Staða Háskólagáttarnema vegna inntöku í nám í HÍ skýrð
19. október 2015

Staða Háskólagáttarnema vegna inntöku í nám í HÍ skýrð

Háskóli Íslands hefur með formlegum hætti skýrt stöðu Háskólagáttar Háskólans á Bifröst gagnvart inntöku nemenda í nám í HÍ.  Afstaða HÍ til Háskólagáttar sem er aðfararnám að háskólanámi kemur fram í bréfi rektors HÍ, Jóns Atla Benediktssonar, til Háskólans á Bifröst.  Bréfið er niðurstaða af samstarfi milli skólanna um að eyða óvissu um stöðu náms í Háskólagáttinni gagnvart inntöku Háskólagáttarnema í HÍ. Nú hefur þeirri óvissu verið eytt og staða Háskólagáttarnema varðandi aðgang að Háskóla Íslands liggur fyrir.

Almennt gildir að hver deild innan Háskóla Íslands hefur ákveðin viðmið um mat á námi umsækjanda án stúdentsprófs sem eru teknir inn á undanþágum og hvert tilvik er metið sérstaklega þar sem til álita kemur m.a. hversu mörgum framhaldsskólaeiningum (FEIN) umsækjandi hefur lokið áður en nám í Háskólagátt hófst, hvort sama námskeið er tvítalið og hvort grunnnámskeiðum í framhaldsskóla hafi verið lokið.  Ennfremur er litið til þess hvort umsækjandi ljúki valáföngum á sumarönn í Háskólagáttinni og hafi viðbótareiningar í tungumálum eða samfélagsfræðum ef við á.

Opnasta leiðin fyrir Háskólagáttarnema til að fá undanþágu frá formlegum inntökuskilyrðum er inn í Félagsráðgjafadeild, Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, Kennaradeild og Uppeldis- og menntunarfræðadeild.  Með því að taka valáfanga á sumarönn í Háskólagátt opnast leiðir inn í Félags- og mannvísindadeild, Stjórnmálafræðideild og Sálfræðideild.  Sé bakgrunnur með tilteknum einingum í tungumálum og samfélagsgreinum opnast væntanlega leiðir í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, Íslensku- og menningardeild að hluta og Sagnfræði- og heimspekideild (að undanskilinni sagnfræði).  Deildir Háskóla Íslands geta breytt undanþáguskilyrðum frá ári til árs og kemur þá slíkt fram á heimasíðum þeirra.  Margar deildir Háskóla Íslands veita engar undanþágur frá stúdentsprófi.

Háskólinn á Bifröst fagnar þessum áfanga í samskiptum skólans og Háskóla Íslands.  Nemendur Háskólagáttar Háskólans á Bifröst hafa flestir hug á háskólanámi.  Rúmlega Helmingur þeirra hefur komið í beinu framhaldi í Háskólann á Bifröst en aðrir leitað annað.  Hingað til hefur ekki verið nægilega ljóst fyrirfram um aðgang þessara nemenda að Háskóla Íslands. Nú hafa málin verið skýrð og er það fagnaðarefni.