
Samvinnugeta, aðlögunarhæfni og ábyrgð aðalsmerki Bifrestinga - útskrift frá Háskólanum á Bifröst í dag
Vilhjálmur Egilsson rektor útskrifaði rúmlega 120 nemendur úr öllum deildum skólans í dag, laugardaginn 11. júní, við hátíðlega athöfn. Í útskriftarræðu sinni til útskriftarnemenda vék Vilhjálmur að því að skilningur á lífinu og umhverfinu, aðlögunarhæfni, samvinnugeta, kjarkur til að taka ákvarðanir og ábyrgð væru aðalsmerki Bifrestinga. Þannig hefðu þeir byggt upp með sér hið innra hugrekki sem þurfi til að glíma við hvert það viðfangsefni sem á vegi þeirrra verður.
„Háskólinn á Bifröst er skóli með sál. Okkur, nemendum og starfsfólki, er ekki sama um okkur sjálf, fjölskyldur okkar, vini okkar og samfélagið. Þess vegna tölum við um ábyrgð sem gildi okkar. Við erum óhrædd við að taka ábyrgð og hræðumst ekki brekkurnar í lífinu. Við vöxum af því að leysa vandasöm viðfangsefni,“ sagði Vilhjálmur.
Sérstök afmælisnefnd skipuð
Í ræðu rektors kom fram að ýmislegt hefur gengið háskólanum í hag upp á síðkastið. T.a.m. er fjárhagsleg staða skólans betri en hún hefur verið undanfarin ár og gæði skólans voru staðfest af Gæðaráði íslenskra háskóla fyrr á árinu. Þá voru nemendur skólans heldur fleiri þetta skólaár en árið áður og ekki þarf nemendum að fjölga mikið til að markmiði um fjölda nemenda verði náð.
Þá kom rektor einnig að því í ræðu sinni að skólinn yrði 100 ára stofnun árið 2018 og hefur þegar verið skipuð sérstök afmælisnefnd undir forystu Leifs Runólfssonar, formanns stjórnar skólans, sem mun undirbúa viðeigandi viðburði á afmælisárinu.
„Ég óska ykkur gæfu og gengis í lífi og starfi. Framtíðin er ykkar. Og hún er björt,“ sagði Vilhjálmur í lok ræðu sinnar til útskriftarnema.
Verðlaun og útskriftarræður
Útskriftarverðlaun hlutu Óskar Jensson, á viðskiptasviði, Guðmunda Katrín Karlsdóttir á lögfræðisviði og Ingvar Leví Gunnarsson á félagsvísindasviði. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir á viðskiptasviði, Böðvar Sigurbjörnsson á lögfræðisviði og Hugrún Ósk Guðjónsdóttir á félagsvísindasviði.
Að auki fengu eftirfarandi þrír nemendur felld niður skólagjöld á haustönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri, Svanberg Halldórsson á viðskiptasviði, Hallgrímur Tómasson á lögfræðisviði og Ásta Sóllilja Karlsdóttir á félagsvísindasviði. Berglind Sunna Bragadóttir var með hæstu meðaleinkunn í háskólagátt og fær hún skólagjöld fyrstu annar í grunnnámi við Háskólann á Bifröst felld niður.
Nemendur sem héldu útskriftarræðu voru, Óskar Jensson fyrir hönd viðskiptasviðs, Kristjana Kjartansdóttir fyrir hönd lögfræðisviðs, Gauti Skúlason fyrir hönd félagsvísindasviðs, Hjörtur Ingi Hjartarson fyrir hönd meistaranema og Stefán Freyr Benonýsson fyrir hönd háskólagáttar.
Í ávörpum fulltrúa allra útskriftarhópa kom fram mikil ánægja með að hafa valið Háskólann á Bifröst og þakklæti bæði í garð starfsmanna og samnemenda. Þá væri Háskólinn á Bifröst í alla staði góður skóli til að öðlast framúrskarandi menntun sem skilaði nemendum vel undirbúnum út í atvinnulífið.
Karlakórinn Söngbræður sá um söngatriði við útskriftina við undirleik Heimis Klemenzssonar.
Útskrift júní 2016, öll athöfnin
Ávarp rektors Vilhjálms Egilssonar
Ræður útskrifaðra nemenda
Stefán Freyr Benónýsson fyrir hönd útskriftarnema Háskólagáttar
Óskar Jensson fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms Viðskiptasviðs
Kristjana Kristjánsdóttir fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms Lagasviðs
Gauti Skúlason fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms Félagsvísindasviðs
Hjörtur Ingi Hjartarson fyrir hönd meistaranema við Háskólann á Bifröst
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta