Úthlutunarreglur
1. gr.
Auglýsa skal húsnæði samhliða umsóknum um skólavist. Þess utan auglýsir umsjónarmaður húsnæðis eftir umsóknum um laust húsnæði.
2. gr.
Upplýsingar um húsnæði nemendagarða og annað húsnæði sem skólinn hefur milligöngu um að útvega skulu vera aðgengilegar á heimasíðu skólans. Allar umsóknir um húsnæði skal senda inn rafrænt í gegnum þar til gert umsóknarform á heimasíðu skólans. Í umsókninni skal tilgreina fjölskylduhagi umsækjenda og óskir um tegund húsnæðis. Í umsókn skal telja þá fjölskyldumeðlimi sem hafa munu fasta búsetu á heimilinu einnig skal tilgreina fjölda barna undir 18 ára aldri sem ekki hafa fasta búsetu.
3. gr.
Umsóknarfrestur um húsnæði er 15. júní fyrir haustmisseri og til 10. nóvember fyrir vormisseri. Miðað er við að úthlutun sé lokið 20 dögum eftir að umsóknarfresti lýkur. Úthlutun skal yfirfarin og samþykkt af þriggja manna úthlutunarnefnd sem skipuð er umsjónarmanni húsnæðis, formanni íbúaráðs ásamt einum aðila skipuðum af rektor. Umsóknir sem berast eftir tilgreinda umsóknarfresti verða afgreiddar þegar og ef húsnæði losnar.
4. gr.
Stig sem veitt eru fyrir hverja önn í skólanum eru bundin við eðlilega umgengni og skilvísi, en falla niður ella. Verði alvarlegur misbrestur á umgengni og skilvísi, á íbúi á hættu að koma ekki til greina við úthlutun á húsnæði.
Fari fram ólögmæt starfsemi í íbúðinni/herberginu af hálfu leigutaka eða einhvers á hans vegum er heimilt að segja leigusamningi upp samstundis.
5. gr.
Á jöfnum stigum skal raða samkvæmt eftirfarandi aðferðum: · 1. Fjöldi barna. · 2. Aldur barna.· 3. Námstími við Háskólann á Bifröst, að því tilskildu að um eðlilega námsframvindu hafi verið að ræða. · 4. Fjöldi í fjölskyldu. ·5. Hlutkesti ræður.
6. gr.
Fjölskylduíbúðirnar eru leigðar til eins árs í senn en einstaklingsherbergin til loka skólaárs. Heimilt er að víkja frá þessari reglu ef óskað er sérstaklega eftir því.
7. gr.
Verði breytingar á aðstæðum íbúa á Nemendagörðum milli úthlutana, t.d. vegna sambúðarslita, er heimilt að færa viðkomandi yfir í aðra íbúðartegund (einstaklingsíbúð/herbergi/fjölskylduíbúð), samkvæmt úthlutunarreglum. Komi slík atvik upp verða þau tekin fyrir hjá úthlutunarnefnd.
8. gr.
Sé ekki óskað eftir breytingu á húsnæði eða húsnæði sagt upp skal við það miðað að húsaleigusamningur verði framlengdur.
9. gr.
Umsækjandi ber ábyrgð á að upplýsingar í umsókn séu réttar. Gefi umsækjandi vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn, sem hafa áhrif á úthlutun, veldur það brottvísun úr húsnæðinu.
10. gr.
Einstaklingar eiga ekki rétt til úthlutunar í fjölskylduíbúðir, einir eða saman, nema ekki liggi fyrir umsóknir frá fjölskyldum eða sambýlisfólki. Barnlaus pör geta þó sótt um tveggja herbergja íbúðir. Í slíkum tilfellum framlengist húsaleigusamningur ekki sjálfkrafa, auk þess sem heimilt er að segja upp leigusamningi og finna leigutaka annað húsnæði ef skortur verður á fjölskylduíbúðum eða þörf verður fyrir íbúð vegna sérstakra aðstæðna að mati úthlutunarnefndar, t.d. vegna fötlunar.
11. gr.
Úthlutunarnefnd Nemendagarða getur vikið frá úthlutunarreglum þessum í sérstökum tilfellum. Umsækjendur geta sent skriflegar umsóknir um undanþágur til umsjónarmannshúsnæðis til umfjöllunar hjá úthlutunarnefnd. Umsókn um undanþágu þarf að vera studd gögnum s.s. læknisvottorði.
12. gr.
Innheimt er tryggingagjald kr. 30.000 við upphaf leigutíma sem hægt er að fá endurgreitt innan mánaðar frá lokum leigutímans með því að senda póst á umsjónarmanns húsnæðis við brottför ef húsnæðinu er skilað í góðu ástandi samkvæmt reglum um skil og úttektir. Tryggingagjaldið er óhreyft milli anna á meðan nemandi leigir húsnæði á Bifröst nema leigutaki óski sérstaklega eftir endurgreiðslu. Af tryggingagjaldi er dreginn frá kostnaður við lagfæringar ef borað hefur verið í veggi eða hreinsa eða mála þarf húsnæðið vegna skemmda eða reykinga eða annars. Flutningsgjald milli húsnæðis er kr. 10.000. Barnlaust fólk sem á von á barni og fjölskyldufólk sem á rétt á að flytja úr tveggja herbergja í þriggja herbergja íbúð eða þriggja herbergja í fjögurra herbergja íbúð er undanþegið flutningsgjaldi.
13. gr.
Komi upp ágreiningur vegna túlkunar eða framkvæmdar þessara reglna, sem stjórn Nemendagarða getur ekki eytt, er hægt að vísa málinu til háskólaráðs.
Stigagjöf:
Hver einstaklingur í námi á Bifröst | 40 stig |
Hver önn við skólann | 5 stig |
Hvert barn í heimili | 100 stig |
Hvert barn sem ekki hefur fasta búsetu | 10 stig |
- að auki reiknast stig sem nema tvöföldum aldri hvers barns sem hefur fasta búsetu á heimilinu. |
Umsjónarmaður húsnæðis
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta