Málstefna
Háskólinn á Bifröst er íslensk mennta- og rannsóknastofnun og hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi. Málstefna háskólans tekur mið af þessu tvíþætta hlutverki hans. Málstefnan hefur það að leiðarljósi að standa vörð um íslenska tungu en undirbúa nemendur jafnframt til virkrar þátttöku í alþjóðlegu umhverfi. Íslenska er opinbert tungumál Háskólans á Bifröst og íslenska er almennt tal- og ritmál á öllum sviðum skólans í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu.
Í kennslu er lögð áhersla á að íslenskir nemendur kunni skil á íslenskum fræðiheitum ekki síst ef námskeið eru kennd á erlendu máli, enda mikilvægt að nemendur geti tjáð sig um fræði sín á móðurmálinu og stutt þannig fræðsluhlutverk háskólans innan eigin samfélags. Kennarar eru sérstaklega hvattir til að leiðbeina nemendum um málnotkun eftir því sem við verður komið, auk venjubundinna faglegra leiðbeininga. Háskólinn skal með ákveðnum hætti hvetja starfsmenn til að sinna málrækt, t.d. með því að birta rannsóknir á íslensku jafnt sem erlendum málum og gera fræðiskrif jafnframt aðgengileg almenningi eins og kostur er.
Fram kemur í stefnu Háskólans á Bifröst að eitt af markmiðum hans sé að byggja upp öflugan alþjóðlegan háskóla. Til þess að svo megi verða þarf skólinn að geta boðið upp á heilar námsleiðir eða einstök námskeið á erlendum málum eftir því sem aðstæður og eftirspurn leyfa. Gerðar eru ríkar kröfur um vandað málfar í kennslu á erlendum málum, rétt eins og í íslensku.
Útfærsla og eftirfylgni
- Málstefna Háskólans á Bifröst skal vera sýnileg á heimasíðu skólans í íslenskri og enskri útgáfu.
- Málnotkun háskólans skal vera til fyrirmyndar. Allt efni sem frá háskólanum kemur, s.s. á heimasíðu og á samskiptamiðlum, skal vera á vandaðri íslensku.
- Erlendir starfsmenn skulu upplýstir um möguleika til náms í íslensku og hvar þeir geta aflað sér upplýsinga um íslenska menningu.
- Háskólinn á Bifröst getur boðið upp á heilar námsleiðir eða einstök námskeið á erlendum málum, eftir því sem eftirspurn og aðstæður leyfa.
- Háskólinn Bifröst leitast við að bjóða starfsmönnum og nemendum margvíslega aðstoð í ritun og framsögn í því skyni að stuðla að betri málnotkun. Kennarar fá m.a. leiðsögn í framsögn og málnotkun á árlegum endurmenntunardögum. Nemendur fá slíka leiðsögn m.a. í námskeiðum í aðferðafræði og framsækni og tjáningu.
- Háskólinn gerir þá kröfu til starfsmanna að þeir kynni fræði sín fyrir almenningi á lýtalausri íslensku bæði í skrifum og töluðu máli.
- Lögð er rík áhersla á að málfar í lokaverkefnum nemenda sé vandað og hnökralaust. Í viðmiðum um mat á lokaritgerðum kemur m.a. fram að litið sé til frágangs, uppsetningar, málfars, stíls og réttritunar við mat á ritgerðum.
- Háskólinn á Bifröst vill stuðla að og taka þátt í samvinnu allra háskóla á Íslandi um íðorðastarf í því skyni að auðvelda umræður um sérhæfð viðfangsefni á íslensku.
Umsjón og ábyrgð
Rektor ber ábyrgð á málstefnu Háskólans á Bifröst en henni skal fylgt eftir af deildum og sviðum skólans eins og við getur átt.
Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 15. maí 2019
Gildir frá 1. ágúst 2019
Staðfest af rektor 4. júní 20