Lilja D. Alfreðsdóttir, Stuart Cunningham og Trine Bille ræða málin á málstofunni í dag.
26. október 2022Skapandi greinar á tímamótum
Fremstu vísinda- og fræðimenn í skapandi greinum voru aðalfyrirlesarar á málstofu sem haldin var í dag í tengslum við stofnun Rannsóknamiðstöðvar skapandi greina.
Málstofan fór fram undir yfirskriftinni Skapandi greinar á tímamótum - Mikilvægi rannsókna við uppbyggingu innviða vaxandi atvinnuvegar.
Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra viðskipta, menningar og ferðaþjónustu, ávarpaði málstofugesti. Í máli hennar kom m.a. fram að þingsályktunartillaga væri í undirbúningi um aðgerðir af hálfu stjórnvalda til stuðnings framsóknar skapandi greina.
Þá kom jafnframt sú skemmtilega ábending fram hjá ráðherra, að íslenskt efnahagslíf eigi rætur í skapandi greinum sem megi rekja allt aftur á söguöld, þar sem bókmenntir voru á meðal fyrstu útflutningsgreina landsmanna. Skapandi greinar séu því í erfðaefni Íslendinga, ef svo mætti segja og náttúrulegur hluti af íslensku efnaghags- og atvinnulífi.
Stuart Cunningham, prófessor emeritus við Queensland University of Technology og Trine Bille, prófessor við Copenhagen Business School, voru aðalfyrirlesarar málstofunnar, sem helguð var því mikilvæga hlutverki sem rannsóknir gegna við uppbyggingu innviða fyrir skapandi greinar sem atvinnuvegar. Báðir fyrirlesarar hafa getið sér góðs orðs fyrir rannsóknir og leiðandi fræðistörf innan skapandi greina. Þá vann Stuart fyrir undirbúningsnefndina athyglisverða úttekt vegna nýju rannsóknamiðstöðvarinnar.
Á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum úttektarinnar er að skapandi störfum fjölgaði á íslenskum vinnumarkaði um helming á árunum 2003-2021, eða úr 11,2% í 14,8% af heildarfjölda starfa. Þá er einnig vikið að mögulegum rannsóknaráherslum í niðurstöðunum, en nýlegar ástralskar rannsóknir sýna m.a. fram á mikilvægi skapandi greina fyrir jákvæða landsbyggðaþróun.
Að málstofunni stóð undirbúningsnefnd vegna stofnunar Rannsóknamiðstöðvar skapandi greina.
Áhugasamir geta nálgast gögn af málstofunni hér: www.bifrost.is/skyrslur
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta