Skapandi greinar: 15.300 atkvæða stefnumál 19. nóvember 2024

Skapandi greinar: 15.300 atkvæða stefnumál

Rannsóknarsetur skapandi greina fór fyrir kosningafundi um skapandi greinar í byrjun nóvember mánaðar. Fulltrúar stjórnmálaflokka voru til svara um áherslur eigin hreyfinga er varðar framtíð skapandi greina og hlutverki þeirra í íslensku samfélagi. Fundurinn var öllum opinn bæði á staðnum og í gegnum streymi á netinu. Að fundinum stóðu auk Rannsóknarseturs í skapandi greinum, Samtök skapandi greina, Miðstöð íslenskra bókmennta, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Myndlistarmiðstöð, Kvikmyndamiðstöð, Sviðslistamiðstöð og Tónlistarmiðstöð í samstarfi við CCP, Brandenburg, Vísindagarða og Grósku.

Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur og höfundur skýrslu um framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi stýrði umræðum. 

Á fundinum voru fyrir hönd flokkanna þau Ása Berglind Hjálmarsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra frá Sjálfstæðisflokknum, Björn Leví Gunnarsson fyrir Pírata, Eyjólfur Ármannsson frá Flokki fólksins, Gunnar Smári Egilsson fyrir hönd Sósíalistaflokksins, Jakob Frímann Magnússon hjá Miðflokki, Jón Gnarr frá Viðreisn, Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra fyrir hönd Framsóknar og Svandís Svavarsdóttir formaður VG.

Áður en fundurinn byrjaði var þeim sýnt myndband þar sem nokkrar efnahagslegar staðreyndir um skapandi greinar voru teknar saman. Þar kom fram að framlag skapandi greina er 150 milljarðar eða 3,5% af landsframleiðslu, að 15.300 manns starfa við skapandi greinar sem er 7,6% af öllum störfum á Íslandi, að hver króna sem opinberir aðilar fjárfesta í geiranum verður að þremur, að skatttekjur af starfssemi skapandi greina eru yfir 40 milljarðar og að virðisauki af skapandi greinum hefur aukist um 70% á sl. 10 árum.

Stórt skref að afnema skólagjöld í Listaháskóla Íslands

Fundarstjóri spurði fulltrúa stjórnmálaflokkanna hvort þeirra flokkar hefðu mótað stefnu um menningu og skapandi greinar. Sjálfstæðisflokkurinn, með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem fulltrúa á fundinum, nefndi að hún hefði lagt áherslu á niðurfellingu skólagjalda og það ætti einnig við um Listaháskóla Íslands, sem og aðra skóla. Þetta sagði hún mikilvæga og stóra aðgerð til sem farið hafi verið í á núverandi kjörtímabili. 

„Það er risastór aðgerð sem jafnar stöðu fólks sem ætlar að sækja sér listmenntun. Fólk sem gat ekki gert það áður nema borga himinhá skólagjöld. Ég held að þessi breyting muni skipta höfuðmáli til að við getum menntað fleiri og tryggt jöfnuð til náms í greinum sem styðja undir skapandi greinar til framtíðar,“ sagði Áslaug Arna. „Það er gríðarlega mikilvægt að við sjáum skapandi greinar sem stoð í kerfinu okkar. Skapandi greinar eru að verða stoð eins og hugverkaiðnaðurinn og nýsköpun. Þetta er að verða raunveruleg stoð á Íslandi sem skiptir okkur öllu máli og þess vegna verðum við að geta rætt skapandi greinar út frá því hvað gefið er til baka til samfélagsins.“

Framtíðin liggur með skapandi greinum

Framsóknarflokkurinn, með Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, talaði um nauðsyn fyrirsjáanleika í fjármögnun til kvikmyndagerðar og lýsti áherslu flokksins á að efla hönnun og tryggja stuðning við nýja Þjóðaróperu. Lilja sagði jákvætt að sjá skapandi greinar taka sviðið í stærra máli með aukinni almennri áherslu og athygli á greinarnar. „Eitt af því sem Ísland er mjög gott í eru skapandi greinar. Hvort sem það eru bókmenntir, myndlist, tónlist og allt það,“ sagði Lilja á fundinum og bætti við að heilmikið hafi gerst í málefnum skapandi greina undanfarin ár.

„Það sem við munum leggja áherslu á inn í framtíðina varðandi kvikmyndir er meiri fyrirsjáanleiki fjármögnunar. Það þarf að vera meiri fyrirsjáanleiki varðandi kvikmyndasjóð. Við munum vilja gera þriggja ára samning við Kvikmyndamiðstöð. Þannig að kvikmyndafólkið okkar upplifi ekki ófyrirsjáanleika þar. Við erum með tvö frumvörp til þess að bæta stöðu kvikmyndasjóðs. Ég mun leggja gríðarlega áherslu á hönnun á næsta kjörtímabili. Þótt við séum búin að gera hönnunarstefnu þá viljum við fylgja henni fastar eftir. Ég vil sjá meiri fjármuni til hönnunar. Ég held að það séu mikil efnahagstækifæri fyrir okkur í aukinni áherslu á hönnun. Og svo auðvitað bara að fylgja eftir því sem við höfum verið að gera,“ sagði Lilja. „Framtíðin liggur með skapandi greinum.“

Hjartað í samfélaginu

Píratar, fulltrúi þeirra Björn Leví Gunnarsson, sagði listir og menningu hjarta samfélagsins. „Þetta er tjáning manna á milli um líðandi stund, sagan okkar og svoleiðis. Slíkur vettvangur þarf alltaf pláss. Hann þarf alltaf aðstöðu,“ sagði Björn og benti á stöðu Listaháskóla Íslands sem lengi hefur beðið eftir húsnæði til framtíðar. „Það þarf aðstöðu til þess að búa til hjarta hvers nærsamfélags fyrir sig. Það er hluti af okkar stefnu núna að það sé staður fyrir fólk til að skapa. Þetta er eins og gömlu félagsheimilin nema í víðara samhengi,“ sagði Björn Leví en Píratar leggja áherslu á að bæta aðstöðu skapandi greina, Listaháskóla Íslands og sköpunar í landsbyggðum. Hann sagði flokkinn styðja kerfi listamannalauna og nýsköpunarstyrki. „Það sem Píratar berjast fyrir er grasrót og upp. Það að styðja alla í að búa til aðstöðu fyrir fólk að hittast og skapa saman.“

Skapandi greinar eru hluti af sjálfsmynd okkar

Flokkur fólksins, með Eyjólf Árna Rafnsson sem fulltrúa, taldi skapandi greinar mikilvægar fyrir íslenska sjálfsmynd og lagði áherslu á að efla tónlistarskólakerfið og tryggja styrki til listamanna. „Við lítum á okkur sem bókmenntaþjóð og við erum mjög öflug í tónlist. Ég hef búið erlendis og þar var alltaf verið að segja við mig hvað Ísland væri ofboðslega öflugt í tónlist. Við erum með frumlega tónlist og sú atvinnugrein - leyfum okkur að kalla tónlist atvinnugrein - á mjög vel við okkur. Við þorum að gera mistök og erum viljug til að prófa okkur áfram. Við verðum að efla menntakerfið á þessu sviði,“ segir Eyjólfur. „Af hverju erum við góð í tónlist? Jú, það er vegna þess að tónlistarskólar voru byggðir hér upp á sínum tíma. Það er grunnurinn að því hversu öflug við erum í tónlist.“ Eyjólfur bendir á að aukið fé hafi verið sett í listamannalaun og að hann sjái ekki annað en að einhugur sé um það í stjórnmálunum. „Ég tel að við eigum svo að fara meira í það varðandi bókmenntir að sjá til þess að höfundar geti komist á stærri markaði.“ Eyjólfur sagði skýrslu Ágústar Ólafs um framlag skapandi greina til verðmætasköpunar vera framlag til sterkari hagsmunabaráttu skapandi greina gagnvart stjórnmálunum.

Börnunum okkar séu kenndar listir og félagsstörf

Sósíalistaflokkur Íslands, með Gunnar Smára Egilsson, talaði um þörf á auknum stuðningi við grasrótina og gagnrýndi markaðsvæðingu menningar. Hann lagði áherslu á að skattleggja stórfyrirtæki til að fjármagna nýsköpun og skapandi greinar. „Kennsla í listgreinum hefur hrörnað mjög í grunnskólunum út af aðhaldi þar. Það eru mjög margir grunnskólar þar sem ekki er kennd myndlist. Við höfum ekki náð leiklist inn í skólana. Tónlist er minni en áður en hún er inni í tónlistarskólunum sem eru líka hrörnandi. Því miður eru þeir ekki eins opnir og þeir voru áður. Það er lykilatriði til að halda uppi öflugri menningu að við lokum ekki tilteknum hópum samfélagsins frá aðgengið að því að geta menntað sig í listum,“ segir Gunnar Smári.

Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur augljóst að leggja verði meira upp úr listakennslu fyrir börn. „Maður myndi ætla það á þessum tímum sem við lifum núna, þar sem er óvissa um hvað við ættum að kenna þeim, þá blasi við að kenna börnum listir, kenna þeim hæfni, kenna börnum leiklist, myndlist, söng og kenna þeim félagastörf, láta þau starfa inni í félagi og bara láta þau tala saman. Fókusinn hefur ekki verið þar heldur hefur verið fókus á að telja hvað börn lesa hratt, eins og það sé eina markmið skólanna.“ Gunnar Smári sagði Ísland eiga glæsta sögu af því hvernig við getum byggt upp menningu. „Tónlistin er líklega skýrasta dæmi þess þar sem að með skipulagðri aðkomu ríkisins var byggð upp tónlistarkennsla sem að síðan gat af sér stórkostlega menningu sem við njótum. Svo líka ef við viljum horfa á það hvernig við lítum út í augum annarra þá hefur tónlistin líka skilað stórkostlegum sigrum fyrir Ísland. Miklu meira en eiginlega nokkuð annað.“

Þakklátastur fyrir að fá að læra tónlist sem barn

Jakob Frímann frá Miðflokki fagnar hækkun á framlagi til listamannalauna. Hann hafi sjálfur barist fyrir hækkun listamannalauna í fimmtán ár. Jakob notaði tækifærið og hrósaði Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, fyrir aðgerðir sínar í þágu menningar sem menningar- og viðskiptaráðherra. Jakob segir skapandi greinar, listir og menning það sem Ísland sé þekktast fyrir. „Frá Íslendingasögunum alveg fram að Laxness og Gunnari og öllum þeim sem hafa haldið merkjum Íslands á lofti,“ segir Jakob. Fulltrúi Miðflokksins benti á mikilvægi skapandi greina svo allir fái notið sín. „Ég er þakklátastur fyrir það sem barn að hafa fengið að læra tónlist. Það voru engir biðlistar. Það þótti bara sjálfsagt. Gylfi Þorsteinn Gíslason [menntamálaráðherra 1956-1971] var nýbúinn að koma þessu kerfi á. Það var sjálfsagðasti hlutur í heimi að fá að læra tónlist. Núna var skólastjóri FÍH hjá mér á fundi fyrir tveimur vikum að sýna mér fram á að þau geta og mega bara taka á móti um 30% umsækjenda. Hverju sætir það á tímum þar sem fleiri og fleiri eru að sýna fram á það að tónmálið hentar þeim betur en ritmálið? Geta blómstrað í tónlist og kvikmyndum þótt þeir blómstri ekki í akademískum fræðum. Miðað við hvar við stöndum þá ættu þetta að vera fögin sem standa öllum til boða.“

Töfrar skapandi greina virkjaðir samfélaginu til bjargar

Ása Berglind Hjálmarsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar tók undir með fulltrúum annarra flokka og sagði margt gott hafa gerst undanfarin ár. Þar á meðal væri Rannsóknarsetur skapandi greina. „Listir, menning og skapandi greinar hafa auðvitað gildi í sjálfu sér,“ segir Ásta og bætir við að flest okkar viti að sköpun hafi virði í sjálfu sér og að skapandi greinar séu ein af stoðum verðmætasköpunar. „Svo er þriðja undirstaða greinarinnar. Við vitum að listir og menning hafa töframátt. Við vitum það. Við getum nýtt þær greinar betur sem tæki til þess að takast á við áskoranirnar sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir. Þá ætla ég að vísa sérstaklega til tungumálsins okkar. Ég ætla að tala um vanlíðan ungs fólks, aukna skautun og inngildingu. Við getum nýtt listir, menningu og skapandi greinar til þess að takast á við þessa hluti með markvissari hætti. Við erum með frábært tónlistarskólakerfi en ég tel að það séu tækifæri til að búa til fleiri leiðir með samfélagslegum áherslum, ekki bara í tónlistinni. Þá á ég líka við myndlist, leiklist og hönnun. Þetta eru gríðarlegar áskoranir. Það verður bara að fá tækifæri áfram til að vaxa og dafna. Það gerist bara með góðu stuðningskerfi og Samfylkingin ætlar ekki að láta sitt eftir liggja þar.“

Viðreisn vill aukið vægi skapandi greina

Viðreisn, með Jón Gnarr sem fulltrúa, sagðist styðja aukið vægi skapandi greina í menntakerfinu og vildi einfalda styrkjakerfið svo fjármunir kæmu beint til listafólks. „Skapandi hugsun, listir og menning hafa svona bara verið hluti af mínu lífi, svona ástríða sem ég hef í lífinu. Ég hef komið mjög víða við. Eiginlega bara á flestum sviðum: leiklist, kvikmyndagerð, tónlist og sviðslistum,“ segir Jón Gnarr um hvaðan hann sjálfur kemur sem frambjóðandi Viðreisnar þegar kemur að skapandi greinum. „Ég myndi aldrei ganga til liðs við stjórnmálaflokk sem ætlaði ekki að efla og styrkja skapandi starfsemi á Íslandi, aldrei. Það er stefna Viðreisnar að gera það. Við viljum auka vægi skapandi hugsunar og skapandi greina í skólakerfinu. Gera það að eðlilegum hluta þess að þroskast sem manneskja á Íslandi. Ekki sem einhverja hliðarleið. Við viljum endurskoða menningarsjóði, styrktarsjóði með það að markmiði að efla þá. Við viljum reyna að losna við milliliði þannig að peningarnir komist til þeirra sem þurfa á þeim að halda. Ekki fjölga ríkisstofnunum sem einhverjum flöskuhálsum eða milliliðum heldur beina peningunum til þeirra sem þurfa á þeim að halda. Líka uppræta kerfisvillur í kerfinu, eins og það að endurgreiðslur til erlendra kvikmyndaverkefna bitni á kvikmyndasjóði. Þetta er algjörlega óásættanlegt.“

