Alþjóðastefna 

Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi og samfélagi. Markmiðum alþjóðastefnu skal náð með því að samþætta hana inn í námskeið skólans og tryggja alþjóðlega vídd í námi og kennslu ásamt þátttöku í rannsókna- og þróunarstarfi í samstarfi við aðra háskóla og hagsmunaaðila.

Markviss áhersla á samfélagsábyrgð í námsinnihaldi ber vott um það markmið Háskólans á Bifröst að mennta fólk til áhrifa og ábyrgðar í atvinnulífi og samfélagi. Samfélag háskólans er opið og alþjóðlegt. Eins og fram kemur í Stefnumiðum Háskólans á Bifröst til 2030 leggur Bifröst sitt af mörkum til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna með því að samþætta námskrár sínar við markmiðin.

Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarkennslu og leggur áherslu á að efla og þróa möguleika á skiptinámi í fjarnámi með öflugu samstarfi við erlenda fjarkennsluháskóla.

Nám

Stefna Háskólans á Bifröst er:

  • Að í sérhverri námslínu sé boðið upp á valmöguleika til náms erlendis, og að skiptinám í fjarnámi verði meðal valkosta.
  • Að einingarbær námsdvöl erlendis, skemmri eða lengri, sé alltaf valkostur og metin inn í námsferil á viðeigandi máta.
  • Að í sérhverri námslínu sé boðið upp á m.k. eitt námskeið á ensku á hverri önn. Slíkt námskeið getur verið í höndum kennara viðkomandi deildar, eða í samvinnu við erlenda samstarfsháskóla.
  • Að nemendur hafi jöfn tækifæri og sveigjanleika til að fara erlendis á námstíma, en að allt nám hafi engu að síður alþjóðlega vídd óháð því hvort nemendur dvelji erlendis á námstíma.
  • Að fyrir nemendum séu kynnt tækifæri til skiptináms á nýnemdadögum og í staðlotum.
  • Að sérhver námslína bjóði upp á fjarskiptinám í samstarfi við aðra fjarkennsluháskóla.

 Stefna Háskólans á Bifröst fyrir skiptinema:

  • Að nám við Háskólann á Bifröst sé aðgengilegt skiptinemum með ólíkan bakgrunn ,uppfylli þeir inngönguskilyrði háskólans.
  • Að kennsla í áföngum á ensku verði bæði í staðarnámi og fjarnámi. Þannig er tryggt að allir nemendur háskólans geti sótt þessa áfanga.
  • Að skiptinemar við Háskólann á Bifröst fái kynningu á þeim stuðningi sem þeim stendur til boða við nám sitt, frá námsráðgjöfum, kennslusviði og kennurum í upphafi annar.
  • Að unnið sé með nemendafélagi Háskólans á Bifröst að því að skiptinemum bjóðist stuðningsaðila (mentor) úr hópi nemenda við skólann.
  • Að skiptinemum sem koma í nám hjá Bifröst á Íslandi bjóðist námskeið um íslenskt tungumál og menningu.

Kennsla

Stefna Háskólans á Bifröst er:

  • Að nemenda- og starfsmannaskipti séu fastur liður í starfi skólans.
  • Að allir kennarar og starfsmenn eigi þess kost að taka þátt í kennara- og starfsmannaskiptum sem gefur tækifæri til að stækka tengslanet, styrkja samstarf milli stofnana og efla akademíska umræðu.
  • Að auka samstarf við erlenda háskóla með þátttöku í sameiginlegu námskeiðahaldi og námslínum.
  • Að hvetja til samræðu um menningarnæmi og fjölmenningarlega kennsluhætti með opnum samtalsfundi í upphafi skólaárs.
  • Að gera samninga við aðra fjarnámsháskóla. 

Rannsóknir og þróunarverkefni 

Stefna Háskólans á Bifröst er:

  • Háskólinn á Bifröst er hluti af alþjóðlegu vísindasamfélagi og leggur áherslu á að efla rannsóknastarf.
  • Samstarf á vettvangi EADTU (The European Association of Distance Teaching Universities)verður hluti af stefnumiðuðu alþjóðlegu starfi Háskólans á Bifröst.
  • Alþjóðaskrifstofa skal markvisst vinna að því að koma á samstarfi við fyrirtæki og þeirra alþjóðasókn, t.d. gegnum Uppbyggingarsjóð EES (www.eeagrants.org) og Europe Enterprise Network (www.een.is).
  • Háskólinn á Bifröst hefur skuldbundið sig til að vinna að sex markmiðum um ábyrga stjórnendamenntun, undir merkjum PRME sem stutt er af Sameinuðu þjóðunum.
  • Á vettvangi PRME er Háskólinn á Bifröst aðili að samstarfsvettvangi viðskiptadeilda háskóla Norðurlandanna, PRME Nordic Chapter.

Sérhver námslína við Háskólann á Bifröst er endurskoðuð með reglulegu millibili. Alþjóðastefna, og ofangreind atriði alþjóðastefnu um nám og kennslu, skulu höfð til hliðsjónar við þá endurskoðun.

Alþjóðasvið setur fram mælanleg markmið um virkni og þátttöku nemenda, kennara og annars starfsfólks í starfi með alþjóðlega tengingu, t.d. skiptinámi og skiptikennslu.

Alþjóðasvið kannar árlega hve mörg námskeið voru kennd á ensku á undanliðnu ári, og gerir grein fyrir fjölda nemenda sem lauk þeim námskeiðum.

Samhliða vinnu við ársskýrslu Háskólans á Bifröst, tekur Alþjóðasvið ásamt Rannsóknamiðstöð saman yfirlit um virkni og þátttöku í starfi með alþjóðlega tengingu, og skal á fundi á vormisseri fjalla um gögn um síðastliðið ár, og uppfæra markmið til næstu tveggja ára.

Prentvæn útgáfa

 

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 28.04.2022

Gildir frá 01.08.2022

Staðfest af rektor 28.04.2022