Hvammstangi er stræstri byggðakjarni Húnaþings vestra.

29. ágúst 2024

Byggðarbragur rannsakaður

Komin er út skýrslan Byggðabragur: Félagssálfræðileg rannsókn á þremur íslenskum sveitarfélögum eftir dr. Bjarka Þór Grönfeldt og dr. Vífil Karlsson. Skýrslan er gefin út af Rannsóknasetri byggða- og sveitarstjórnarmála við Háskólann á Bifröst.

Aðdragandi rannsóknarinnar er sá að íbúakannanir hafa bent til þess að svokallaður byggðabragur geti verið gjörólíkur milli áþekkra sveitarfélaga. Með byggðabrag er átt við upp að hvaða marki íbúar eru ánægðir með sveitarfélagið, þeim þyki þjónusta góð, þeir séu bjartsýnir á framtíðina og vilji halda áfram búsetu sinni á svæðinu.

Stórar íbúakannanir hafa þannig leitt ítrekað í ljós ólíkar niðurstöður hjá samliggjandi sveitarfélögunum þremur Dalabyggð, Húnaþingi vestra og Húnabyggð, þar sem ánægja íbúa í Húnþingi vestra mælist meiri en hjá íbúum hinna sveitarfélaganna tveggja.

Viðhorf sem skildu aðallega á milli, þ.e. þegar ánægja íbúa í Húnaþingi vestra reyndist meiri, voru: Trú á getu samfélagsins til að takast á við áskoranir, félagsleg samheldni íbúa, hve vel íbúar gætu uppfyllt þarfir sínar í sveitarfélaginu, hvort hrepparígur væri vandamál, hvort erfiðleikar væru í samstarfi dreifbýlis og þéttbýlis og hvort slúður og neikvæðni væru metin sem vandamál í sveitarfélaginu. Húnaþing vestra skilaði jákvæðari niðurstöðum á þessum mælikvörðum.

Þessar tölfræðilegu niðurstöður voru síðan krufnar betur í rýnihópum með íbúum úr öllum sveitarfélögunum.

Þvert á það sem ætla mætti, að munurinn á milli sveitarfélaganna lægi í því að íbúar í Húnaþingi vestra hefðu sterkari sálfræðilega tengingu við sveitarfélagið (þ.e. hefðu sterkari sjálfsmynd sem hópur), kom í ljós að íbúar allra sveitarfélaganna virtust hafa nokkuð sterka sjálfsmynd og þykja vænt um sveitarfélagið sitt.

Það sem virðist hins vegar greina á milli er trúin á styrk samfélagsins, ánægja með þá nærþjónustu sem í boði er og samheldni ólíkra byggðarlaga innan sveitarfélagsins.

Rannsóknin sem hér um ræðir er að því leyti nýstárleg, að við úrvinnslu hennar er stuðst við fræðilegan bakgrunn Bjarka félagslegri sálfræði. Nálgast má skýrsluna hér á vef rannsóknasetursins og einnig á vef Byggðastofnunar.

Þá er þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði, þar sem vonast er til að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað að sterkari og sjálfbærari samfélögum og aukinni byggðafestu.

Nálgast má skýrsluna Byggðabragur: Félagssálfræðileg rannsókn á þremur íslenskum sveitarfélögum hér á vef rannsóknasetursins.

Nánari upplýsingar um rannsóknina 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta