Tæplega 80 útskrifuðust á Háskólahátíð
Vilhjálmur Egilsson rektor útskrifaði tæplega 80 nemendur úr öllum deildum skólans í dag, laugardaginn 13. febrúar, við hátíðlega athöfn.
Í útskriftarræðu sinni til útskriftarnemenda vék Vilhjálmur að því fyrst og fremst væri Háskólinn á Bifröst til fyrir nemendur og allt starf skólans mjög nemendadrifið. Þannig lifi skólinn á því að veita nemendum framúrskarandi kennslu og námsumgjörð og búa nemendur mjög vel undir þátttöku á vinnumarkaðnum í framhaldi af skólanáminu.
Þá ræddi Vilhjálmur um að í stefnumörkun ársins sem og nánustu framtíð væri að gera enn betur, enn hagkvæmar og enn meira.
„Þess vegna erum við á árinu 2016 að beina nýsköpunargetunni fyrst og fremst að núverandi námslínum og núverandi kennsluaðferðum og skipulagi þannig að skólinn eins og hann er verði betri, hagkvæmari og skili meiru til nemendanna,“ sagði Vilhjálmur.
Fín lína á milli metnaðar og græðgi
Í ræðu sinni vék Vilhjálmur einnig að mikilvægi þess að þekkja muninn á metnaði og græðgi þar sem að oft gæti verið erfitt að finna línuna þar á milli.
Vilhjálmur sagði metnað sannarlega vera eina af dyggðum mannsins en græðgin verði fólki aldrei annað en að fótakefli þar sem það sækist eftir sífellt meiru án þess að taka tillit til annarra og verði aldrei ánægt með það sem það hafi. Þetta væri mikilvægt að hafa í huga á tímum sem nú þegar ör hækkun verður á tekjum og kaupmætti í samfélaginu. Samhliða rifjaði Vilhjálmur upp gildi Háskólans á Bifröst; frumkvæði, samvinnu og ábyrgð þar sem að frumkvæði og metnaður haldist í hendur en ábyrgðin sé eitt af þeim tækjum sem megi nota til að verjast græðginni.
„Við eigum líka eftir að sjá margar freistingarnar í atvinnulífinu verða á vegi þeirra sem þar hasla sér völl. Ótal tilboð og tækifæri munu koma fram þar sem menn vilja kaupa og selja á háu verði verðmæti sem ekki er búið að skapa og fjárfesta á grunni óraunhæfra væntinga. Á endanum munu þeir svo lifa sem hafa getuna til að taka á sig áföll þegar þau koma,“ sagði Vilhjálmur.
Í ræðu sinni rakti rektor einnig það ferli er liggur að baki því að gæði Háskólans á Bifröst voru nýverið staðfest af Gæðaráði íslenskra háskóla. Bæri nemendum að líta á þá staðfestingu sem sína útskriftargjöf.
„Gleðjumst í dag. Framtíðin kemur á morgun. Við erum undirbúin fyrir hana,“ sagði Vilhjálmur í lok ræðu sinnar til útskriftarnema.
Verðlaun og útskriftarræður
Útskriftarverðlaun hlutu Elva Pétursdóttir, á viðskiptasviði, Björn Líndal Traustason á lögfræðisviði og Gústaf Gústafsson á félagsvísindasviði. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun Magnús Bollason, á viðskiptasviði, Rakel Marín Jónsdóttir, á lögfræðisviði og Þórunn Björnsdóttir á félagsvísindasviði. Malin Marika Eldh hlaut viðurkenningu frá VR fyrir bestan árangur í diplómanámi í verslunarstjórnun. Að auki fengu eftirfarandi þrír nemendur felld niður skólagjöld á haustönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri, Ása María H. Guðmundsdóttir á félagsvísindasviði, Svanberg Halldórsson á viðskiptasviði og Ellen Ósk Eiríksdóttir á lögfræðisviði.
Nemendur sem héldu útskriftarræðu voru, Jóna Dóra Ásgeirsdóttir, fyrir hönd viðskiptasviðs, Sjöfn Hilmarsdóttir, fyrir hönd lögfræðisviðs, Gústaf Gústafsson fyrir hönd félagsvísindasviðs og Georg Kristinsson, fyrir hönd meistaranema.
Í ávörpum fulltrúa allra útskriftarhópa kom fram mikil ánægja með að hafa valið Háskólann á Bifröst. Samkenndin meðal nemenda væri rík á Bifröst og að Háskólinn á Bifröst væri í alla staði góður skóli til að öðlast framúrskarandi menntun sem skilaði nemendum vel undirbúnum út í atvinnulífið.
Karlakórinn Söngbræður sá um söngatriði við útskriftina við undirleik Heimis Klemenzssonar.
Sjá má fleiri myndir frá útskriftinni hér
Útskrift febrúar 2016, öll athöfnin
Ávarp rektors Vilhjálms Egilssonar
Ræður nemenda við útskrift
Jóna Dóra Ásgeirsdóttir fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms Viðskiptasviðs
Sjöfn Hilmarsdóttir fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms Lagasviðs
Gústaf Gústafsson fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms Félagsvísindasviðs
Georg Kristinsson fyrir hönd meistaranema við Háskólann á Bifröst
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta