Rannsóknir á sviði menningar og skapandi greina í landsbyggðum
Rannsóknir á sviði menningar og skapandi greina í landsbyggðum er nýr áfangi í meistaranámi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst í samstarfi við HA, HÍ og Byggðastofnun.
Í námskeiðinu verða áhrif menningar og skapandi greina (MSG) í landsbyggðum skoðuð. Samhengi byggða- og menningarstefnu stjórnvalda verður rýnd, fyrirkomulag sóknaráætlana skoðað og farið yfir hlutverk Byggðastofnunar og aðkomu að MSG.
Í því felst að skoða breytingar á stjórnsýslu og stjórnskipulagi menningarmála, gagnagrunna MSG og rannsóknaáherslur ásamt áhrifum á nýsköpun. Sérstök áhersla er lögð á menningarmál í landsbyggðum með umfjöllun um sóknaráætlanakerfið, uppruna þess og áhrif á þróun í menningarstjórnsýslu. Auk þess verður farið yfir hlutverk Byggðastofnunar og umsvif stofnunarinnar á sviði MSG. Skoðað verður hvaða alþjóðlegu rannsóknaráherslur hafa notið aukinna vinsælda undangengin ár og hvernig nýta megi slíkar rannsóknir á MSG til að þekkingaruppbyggingar í landsbyggðum. Námið býr nemendur undir frekari rannsóknir á sviði menningar og skapandi greina og nýtist til vinnu hjá hinu opinbera, á einkamarkaði sem og í þriðja geiranum.
Menning og skapandi greinar (MSG) leika mikilvægt hlutverk í tæknibyltingu og alþjóðavæðingu samtímans. Fræðafólk í Evrópu hefur í auknu mæli beint athygli sinni að mikilvægi staðbundinna áhrifa MSG, ekki síst í landsbyggðum. Samspil MSG og nýsköpunar er einnig í brennidepli þar sem víðtæk samfélagsleg áhrif eru skoðuð samhliða tækniþróun.
Sköpunarkrafturinn, sem er kjarninn í starfsemi MSG, hefur verið lýst sem orkugjafa 21. aldar en í því felst að endurhugsa skipulag þeirra grunnkerfa sem móta samfélagið. Vísbendingar eru um að vöxtur skapandi greina sé meiri á Íslandi en í nágrannaríkjum og nýleg rannsókn, undir stjórn Þórodds Bjarnasonar, staðfestir mikilvægi menningar og afþreyingar fyrir byggðafestu. Kallað er eftir frekari rannsóknum og greiningum á þessu sviði á Íslandi til þess m.a. að undirbyggja framsækna stefnumótun og nýta betur þá möguleika sem búa í atvinnugreinum MSG.
Valdir hafa verið sérfræðingar víða að til að kenna áfangann. Þar á meðal eru Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst, Erna Kaaber, rannsakandi og sérfræðingur í menningarstefnu, Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona Rannsóknaseturs skapandi greina, Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð HA, Áskell Heiðar Ásgeirsson, sérfræðingur í viðburðarstjórnun við HH og Kjartan Sigurðsson, lektor við HA og sérfræðingur á sviði nýsköpunar.
Námskeiðið fer fram á netinu í einni staðlotu dagana 22. apríl - 5. júlí, 2024. Skráning hefjast 1. febrúar.
Verkefnið er stutt af Samstarfi háskólanna sem heyrir undir háskólaráðuneytið. Frekari upplýsingar veitir Anna Hildur Hildibrandsdóttir, verkefnastjóri um aukna rannsóknavirkni á MA og doktorsstigi í skapandi greinum í farsíma 866 7555 eða á netfanginu annah@bifrost.is.