í rannsóknum njóti verndar.

Kennarar, rannsakendur og eftir atvikum nemendur birta niðurstöður sínar á opinberum vettvangi. Þeir birta þær í eigin nafni sem fræðimenn við skólann eða í nafni rannsóknastofnana innan hans. Einstakir starfsmenn geta ekki tjáð álit Háskólans á Bifröst nema það eigi við samkvæmt hlutverki eða stöðuumboði. 

Rannsakendur, sem starfandi eru við skólann, gæta sæmdarréttar skólans og láta starfs síns við hann getið við birtingu rannsókna sem unnar hafa verið á meðan þeir eru fastir starfsmenn skólans, nema skýrar ástæður séu til annars.

Nemendur og nám

Nemendur koma fram af tillitssemi, kurteisi og virðingu við kennara sína, annað starfsfólk og samnemendur

Nemendur vinna verkefni, ritgerðir og próf af heiðarleika og stuðla að því að samnemendur þeirra geri slíkt hið sama.

Nemendur nota ávallt rétt gögn við umsóknir, svo sem rétt vottorð, prófskírteini eða meðmæli sem viðkoma námi þeirra eða störfum.

Starfsfólk og þjónusta

Starfsfólk leitast við að sýna nemendum og vinnufélögum lipurð, sanngirni og virðingu.

Starfsfólk veitir nemendum og samstarfsfólki ávallt upplýsingar er þau varða eftir bestu vitund og gætir þess að þær séu eins réttar og kostur er. Það fullyrðir ekki meira en vitneskja gefur tilefni til hverju sinni og viðurkennir hvenær þekking þess er takmörkuð, aflar frekari upplýsinga eða vísar fyrirspurnum til viðeigandi aðila.

Starfsfólk og nemendur gæta þess að fara vel með fjármuni eða verðmæti háskólans sem þeim er trúað fyrir eða hafa til umráða vegna starfs síns eða náms.  Slík gæði séu ekki notuð til einkahagsmuna.

Skipulag, viðurlög og kæruleiðir

Sérstök siðanefnd starfar á Bifröst sem úrskurðar um það hvort siðareglur hafi verið brotnar. Siðanefnd er skipuð þremur einstaklingum sem ekki starfa eða eru nemendur við Háskólann á Bifröst. Rektor skipar siðanefnd að fengnu samþykki Háskólaráðs. Heimilt er að leita samstarfs við aðra háskóla um skipan siðanefndar og mótun siðareglna.

Nefndin tekur við ábendingum og kærum frá aðilum utan og innan skólans. Álit hennar ná til starfsfólks, nemenda og annarra þeirra sem gegna hlutverki í háskólasamfélaginu og gjörðir þeirra innan háskólasamfélagsins, bæði innan skóla og utan. Nefndin tekur ekki upp mál að eigin frumkvæði.

Við málsmeðferð skal nefndin gæta meginreglna stjórnsýslulaga um upplýsingaöflun, meðalhóf og andmælarétt.

Úrskurður nefndarinnar skal vera rökstuddur og afdráttarlaus um það hvort siðareglur hafi verið brotnar eða ekki.  Ennfremur getur nefndin gefið álit sitt á því hvort tiltekin hegðun eða framferði sé athugunarverð út frá almennum sjónarmiðum þótt siðareglur teljist ekki hafa verið brotnar. 

Brot á siðareglum varðar áminningu við fyrsta brot, en getur einnig varðað brottvísun eða starfsmissi ef um ítrekað eða alvarlegt brot er að ræða á reglugerð skólans eða öðrum reglum

Nefndin ákvarðar ekki um viðurlög við brotum.  Viðurlög eru ákveðin af rektor eða öðrum þar til bærum aðilum í stjórnsýslu skólans.

Vinnsla og gildi

Siðareglur þessar öðlast gildi við undirritun rektors eftir viðeigandi samráðsferli innan skólans.

Siðareglur þessar eru kynntar öllum nýjum starfsmönnum og nemendum.  Þær skulu aðgengilegar á vef háskólans. 

Siðanefnd er skipuð af eftirtöldum einstaklingum sem jafnframt skipa siðanefnd Landbúnaðarháskóla Íslands:

  • Þórdís Ingadóttir, formaður, dósent við Háskólann í Reykjavík
  • Daði Már Kristófersson, prófessor við Háskóla Íslands
  • Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum

 

Yfirfarið á fundi stjórnar Háskólans á Bifröst 9. maí 2019

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 15. maí 2019

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019


Uppfært 26.07.2022