Tíu ár af heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði á Bifröst
Háskólinn á Bifröst heldur um þessar mundir upp á það að tíu ár eru liðin frá því að skólinn setti á laggirnar námsbraut í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Á þessum tíma hefur námsbrautin vaxið, dafnað og þroskast og hafa yfir tvöhundruð nemendur útskrifast með BA gráðu í Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS) frá Háskólanum á Bifröst. Af þessu tilefni var efnt til afmælisveislu í Iðnó við Reykjavíkurtjörn í gærkvöldi.
Mikil gleði ríkti enda margir fyrrverandi nemendur samankomnir til þess að halda upp á afmælið. Meðal gesta sem tóku til máls voru þrír fyrrverandi nemendur; þær Sigrún Ósk Kristjánsdóttir sjónvarpskona, Hlédís Sveinsdóttir frumkvöðull, Brynhildur Björnsdóttir varaþingmaður og Bjarni Bragi Kjartansson alþjóðastjórnmálafræðingur. Einnig flutti erindi Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, ráðherra og rektor Háskólans á Bifröst, sem var sérstakur heiðursgestur. Magnús Árni Magnússon kennari í HHS náminu og fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst fjallaði svo um tilurð námsins og hvernig það kom til að það yrði sett á fót. Þá hélt hljómsveitin 1860 uppi ljúfri stemningu fram á nótt.
Námsbraut í Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði var sett á laggirnar árið 2005, að breskri fyrirmynd. Hugmyndin kviknaði fyrst við Oxford háskóla á fyrri hluta 20. aldar og var námið hugsað til þess að búa framúrskarandi nemendur undir störf í stjórnmálum og stjórnsýslu. Háskólinn á Bifröst er stoltur af því að viðhalda mikilvægri hefð sem hefur það að markmiði að mennta víðsýna frumkvöðla sem bera gagnrýna virðingu fyrir grunngildum samfélagsins.
BA nám í Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði er þverfaglegt nám sem fléttar saman efnistök og aðferðir þriggja grunngreina hug- og félagsvísinda til að skapa einstaklega víða sýn og óvenju ríkan skilning á álitaefnum upp koma í sérhverju samfélagi og þarnast málefnalegrar úrlausnar. Sjá nánar hér.
Fleiri myndir má nálgast á Facebook síðu skólans.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta