Rektorar háskólanna tíu sem standa að háskólaneti OpenEU
15. janúar 2025Háskólanetið OpenEU leggur grunninn að al-evrópskum fjarnámsháskóla
Stofnfundur OpenEU háskólanetsins verður haldinn dagana 16. – 17. janúar í Barcelona þar sem rektorar þeirra 10 háskóla sem hafa beina aðild að samstarfinu hittast. Að samstarfinu standa átta af leiðandi opnum háskólum og fjarnámsháskólum Evrópu og er Háskólinn á Bifröst þar á meðal. Einnig eru þar tveir hefðbundnir háskólar í Austur Evrópu og fjöldi annarra stofnana og samtaka sem standa að samstarfinu. Með stuðningi Evrópusambandsins hefur OpenEU það að markmiði að stuðla að þróun háskólamenntunar í Evrópu, með því að leggja áherslu á þátttöku, jöfnuð, fjarnám og símenntun.
Með stofnun OpenEU háskólanetsins hefur verið lagður grunnur að fyrsta alevrópska opna háskólanum. Háskólanetið spannar 368 þúsund nemendur, 24 þúsund kennara, fræðafólk og annað starfsfólk við helstu opnu háskóla og fjarnáms háskóla í Evrópu. Allir munu njóta góðs af samstarfi sem leggur höfuðáherslu á símenntun, sveigjanleika, jafnræði og atvinnuhæfni.
"Á tímum þar sem einkareknir, hagnaðardrifnir fjarnámsháskólar spretta upp alls staðar, býður OpenEU upp á tækifæri til að tala fyrir stafrænni gæðamenntun sem hornsteini evrópska háskólasvæðisins," sagði Àngels Fitó, rektor Universitat Oberta de Catalunya og forseti samstarfsins. "Sem opnir háskólar og fjarnáms háskólar í Evrópu berum við ábyrgð á að halda áfram að bjóða upp á námsmöguleika fyrir einstaklinga sem, af einhverjum ástæðum hafa ekki möguleika á að stunda staðarnám."
„Einstök áhrif OpenEU háskólanetsins felast í því að leiða saman helstu fjarnámsháskóla í Evrópu sem vinna í nánu samstarfi við staðbundna og alþjóðlega hagsmunaaðila,“ sagði Kasper Kristensen, skrifstofustjóri rektors Háskólans á Bifröst. „Þátttaka Háskólans á Bifröst í OpenEU felur í sér algjörlega nýtt stig alþjóðavæðingar varðandi fjarnámsframboð okkar hér á Íslandi og mun Ísland njóta góðs af öllum helstu nýjungum í þróun fjarkennslu.
Markmið og helstu áskoranir
Samstarfið mun bjóða nemendum alþjóðlega reynslu í gegnum stafrænt, blandað og staðbundið skiptinám við aðildarháskóla. Nemendur, kennarar, fræðimenn og stjórnendur innan OpenEU fá aukin tækifæri til starfa innan samstarfsháskóla, sem mun styrkja samvinnu, skólar deila bestu starfsvenjum og takast á við sameiginlegar áskoranir.
Einblínt verður á þrjú lykilsvið sem taka á helstu áskorunum, ekki aðeins í Evrópu heldur á heimsvísu. Þetta eru loftslagsmál, stafrænar umbreytingar og lýðræði. Áhersla verður lögð á að námsbrautir sem þróaðar verð innan OpenEU snúi að einhverju þessara sviða.
Eitt markmiða samstarfsins er að bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir. Alþjóðlegt BS-nám í hugbúnaðarþróun, opið meistaranám í loftslagsbreytingum og safn örnámsleiða á fyrrnefndum lykilsviðum, eru meðal námsleiða sem verða í boði og miða að því veita sveigjanlegri námsleiðir og aukin tækifæri til alþjóðlegs skiptináms og samstarfs.
Doktorsnám verður einn lykilþátta verkefnisins og mun stuðla að samstarfi rannsóknafræðiteyma frá háskólum háskólanetsins. Unnt verður að koma á fót sameiginlegum doktorsnámsleiðum milli háskóla, með það að markmiði að skapa virkt og samstarfsmiðað samfélag fyrir doktorsnema.
Sameiginlegt átak til að bæta atvinnumöguleika
OpenEU leggur sérstaka áherslu á að bæta starfshæfni nemenda með sameiginlegu starfsnáms- og atvinnuneti og stafrænum verkfærum byggðum á gögnum frá vinnumarkaði. Unnið verður náið með samtökum eins og Eurocities og Stifterverband til að bjóða upp á starfsþjálfun sem sniðin er að þörfum evrópska vinnumarkaðarins.
Stuðningur við stafræna þróun háskólastofnana
Eitt af lykilmarkmiðum OpenEU er að nýta þekkingu og reynslu sem er innan samstarfsins í stafrænni menntun til að bæta evrópskt háskólakerfi. Til að ná þessu mun samstarfið vinna með öðrum háskólum við að þróa eigin stafrænar lausnir. Auk þessa verður stuðlað að sameiginlegum rannsóknum á stafrænum kennsluaðferðum með stofnun evrópsks rannsóknarklasa um menntun með stafrænni tækni.
Jafnræði til háskólanáms
OpenEU hefur að markmiði að bæta aðgengi að háskólanámi fyrir minnihlutahópa eins og fatlaða, konur í STEAM greinum og íbúa í dreifbýli. Einnig verður lögð áhersla á bætt aðgengi innflytjenda og flóttafólks að háskólamenntun, í samstarfi við Miðjarðarhafs háskólasambandið (UNIMED).
OpenEU, í samstarfi við Evrópusamtök LEADER fyrir þróun landsbyggðar (ELARD) mun þróa sameiginlega dreifbýlisáætlun sem miðar að því að bæta aðgengi að háskólanámi óháð búsetu.
OpenEU mun einnig hefja leiðsagnarverkefni (e.mentoring) í samstarfi við Mentoring Europe. Þetta verkefni er þegar í gangi hjá Universitat Oberta de Catalunya og verður útvíkkað yfir á Evrópu í gegnum OpenEU. Unnin verða sérstök rannsóknar- og nýsköpunarverkefni á sviði stafrænnar menntunar með það að markmiði að umbreyta háskólamenntun með sameiginlegri stafrænni framtíðarsýn innan samstarfsins.
Aðstandendur OpenEU
Alls eru það 14 háskólar sem standa að verkefninu, þar af eru 10 beinir aðilar að OpenEU frá níu löndum. Háskólarnir eru spænsku háskólarnir Universitat Oberta de Catalunya og Universidad Nacional de Educacion a Distancia (UNED), Open Universiteit Nederland frá Hollandi, þýski háskólinn FernUniversität in Hagen, Open University of Cyprus frá Kýpur, Hellenic Open University frá Grikklandi, Háskólinn á Bifröst frá Íslandi, St Cyril og St Methodius háskólinn í Veliko Tarnovo frá Búlgaríu, Universidade Aberta frá Portúgal og Daugavpils University frá Lettlandi. Auk þerra eru samstarfsháskólar frá Bretlandi (Open University), Albaníu (Fan S. Noli University), Norður-Makedóníu (MIT University) og Úkraínu (the Ukrainian Engineering Pedagogics Academy). Þá koma tengd félög eins og Evrópusamtök fjarnámsháskóla (EADTU) og Alþjóðasamtök háskóla (IAU) að verkefninu.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta