Sjálfbærni og samfélagsábyrgð
PRiME - Viðmið um ábyrga stjórnunarmenntun
Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 2007 staðið fyrir átaki í samstarfi við fjöldamargar menntastofnanir um að leggja áherslu á að mennta ábyrga leiðtoga með tilliti til samfélagsábyrgðar og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Háskólinn á Bifröst gekk inn í samstarfið árið 2011 og var jafnframt fyrstur íslenskra háskóla til að taka þátt. PRiME er heitið á samstarfinu en skammstöfunin stendur fyrir Viðmið um ábyrga stjórnunarmenntun (e. Principles for responsible management education). PRiME samstarf Sameinuðu Þjóðanna gengur út á að tvinna lögmál, gildi og viðhorf sjálfbærrar þróunar inn í alla kennslu og starfsemi háskóla og auka þannig vitund og skilning skólasamfélagsins á sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð.
Eftir að efnahagskreppan skall á voru háskólar um allan heim gagnrýndir fyrir að hafa útskrifað fólk sem hafi fyrst og fremst haft gróðahyggju og skammsýni að leiðarljósi en látið hjá liggja að kenna nemendum sínum þætti á borð við siðfræði, góða stjórnarhætti, samfélagsábyrgð og virðingu fyrir umhverfi og hagsmunum heildarinnar. Háskólinn á Bifröst hyggst taka þeirri áskorun sem í þessu felst og hefur sett sér það markmið að aðlaga hugmyndafræði sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar að rekstri og starfsemi skólans og taka þannig virkan þátt í að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru á leiðtogamenntun framtíðarkynslóða.
Háskólar gegna lykilhlutverki í að mennta forystufólk í viðskiptalífi, í stjórnmálum og í vísindum. Eigi að takast að innleiða hugsun sjálfbærni og samfélagsábyrgðar inn í framtíðarstefnumótun fyrirtækja og samfélags, þá þurfa háskólarnir að vera í broddi fylkingar.
Sex markmið um ábyrga stjórnunarmenntun
Átak Sameinuðu þjóðanna byggir á eftirfarandi sex markmiðum sem þátttakendur í átakinu skuldbinda sig til að vinna að.
1. Tilgangur
Við munum leitast við að efla færni nemenda okkar sem leiðtoga framtíðarinnar til að vinna að réttlátu og sjálfbæru hagkerfi í heiminum.
2. Gildi
Við munum leitast við að endurspegla hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og samfélagsábyrgðar í námsskrá, námsefni og kennslufræði skólans.
3. Aðferðir
Við munum bjóða upp á námsefni, kennsluaðferðir og umhverfi í háskólanum sem gera nemendum kleift að efla færni sína sem ábyrgir stjórnendur.
4. Rannsóknir
Við munum leggja áherslu á að stunda við háskólann rannsóknir sem auka skilning okkar á hlutverki og mögulegum áhrifum fyrirtækja á þróun félagslegra, umhverfislegra og efnahagslegra gilda.
5. Samvinna við fyrirtæki
Við munum leita eftir virku samstarfi við stjórnendur fyrirtækja til þess að auka skilning okkar á þeim samfélagslegu og umhverfislegu áskorunum sem fyrirtækin standa frammi fyrir og að þróa í samstarfi við þau árangursríkar leiðir til að takast á við þær áskoranir.
6. Samræða
Við munum standa fyrir gagnrýnni umræðu á meðal kennara, nemenda, fyrirtækja, stjórnvalda, fjölmiðla og annarra áhugasamra hagsmunahópa í samfélaginu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð.
Samfélagsleg gildi í háskólaþorpinu
Lífsmynstrið sem nemendur tileinka sér á háskólaárunum getur haft mikil áhrif á það hvernig einstaklingum líður sem og árangur í námi og því eru nemendur og starfsfólk á Bifröst hvatt til almennrar heilsueflingar, hreyfingar, umhverfisvitundar og samfélagslegrar samstöðu í háskólaþorpinu. Við Háskólann á Bifröst hlýtur nemandi því almenna samfélagsþjálfun samhliða leiðtogamenntun en einnig er lagt mikið upp úr því að hlúa að öðrum íbúum þorpsins.
Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 15. maí 2019
Gildir frá 1. ágúst 2019
Staðfest af rektor 4. júní 2019