Tilnefning til lúðursins
27. febrúar 2024

Tilnefning til lúðursins

Risafartölva Háskólans á Bifröst hefur fengið tilnefningu til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna, í flokki umhverfisauglýsinga.

Tölvan, sem staðsett var við anddyri efri hæðar Smáralindar, var hluti af auglýsingaherferðinni Lærðu heima sem markaðs- og samskiptasvið HB vann með auglýsingastofunni Cirkus.

Herferðinni var hrundið af stað um þetta leyti árs í fyrra vegna markaðsherferðar haustannar 2023 og vakti ekki aðeins glæsileg risafartölvan verðskuldaða athygli, heldur einnig tilkynningar þess efnis að verið væri að reisa nýjan háskóla á fjölda staða um land allt.

Þegar betur var að gáð voru þar á ferð stór auglýsingaskilti frá Háskólanum á Bifröst sem mörkuðu með þessum skemmtilega hætti upphaf Lærðu heima herferðarinnar.

Þau sem komu að markaðsherferðinni eru dómnefndinni þakklát fyrir tilnefninguna og bíða spennt eftir úrslitum, en þau verða tilkynnt á Ímark-deginum næsta föstudag, þann 1. mars.