Tekist í hendur að undirritun lokinni, fyrr í dag, f.v. Elín Díanna, Áslaug Arna og Margrét. (Ljósm. Stefan Wendt)
3. október 2023Viljayfirlýsing um sameiningu undirrituð
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor Háskólans á Akureyri og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um sameiningu háskólanna tveggja.
Undirritunin fór fram í ráðuneytinu nú síðdegis.
Margrét segir í viðtali við RÚV að viljayfirlýsing feli sér að háskólarnir skoði með opnum hug hvort þeir geti sameinaðir myndað sterkari heild, íslensku menntakerfi til heilla. Það samtal muni svo leiða í ljós hvort sé heilladrýgra að sameina háskólana eða stefna að auknu samstarfi á milli þeirra.
„Við trúum að íslenskir háskólar séu betur settir, séu þeir færri. Þannig eru þeir öflugri í erlendu rannsóknasamstarfi og í að stunda einskonar áhættustýringu á námsgreinum,“ segir Margrét.
Í viðtali RÚV við Elínu Díönnu kemur m.a. fram að staða Háskólans á Akureyri sé góð. Stefnumótunarvinna innan háskólans sé í fullum gangi og samtalið við Bifröst sé því spennandi. Þá hafi báðir háskólar lagt áherslu á gott fjarnám um langt skeið. Mögulega sameining sé hins vegar ekki hugsuð sem hagræðing, heldur fyrst og fremst sem sóknarfæri.
„Við viljum halda áfram að byggja okkur upp og þróa námið okkar,“ segir Elín Díanna.
Vinna vegna fýsileikakönnunar á sameiningu háskólanna mun standa yfir þar til í desember.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta