Skapandi greinar gegna lykilhlutverki í samfélaginu
25. mars 2025

Skapandi greinar gegna lykilhlutverki í samfélaginu

Vorblað Vísbendingar fjallar um skapandi greinar. Ritstjórinn Ásgeir Brynjar Torfason skrifar leiðara undir fyrirsögninni Fegurðin, ásýnd hlutanna og fjármálin þar að baki. Alls er 22 greinar í blaðinum sem fjalla með fjölbreyttum hætti um menningu og skapandi greinar út frá ólíku sjónarhorni. Bent er á þríþætt hlutverk þeirra í þróun efnahags, menningar og samfélags.  

Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar, og háskólaráðherra á upphafsgreinina í blaðinu og bendir þar á að til að skapandi greinar geti vaxið og blómstrað þarf markvisst stuðningskerfi, langtímasýn og aukna fjárfestingu í þekkingu, innviðum og nýsköpun.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst tekur fyrir þær vörður sem náðst hafa í innviðauppbyggingu skapandi greina undanfarinn aldarfjórðung. Hún bendir á í grein sinni að undanfarið hafi samsetning ráðuneyta verið endurskiplögð þannig að 2021 féllu þær undir menningar- og viðskiptaráðuneyti og við uppstokkun aftur 2024 falla skapandi greinar undir menningar, nýsköpunar og háskólaráðuneyti. Hún bendir á  mikla aðlögunarhæfni atvinnuvegarins í hröðum samfélagsbreytingum og tækninýjungum og mikilvægi samlegðar í stefnumótun framtíðar. „Framtíðarstefnumótun þarf að taka mið af því og huga að samlegðinni á milli menningar, skapandi greina, hugverkaiðnaðar og nýsköpunar. Sveigjanleiki, seigla og þríþætt hlutverk skapandi greina er mikilvægt í því samhengi."

Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona Rannsóknaseturs skapandi greina, bendir á að skapandi greinar séu drifkraftur nýsköpunar og geti skapað fjölbreytt atvinnutækifæri ásamt því að styrkja sjálfsmynd og menningarlega arfleifð samfélaga. „Hagstofan hefur gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna í að safna og gera aðgengileg ýmis tölfræðileg gögn en á sama tíma er ljóst að til þess að rannsaka vissa þætti tengda atvinnulífi menningar og skapandi greina, líkt og starfsumhverfi og samfélagsleg áhrif, er þörf á fjölbreyttari gagnasöfnun og aðferðafræði. Rannsóknasetur skapandi greina gegnir veigamiklu hlutverki í þeirri vegferð, sem stuðningsaðili við þróun opinberrar tölfræði og notandi hennar og sem samráðsvettvangur fyrir fagvettvang, fræðasamfélag og stjórnvöld.”

Fjölbreytt viðfangsefni innan skapandi greina eru tekin fyrir í öðrum greinum blaðsins; listsköpun, virði og virðismat, umbreytandi arkítektur, innviðaskuldir, stefnumótun ólíkra geira og tækninýjungar svo fátt eitt sé nefnt.

Háskólinn á Bifröst býður upp á BA nám í skapandi greinum og MA nám í menningarstjórnun

Hér má nálgast blaðið í heild sinni