Skuggavaldið 4. september 2024

Skuggavaldið

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst og Hulda Þórisdóttir, prófessor í stjórnmálasálfræði við Háskóla Íslands, ræða vítt og breitt um samsæriskenningar í Skuggavaldinu, nýrri hlaðvarpsröð, sem hóf göngu sína nýlega.

Eiríkur og Hulda hafa á undanförnum áratug rannsakað samsæriskenningar, bæði saman og sitt í hvoru lagi, en leiðir þeirra í þessum efnum hafa m.a. legið saman á samstarfsvettvangi norrænna fræðimanna.

Auk þess að innihalda áhugaverðar og oft og tíðum skemmtilegar sögur, þá ganga samsæriskenningar gegn viðteknum skýringum á markverðum fréttum eða viðburðum sem taldir eru voveiflegir og skilja eftir sig sem slíkir djúp spor í hugum fólks.

Í kynningu á þáttröðinni segir jafnframt, að í sumum tilvikum risti samsæriskenningar jafnvel svo djúpt að þær dragi úr trausti til stjórnvalda og veitist með því móti að undirstöðum lýðræðisins. Eitt frægasta dæmi þess er vantrú sem komið hefur fram á bólusetningum og orðið til þess að foreldrar hafa í afmörkuðum tilvikum veigrað börnum sínum við þeim.

Fyrsti þáttur Eiríks og Huldu er helgaður norrænum samræmiskenningum, en á meðal þess sem þau ræða er hvort aðskilnaðarstjórnin í Suður-Afríku hafi staðið að baki morðinu á Olof Palme, hvort farþegaferjunni MS Estoina hafi verið grandað vegna vopnaflutninga frá Rússlandi og hvort Satanistar fórnuðu fyrr á öldum norrænum börnum til þess að greiða eldgamla skuld við Hund-Tyrki Ottomannveldisins?

Á meðal viðfangsefna Eíríks og Huldu í næstu þáttum má svo nefna kenningar í kringum andlát Díönu prinsessu, ótta við að illvirkjar ætli sér að koma á nýrri heimskipan, Qanon samsæriskenninguna og dauða Kurt Cobain. 

Nálgast má hlaðvarpið á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta