28. október 2022

Áhrif loftslagsbreytinga á atvinnulíf hér á landi

Fjallað um fræðin er þáttaröð sem Háskólinn á Bifröst gefur út í samstarfi við fræðadeildir háskólans. Í nýjustu þátttaröðinni ræðir Elín H. Jónsdóttir, deildarforseti lagadeildar, við Stefan Wendt, deildarforseta viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst um áhrif loftslagsbreytinga á íslenskt atvinnulíf.

Þátttaröðin er gerð í tilefni af útgáfu bókarinnar Business and Policy Solutions to Climate Change, from Mitigation to Adaptation (Palgrave Macmillan), en þessu áhugaverða verki ritstýrði Stefan ásamt Thomas Walker, Sherif Goubran og Tyler Schwartz. Bókin er hluti af útgáfuröðinni Palgrave Studies in Sustainable Business in Association with Future Earth.

Alls hafa verið gerðir þrír þættir. Í þeim fyrsta, sem nú hefur verið gefinn út, spyr Elín Stefan út í áhrif loftslagsbreytinga út frá annars vegar mótvægisaðgerðum fyrirtækja og hins vegar aðlögun þeirra að loftslagsbreytingum, auk þess sem komið er inn á þau tækifæri og ógnanir sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir samfara aukinni loftslagsvá.

Á meðal þess sem horft er hér til er vægi mótvægisaðgerða í þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi á vegum fyrirtækja og stjórnvalda á kostnað aðlögunar, þ.e. aðgerða sem stuðla að því að samfélagið lagi sig að þeim breytta veruleika sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér, s.s. hækkandi sjávarstöðu og vaxandi öfgum í veðurfari.

Einnig horfir Stefan til Íslands sem hluta af samfélögum Norðurslóða. Fram kemur m.a. að íslenskt atvinnulíf verði að geta greint þau sóknarfæri sem loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér í þessum heimshluta. Jafnframt þurfi fyrirtækin að leggja sitt af mörkum svo að vinna megi bug á þeim ósjálfbæru atvinnu- og lifnaðarháttum sem samfélagið  stendur í heild sinni frammi fyrir.

Að mati Stefans er mikilvægur liður í því ferli, að fara bil beggja á milli mótvægis- og aðlögunaraðgerða; að draga áfram úr losun og auðlindasóun með öllum tiltækum ráðum, með bæði viðteknum aðferðum og nýjum, en leggja á sama tíma aukna áherslu á að greina hvernig við getum lagast þeim breytta veruleika sem blasir við og nýtt þau sóknarfæri sem loftslagsbreytingar kunna að fela í sér til aukins vaxtar á forsendum sjálfbærar þróunar.  

Fjallað um fræðin, rætt við Stefan Wendt 1/3

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta