Menningarmót á Bifröst 31. mars 2023

Menningarmót á Bifröst

Menningarmót Vesturlands fór fram í Háskólanum á Bifröst síðustu helgi þar sem umræða um framtíð menningar og skapandi greina í landshlutanum var rædd. Fjöldi sérfræðinga, þeirra sem hafa starfað við menningar og skapandi greinar á Vesturlandi um árabil, skiptust á skoðunum og nutu veitinga í Norðurárdalnum. 

Samstaða er nauðsynleg

Áhyggjuefni sérfræðinga svæðisins má draga saman í skort á samvinnu milli bæja og hreppa, einstaklinga og fyrirtækja. Þörf er á uppbyggingu tengslanets meðal skapandi fólks, fyrirtækja og stofnana á Vesturlandi því aukin samstaða er lykill að árangri. Þá er mikilvægt að virkja yngri kynslóðir til starfa og virkja hugmyndaauðgi hennar og sköpunarkraft.

Einnig er skortur á menningarlegum innviðum sem fjárfesta þarf í og auka nýtingu menningarverðmæta, sem eru ríkur hluti af listasögu Vesturlands, og liggja í geymslukjöllurum stofnana. Landshlutinn þarf einnig að huga betur að vörumerki sínu sem menningarsvæði, til dæmis með því að stofna Listasafn Vesturlands hvetja til aukinnar ræktunar og nýta sérfræði háskóla svæðisins í markaðsstarfi og aðferðafræði. Þá er mikilvægt að hlúa að samfellu og tryggja að skapandi verkefni haldi áfram í vinnslu og virkni þó svo þeir sem upphaflega hófu þau hverfi til annarra starfa.

Kraftmikil verkefni

Styrkur Vesturlands, á sviði menningar og skapandi greina, liggur ekki síst í einstakri menningararfleifð, náttúru og þekkingu. Fyrir eins  fámennt svæði er einstakt að hafa tvo háskóla með atvinnutengdar áherslur í rekstri. Vesturland er svæði þar sem hefðir lifa og það er einstakt á alþjóðlegan mælikvarða. Mörg verkefni hafa skilað miklum árangri og eftirtekt, eins og Landnámssetrið, Frystiklefann á Rifi, Snorrastofa í Reykholti og Nýp á skarðsströnd, að ógleymdum listamönnum eins og Páli Guðmundssyni á Húsafelli.

Þá er náttúran á Vesturlandi fjölbreytt og fögur og getur bæði verið innblástur sköpunar sem og hluti hennar. 

Staðbundin áhrif

Menningarmótið er hluti af fjögurra ára rannsóknarverkefni sem Háskólinn á Bifröst tekur þátt í að vinna ástamt tólf samstarfsteymum víðs vegar að úr Evrópu. IN SITU er framkvæmdarstýrð rannsókn sem skoðar mikilvægi tengsla á landfræðilegu rými, samfélagslegum áhrifum fólks og menningarstarfsemi. Rannsóknin grundvallast á sérstöðu svæða og hvernig þau nýta sér hana í nýsköpun og þróun. Verkefnið er styrkt af Horizon sjóð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.