Skýrsla um umfang íbúðagistingar í ferðaþjónustu 6. nóvember 2015

Skýrsla um umfang íbúðagistingar í ferðaþjónustu

  • 3400 íbúðir og herbergi á Íslandi á airbnb.com
  • 4% allra íbúða í Reykjavík í útleigu til ferðamanna

Háskólinn á Bifröst hefur gert skýrslu um umfang íbúðagistingu í ferðaþjónustu samkvæmt samningi við Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra veitti henni viðtöku í dag úr höndum Vilhjálms Egilssonar rektors Háskólans á Bifröst ásamt skýrsluhöfundum.

Íbúðagisting hefur verið fyrirferðamikil í uppbyggingu ferðaþjónustunnar en skráningu útleigðra íbúða hefur verið talið ábótavant og óljóst hvernig samkeppnistaða íbúðagistingar væri miðað við hefðbundnar tegundir ferðamannagistingar. Dregið er fram umfang íbúðagistingar og þess vanda sem myndast af slakri skráningu íbúða sem leigðar eru út í skammtímaleigu til ferðamanna. Íbúðagisting er hluti af deilihagkerfi sem byggir á því að einstaklingar geti leigt eða fengið lánuð gæði í eign annarra sem ekki eru nýtt. 

Í skýrslunni er að finna tillögur til úrlausna, svo auðveldara verði að skrá íbúðir sem leigðar eru í skammtímaleigu til ferðamanna og eins að greiða af þeim viðeigandi skatta og gjöld.

Skýrslan skapar góðan grunn til viðbragða og aðgerða til að skrá íbúðir, draga úr skattsvikum og skýra reglur um íbúðir sem leigðar eru til ferðamanna til skamms tíma.

Niðurstöður:

  • Aukinn ferðamannastraumur hingað til lands undanfarin ár hefur haft þau áhrif að hótel og gististaðir anna ekki eftirspurn og hefur því íbúðagisting þróast sem raunhæfur gistimöguleiki. Íbúðagistingin hefur fyrst og fremst verið í gegnum síðuna www.airbnb.com og má leiða að því líkum að þessi þjónusta auðveldað mjög móttöku aukins fjölda ferðmanna.

  • Fjölgun hótelherbergja hefur ekki haldið í við fjölgun ferðamanna og hafa þeir því þurft að leita að öðrum gistimöguleikum á Íslandi meðan á dvöl þeirra stendur.

  • Í tengslum við skýrsluna var kannað umfang íbúðagistinga á Íslandi sem auglýst er á vefsíðunni www.airbnb.com og leiddi könnunin í ljós að um 1.900 herbergi og íbúðir voru á skrá í Reykjavík á síðunni, en samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu eru einungis 13% skráð með leyfi til íbúðagistingar. 

  • Á Íslandi gilda sérstök lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þessi lög ná ekki nægilega vel utan um íbúðagistiþjónustu sem fer vaxandi. Skýrslan leiðir í ljós að lög og reglur hafa ekki mætt þessum nýja veruleika og því þarf að koma til gagnger endurskoðun þar á. Einfalda þarf leyfisveitingaferlið þannig að auðveldara verði fyrir einyrkja að stunda þessa starfsemi löglega en nú er mikill meirihluti íbúða á Airbnb rekin án tilskilinna leyfa.

  • Reglur um skattlagningu íbúðagistingar eru ekki skýrar. Leyfislaus rekstur greiðir hvorki skatta né gjöld og því verða ríki og sveitarfélög af umtalsverðum skatttekjum.Af venjulegu íbúðahúsnæði eru greidd 0,2% fasteignagjöld en af atvinnuhúsnæði (m.a. gististöðum) eru greidd 1,65% fasteignagjöld. Er því mikilvægt að haga skattalöggjöf með þeim hætti að hvati verði til þess að stunda starfsemina löglega með tilheyrandi greiðslum skatta og gjalda.

  • Röng skráning íbúða getur haft alvarlegar afleiðingar t.d. hvað öryggi varðar og skekkir samkeppni á markaði. Opinberir aðilar verða að laga skráningarferli sitt og uppfæra miðlæga gagnagrunna um umfang íbúðagistingar.

Skýrsluna má nálgast hér: Skýrsla - Íbúðagisting