Nýtt meistarnám í Samskiptastjórnun
13. febrúar 2025

Nýtt meistarnám í Samskiptastjórnun

Nýtt nám í Samskiptastjórnun hefst við Háskólann á Bifröst haustið 2025. Námið veitir einstakt tækifæri til að hasla sér völl á einu áhugaverðasta sviði samtímans – stjórnun samskipta fyrirtækja, stofnana og annarra skipulagsheilda. Námið býður upp á dýpri innsýn í þetta sívaxandi fag og þjálfar nemendur í að verða leiðandi á sviði samskiptastjórnunar.

Í þessu framsækna og þverfaglega námi er lögð áhersla á að skilja flókið samband fjölmiðlunar, viðskipta, stjórnunar og almannatengsla. Kjarni námsins felst í því að byggja upp traust samskipti, hlúa að samböndum við hagaðila og mæta væntingum þeirra í síbreytilegu upplýsingaumhverfi. Nemendur öðlast hæfileikann til að greina upplýsingar, útfæra áhrifaríkar samskiptaaðferðir og stjórna samskiptum í krefjandi rekstrarumhverfi.

Fyrir hverja er námið?

Námið hentar þeim sem vilja styrkja sig í hlutverki leiðtoga í samskiptum og búa sig undir störf í einkageiranum eða opinberum rekstri. Það er kjörið fyrir fólk sem sækist eftir því að takast á við krefjandi verkefni í flóknu upplýsingaumhverfi og leggja sitt af mörkum í framtíðarsýn skipulagsheilda.

Fagstjóri námslínunnar er dr. Eiríkur Bergmann, en hann og fjöldi reyndra sérfræðinga á þessu sviði munu koma til með að miðla þekkingu sinni og reynslu til nemenda í gegnum fjölbreytt námskeið. Lokaverkefnið er með nýstárlegu sniði, en það er hagnýtt ráðgjafaverkefni sem byggir á raunverulegum áskorunum úr atvinnulífinu. Þannig fá nemendur einstakt tækifæri til að tengja saman fræðilega þekkingu og raunverulegar aðstæður í starfsemi samskiptastjóra. 

Hér má nálgast frekari upplýsingar um námið

Umsóknafrestur er frá 1. mars til og með 5. júní.