Skapandi greinar i raun leiðin til að bjarga samfélaginu

Vinstrihreyfingin - grænt framboð (VG), með Svandísi Svavarsdóttur, lagði áherslu á mikilvægi grasrótarinnar í menningarlífinu og viðurkenningu stjórnvalda á verðmætum skapandi greina, sem hún taldi undirstöðu samheldni samfélagsins. „Það sem mig langar að byrja á að segja er það að tilefnið sem hér er, er að segja að við eigum tölur og við eigum gögn og við erum að velta því fyrir okkur að hér sé um að ræða raunverulegar stærðir í íslensku samfélagi vegna þess að það hafa verið teknar ákvarðanir um það að lyfta Greiningu, hagvísum og sérstöku ráðuneyti menningarmála á undanförnum kjörtímabilum. Þetta er pólitísk forgangsröðun, þetta er áhersla sem við í VG höfum haft alla tíð. Ég vil nefna að Katrín Jakobsdóttir setti í gang greiningu á sínum tíma þegar hún var menntamálaráðherra á árunum 2009–2013. Það skiptir máli að síðan var því fylgt eftir. Ég heyri það hér að það dettur engum í hug að fara að klippa á þetta ferli. Við erum komin á þennan stað sem skiptir alveg gríðarlega miklu máli,“ segir Svandís. „Svo er á hinum endanum alveg óvenjulega sterk grasrót í íslensku lista- og menningarlífi sem laðar að fólk. Við sjáum það bæði á sviði tónlistar og annarra greina að grasrótin á Íslandi, þessi samstöðustemning sem er meðal listamanna á Íslandi og í menningargeiranum, er eftirtektarverð. Það er eitthvað sem er horft til. Það eru engar stofnanir sem búa þetta til eða ákvarðanir stjórnvalda á hverjum tíma, en þetta er sproti og grasrót sem er mjög mikils virði. Það skiptir mjög miklu máli að pólitíkin viðurkenni það að þetta séu raunveruleg verðmæti, ekki síst vegna þess að akkúrat núna finnum við fyrir samfélagsbreytingum sem snúast um það að samheldni, eining, samvinna og samúð sé eitthvað sem er á undanhaldi. Það er eitthvað sem er að losna í sundur. Það er að verða einhver breyting. Þótt við séum með heiminn í vasanum þá eigum við erfiðara með að eiga samskipti. Tjáningin sem er í gegnum skapandi greinar, samskiptin sem eru í gegnum tónlist, myndlist eða aðrar skapandi greinar, það er í raun leiðin til að bjarga samfélagi.“

Hlutverk rannsóknarseturs skapandi greina

Rannsóknarsetur skapandi greina, sem er í eigu Háskólans á Bifröst, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háksólans á Hólum og Listaháskóla Íslands sem allir eiga fulltrúa í stjórn þess ásamt Samtökum skapandi greina sem á einn fulltrúa þar líka. Setrið er stutt ef menningar- og viðskiptaráðuneytinu til þriggja ára og sitja tveir fulltrúar ráðuneytisins í stjór. Setrið starfar sem miðpunktur rannsókna og þekkingarþróunar um hlutverk skapandi greina í íslensku samfélagi. Setrið var stofnað með það að markmiði að varpa ljósi á efnahagslegan, menningarlegan og samfélagslegan ávinning skapandi greina og vinna að stefnumótun og þekkingaruppbyggingu sem efli þennan vaxtargeira. Með því að tengja saman fræðimenn, listafólk, stjórnvöld og atvinnulífið gegnir setrið lykilhlutverki í að skoða tækifæri skapandi greina til vaxtar og nýsköpunar.

Verkefni setursins eru fjölbreytt, allt frá rannsóknum á áhrifum fjárfestinga í menningu og listum til stefnumótunar til stuðnings innlendum fyrirtækjum í skapandi greinum. Umræðufundir setursins, líkt og þessi sem fjallað er um hér, hafa reynst vettvangur fyrir opna umræðu og stefnumótun um hlutverk skapandi greina í íslensku efnahags- og atvinnulífi.

Skapandi greinar sem hluti af undirstöðuatvinnugreinum Íslands

Á fundinum kom skýrt fram að flestir flokkar telja skapandi greinar orðnar eitt af grundvallaratvinnugreinum landsins og því þarf að tryggja þeim bæði fjárhagslegan og stjórnsýslulegan stuðning. Ágúst Ólafur Ágústsson, hagfræðingur og höfundur nýrrar skýrslu um efnahagsleg áhrif skapandi greina, hefur sagt að beint framlag greinarinnar til landsframleiðslu sé nú um 3,5%, sem er svipað og framlag sjávarútvegs​. Hann lagði áherslu á að opinber fjárfesting í þessum greinum skili allt að þreföldum efnahagslegum ávinningi​.

