Yfirlitskort yfir samstarfsaðila innan OpenEU háskólanetsins.

Yfirlitskort yfir samstarfsaðila innan OpenEU háskólanetsins.

28. júní 2024

Stafræn þróun háskólanáms hlýtur Evrópustyrk

Evrópusambandið hefur veitt OpenEU háskólanetinu rúmlega 14 milljón evra styrk til stafrænnar framrþróunar háskólamenntunar. Nemur styrkurinn í íslenskum krónum liðlega 2 milljörðum.

Verkefnið er til fjögurra ára og miðar að því að efla stafræna umbreytingu æðri menntastofnana ásamt tæknilegri samþættingu í kennslu og námi.  

Evrópusambandið tilkynnti fyrr í dag um úthlutun styrkja innan Eruopean Universities initiative eða Evrópska háskólasamstarfsins. Alls bárust 56 umsóknir og var OpenEU á meðal þeirra 14 samstarfsverkefna sem hlutu styrk að þessu sinni.

OpenEU háskólanetið stendur að fyrsta Opna háskólanum sem starfar á þverevrópskum grunni og framfylgir sem slíkur stefnumörkun Evrópska háskólasvæðisins, European Higher Education Area, (EHEA) í stafrænum, grænum og félagslegum málefnum, með því að veita opinn aðgang að hágæða háskólamenntun, greiða fyrir þátttöku námsfólks að alþjóðlegu samstarfi á sjálfbærum grunni og stuðla að stafrænni umbreytingu menntastofnana.

Innan háskólanetsins starfa leiðandi evrópskir fjarnámsháskólar og opnir háskólar, ásamt fimm staðnámsháskólum, sem vinna nú samhentir að stafrænni umbreytingu innan sinna raða. Allir eiga samstarfsaðilarnir það sameiginlegt að starfa að framgangi stafrænnar þróunar á forsendum nemendamiðaðrar, inngildandi og sjálfbærar háskólamenntunar.

Háskólinn á Bifröst tekur þátt í starfi OpenEU á öllum stigum samstarfsins og er leiðandi í því starfi sem snýr að samfélagsþátttöku, samskiptum hagsmunaaðila og stafrænni vellíðan í fjarnámi. Markmiðið er að geta boðið nemendum upp á einstaklingsmiðað nám og efla samskipti innan háskólasamfélaga með aðstoð stafrænna lausna.

Þá kemur einnig í hlut Háskólans á Bifröst að efla samstarf OpenEU við ytri hagsmunaaðila á sviði starfsþróunar, lýðræðislegrar þátttöku, byggðaþróunar, loftslagsbreytinga og stafrænnar umbreytingar.

Helsti hvatinn að stofnun OpenEU var að finna leiðir til að mæta þeim megináskorunum sem menntakerfi innan Evrópska háskólasvæðisins standa frammi fyrir og felast í stafrænni umbreytingu háskóla, aukinni inngildingu og jafnræði allra til æðra náms ásamt fjölbreyttum símenntunarmöguleikum við allra hæfi (e. lifelong learning).

Aðild að OpenEU háskólanetinu eiga 14 háskólar ásamt 13 samstarfsaðilum tengdum fræðslustarfsemi, atvinnulífi og sveitarstjórnar- og byggðamálum. Samstarfsaðilar háskólanetsins eru því alls 27 talsins og dreifast þeir landfræðilega vítt og breitt um Evrópu, eins og sjá má á yfirlitsmyndinni hér að ofan. Þá má geta þess að innan samstarfsnetsins eru um 368.000 háskólanemar, sem eru langflestir, eða 84%, í vinnu meðfram námi. Þeir nemendur sem lokið hafa námi og eru brautskráðir eru 709.000 talsins.

Àngels Fitó, rektor Universitat Oberta de Catalunya, opna háskólans í Kataloníu, og forseti OpenEU háskólanetsins: „OpenEU samstarfið felur í sér einstakt tækifæri til að auka umfang og áhrif opinna háskóla og fjarkennsluháskóla í Evrópu. Markmið samstarfsins, sem okkur er mikill heiður af að leiða, er að ná utan um fjölmennt alþjóðasamfélag námsmanna og efla félagsleg samstarfsverkefni í háskólamenntun á grundvelli nýrra tæknilausna í kennslu og kennslufræðum. Hér er um samstarf að ræða, sem mun flýta fyrir starfrænni framþróun innan EHEA og leggja þar með traustan grunn að aðgengi allra að æðri menntun á háskólastigi.“

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst: „Við fögnum þeim myndarlega stuðningi sem Evrópusambandið hefur veitt þessu metnaðarfulla samstarfsverkefni OpenEU háskólanetsins. Með því að efla stafræna umbreytingu og flýta með því móti framþróun fjarkennslu á háskólastigi, er verið að stuðla að afar mikilvægum framförum sem munu greiða fyrir aðgengi allra að háskólanámi í Evrópu.“

OpenEU is supported by the European Commission through the Erasmus+ European Universities Alliances

Sjá nánari upplýsingar um verkefnið og markmið þess


Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta