Sirrý Arnardóttir kennari námskeiðsins og nemendur í skapandi greinum. Ljósmyndari Yulia Kovalenko.

Sirrý Arnardóttir kennari námskeiðsins og nemendur í skapandi greinum. Ljósmyndari Yulia Kovalenko.

8. apríl 2025

Frá hugmynd til framkvæmdar

Nemendur í skapandi greinum luku námskeiðinu ,,Framsetning og sala hugmynda” hjá Sirrý Arnardóttur með keppni um bestu kynninguna. Keppnin er útfærð af Sirrý og tekur tillit til námskeiðs sem fjallar um að koma hugmynd í framkvæmd þar sem nemendur vinna ýmist að nýsköpunarverkefnum, fyrirtækjum, vöru eða þjónustu sem þeir hafa þróað á fyrsta námsárinu sínu.

Keppnin fór fram í Grósku og á Teams og er hluti af sex eininga námskeiði.

Dómararnir komu úr viðskipta- og menningarlífinu. Ingi Rafn sem rekur Karolina Fund, Margrét Rósa Einarsdóttir sem rekur Englendingavík (og rak Iðnó um árabil), Kristín Sif útvarps- og sjónvarpsskona á K100 og Dagmálum og Alexandra Magnúsdóttir fulltrúi nemenda. Þau höfðu á orði að það væri aðdáunarvert hvað nemendur voru öruggir, öflugir og hugmyndaríkir.

,,Ég hafði í huga vinsæla sjónvarpsþætti eins og Lövens hule, Dragons Den og Shark Tank við skipulagningu á lokakeppninni” sagði Sirrý Arnardóttir kennari námskeiðsins og bætti við: ,,Það sátu fjórir öflugir dómarar fyrir framan nemendur, fylgdust með kynningum og spurðu þau svo nánar útí hugmyndina og völdu að lokum þann nemendahóp sem skaraði framúr í kynningu og sölu á sinni hugmynd. Að setja þetta upp sem keppni gerir kynningarnar raunverulegri, skapar meiri pressu og nemendur fá því alvöru þjálfun í að nýta sér lærdóminn úr námskeiðinu t.d. varðandi það að sigrast á sviðsskrekk, nýta sér kvíða, komast að kjarna málsins, vekja athygli og halda athyglinni, svara óvæntum fyrirspurnum, tala skýrt og ná til áhorfenda.

Ég hvatti nemendur til að höfða til sem flestra skynfæra og hugmyndaflugið fékk að njóta sín og litir, myndir, tónlist, bragð, leikmunir…. Allt mögulegt var notað til að krydda kynnningarnar.”

Sumar hugmyndirnar eru þegar komnar í framkvæmd og orðnar hluti af menningarlifi landsins. Meðal þess sem nemendur kynntu voru Listamarkaðurinn Litrófan, hlaðvarpið Á bak við tjöldin, Neistaflug á Neskaupstað, Blíðan á Flateyri, foreldrakaffihús, verkefni er snúa að nýtingu á textíl og fleira og fleira. Hópurinn sem sigraði í keppninni um bestu lokakynninguna er í þann mund að tilkynna nýtt konsept sem lítur dagsins ljós í viðskipta- og menningarlífi landsins.

,,Það er mikilvægt að kunna að setja fram á hnitmiðaðan máta hvað maður hefur upp á að bjóða til að gera hugmynd að veruleika, fá fólk til liðs við sig og ná til fjárfesta.

Í þessum námskeiði hafa englafjárfestar gefið góð ráð ásamt fólki í viðskiptalífinu og menningargeiranum um hvað virkar vel í kynningum (pitch) og hvað ber að forðast.

Í dag getur gervigreindin vissulega gert margt fyrir okkur en það er enn undir manneskjunni komið að standa fyrir máli sínu, kynna hugmynd af eldmóði og fá fólk til liðs við sig. Og þetta er það sem við erum að þjálfa nemendur í við Háskólann á Bifröst” segir Sirrý að lokum og þakkar Önnu Hildi Hildibrandsdóttur fagstjóra í Skapandi greinum og Karólínu Stefánsdóttur samkennara sínum fyrir frábært samstarf. ,,Það þarf samvinnu við að gera lokakeppnina svona glæsilega.”