Rannsóknastefna 

Áhersla á rannsóknir

Háskólinn á Bifröst er hluti af alþjóðlegu vísindasamfélagi sem leggur áherslu á að efla rannsóknastarf. Háskólinn hvetur alla starfsmenn skólans sem og nemendur til að efla hlut rannsókna í starfsemi skólans og leita leiða til að auka rannsóknir í akademískum deildum skólans sem og tengdum sviðum.

Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á að veita akademískum starfsmönnum svigrúm og tíma til að verja hluta af starfstíma sínum í rannsóknir og er samið um rannsóknahlutfall starfsmanna við gerð árlegra starfsáætlana. Allir starfsmenn með rannsóknarhlutfall leggja árlega fram rannsóknarskýrslu til mats hjá Háskóla Íslands sem og aðrir starfsmenn sem lagt hafa stund á rannsóknir liðið ár. 

Háskólinn á Bifröst leggur sig fram um að byggja upp rannsóknasamstarf við stofnanir og fyrirtæki um leið og skólinn stendur vörð um sjálfstæði akademískra starfsmanna sinna og fullt frelsi þeirra við val á viðfangsefnum og rannsóknaaðferðum.

Háskólinn á Bifröst hvetur akademíska starfsmenn til samstarfs sín á milli í rannsóknum sem styrkir starfsmenn faglega og eykur færni þeirra til þverfaglegs samstarfs.  Fagleg og fræðileg tengsl starfsmanna Bifrastar við starfsfélaga í öðrum stofnunum leiða til aukinna rannsókna- og þróunarmöguleika.  Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á samfélagslega þátttöku og góð tengsl við atvinnulífið. Skólinn leitast því við að gera starfsmönnum kleift að tengja kennslu og rannsóknir nemenda við atvinnulíf og samfélagsleg málefni.

Háskólinn á Bifröst leitast við að auka færni og áhuga nemenda til að stunda rannsóknir. Skólinn reynir þannig að bjóða nemendum sínum þátttöku í rannsóknaverkefnum skólans eftir því sem kostur er. Háskólinn vill miðla rannsóknahugsun til nemenda sinna og þróa kennsluaðferðir þannig að nemendur öðlist færni í verkefnavinnu, gagnrýnni hugsun, nýsköpun og þróun.

Sýnileiki rannsóknaniðurstaðna

Háskólinn á Bifröst hvetur akademíska starfsmenn sína til að skrifa greinar úr rannsóknum sínum í ritrýnd tímarit. Háskólinn stefnir að því að allt rannsóknaefni starfsmanna sé í opnum aðgangi, nema sérstakar ástæður séu til annars.

Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á að rannsóknastarf starfsmanna sé gert sýnilegt og miðlað með skilvirkum hætti, meðal annars innan skólans.

Fjármögnun

Háskólinn á Bifröst hvetur akademíska starfsmenn til að sækja um rannsóknastyrki.  Háskólinn á Bifröst leggur kapp á að afla fjár úr sem flestum áttum til að fjármagna rannsóknastarfsemi skólans.

Innan Háskólans á Bifröst starfar rannsóknasjóður sem hefur það hlutverk að styrkja akademíska starfsmenn vegna útlagðs kostnaðar við akademísk rannsóknaverkefni.

Háskólinn á Bifröst hvetur til þess að leitað sé til styrktaraðila til að fjármagna rannsóknir en þó með þeim fyrirvara að slík tengsl skapi aldrei efasemdir um að rannsóknastarf skólans sé sjálfstætt og óhlutdrægt.

 

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 15. maí 2019

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019

Rannsóknastefna Háskólans á Bifröst