Mikilvægi tónlistarnáms og jafnt aðgengi

Eitt stærsta umræðuefnið á fundinum var aðgengi að tónlistarnámi, sem hefur reynst mikilvægur grunnur fyrir blómlegt íslenskt tónlistarlíf. Fulltrúar flokkanna voru almennt sammála um að ríkið ætti að tryggja jafnt aðgengi að tónlistarnámi, til að fleiri börn gætu nýtt hæfileika sína, óháð efnahag.

Ágúst Ólafur Ágústsson hefur einnig varað við því að tónlistarnám sé að verða fjarlægara fyrir börn frá lægri tekjuhópum og lýst því yfir að opinber stuðningur þurfi að koma inn til að tryggja jafnan rétt barna til menntunar í skapandi greinum​.

Fjárfesting í skapandi greinum skilar samfélagslegum og efnahagslegum ávinningi

Fulltrúar allra flokka voru sammála um að fjárfesting í skapandi greinum hefði margföldunaráhrif á hagkerfið. Gunnar Smári Egilsson frá Sósíalistaflokknum benti á að með því að efla listamannalaun og bæta starfsumhverfi listafólks væri hægt að skapa sjálfbært og blómlegt menningarlíf​(text-is). Þetta endurspeglar efni nýrrar skýrslu Ágústs Ólafs, sem sýnir að fjárfesting í skapandi greinum skilar sér margfalt til baka í hagkerfið og stuðlar að fjölbreyttu atvinnulífi​(Menning og skapandi gre…).

Kvikmyndagerð og innlend framleiðsla

Kvikmyndagerð var einnig til umfjöllunar. Svandís Svavarsdóttir frá Vinstri grænum lagði áherslu á mikilvægi kvikmyndasjóðs fyrir innlenda framleiðslu og gagnrýndi að stærstur hluti opinberra styrkja færi til endurgreiðslukerfa sem nýtist mest erlendum framleiðendum. Jakob Frímann benti á að með því að styrkja kvikmyndasjóð væri hægt að skapa fleiri störf í innlendri framleiðslu, sem hefði margþættan ávinning fyrir íslenskt samfélag​(text-is)​(text-is).

Framtíðaráskoranir og tækifæri

Fundurinn lagði grundvöll að áframhaldandi umræðu um hlutverk skapandi greina á Íslandi. Mikilvægi menningar og skapandi greina sem undirstöðuatvinnugreinar kom skýrt fram og var kallað eftir auknum stuðningi, sérstaklega til menntunar, listamannalauna og innlendrar framleiðslu. Ágúst Ólafur Ágústsson, höfundur skýrslu menningar- og viðskiptaráðuneytisins, bendir á að þetta sé fjárfesting sem eflir andlegan og efnahagslegan styrk landsins. Hann leggur til að stjórnvöld líti á skapandi greinar sem fjárhagslegan styrk, sem viðhaldi fjölbreytni, virði og framtíðarmöguleikum samfélagsins​(Menning og skapandi gre…).

Skapandi greinar – mikilvægur hlekkur í samfélagsþróun

Íslenskt samfélag hefur einstakt tækifæri til að efla skapandi greinar, bæði með því að tryggja jafnt aðgengi að tónlistarnámi og með því að sjá skapandi greinum formlegan sess í atvinnustefnu þjóðarinnar. Það er ljóst að fjárfesting í menningu er ekki aðeins spurning um menningarlegt mikilvægi heldur einnig spurning um efnahagslegan ávinning. Með því að efla menntun, skapa sterkari menningarstofnanir og veita sjálfstæðan fjárhagslegan stuðning til listafólks, getur Ísland tryggt áframhaldandi vöxt og nýsköpun á þessu sviði.