Nýtt fagráð Háskólans á Bifröst
Nýtt fagráð Háskólans á Bifröst.
Í haust skipaði Háskólinn á Bifröst nýtt fagráð um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi. Fagráð er sáttanefnd.
Brot sem varðar kynferðislega áreitni eða ofbeldi og/eða kynbundna áreitni eða ofbeldi er hægt að tilkynna skv. 4. gr. verklagsreglna Háskólans á Bifröst til fagráðs háskólans um viðbrögð við kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Brotin er einnig hægt að tilkynna til næsta yfirmanns eða deildarforseta. Einnig getur sá/sú/það sem brotið hefur verið á snúið sér til hvers þess innan skólans sem viðkomandi ber traust til. Háskólaráð skipar fagráðið til þriggja skólaára í senn.
Fagráðið er skipað tveimur einstaklingum sem starfa utan skólans og hafa faglega þekkingu á kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Þriðji aðilinn í ráðinu er kosinn af starfsfólki skólans og skal hafa þekkingu til að sinna málefnum þess. Formaður ráðsins skal jafnframt vera annar af utanaðkomandi fagaðilunum. Elín Blöndal er formaður ráðsins og Rakel Heiðmarsdóttir er kosin af starfsfólki háskólans.
Fagráð er sáttanefnd og vinnur úr málum með þolendum á grundvelli sátta. Sé brot talið varða við almenn hegningarlög er málinu vísað til lögregluyfirvalda, óski þolandi þess og telst aðkomu fagráðs þá lokið.
Elín Blöndal er lögfræðingur (cand jur) og MS í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og LL.M í þjóðarrétti frá Háskólanum í Leiden. Hún er skrifstofustjóri á mannauðs- og starfsumhverfissviði Reykjavíkurborgar auk stundakennslu við Háskólann á Bifröst (HB). Hún hefur áður starfað m.a. sem aðallögfræðingur Háskóla Íslands, prófessor við lagadeild HB, skrifstofustjóri hjá umboðsmanni Alþingis, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu og dómari í Félagsdómi. Sérsvið Elínar eru m.a. vinnuréttur og vinnuvernd, opinber starfsmannaréttur og stjórnsýsluréttur. Hún stýrir nú m.a. jafnlaunanefnd og vinnuréttarteymi Reykjavíkurborgar og veitir stjórnendum borgarinnar ráðgjöf í starfsmannamálum.
Jóhanna Dagbjartsdóttir lauk B.S. prófi í sálfræði árið 2009 og Cand.psych. prófi árið 2012 bæði frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem klínískur sálfræðingur á Sálfræðistofunni Höfðabakka og er einn af eigendum hennar. Þá er hún ein af stofnendum Taktu skrefsins sem er úrræði fyrir fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun og/eða hugsunum . Jafnframt er hún ein af sálfræðingum Heimilisfriðar sem er úrræði fyrir fólk sem beitir ofbeldi í nánum samböndum.
Rakel lauk BA gráðu í sálfræði frá HÍ árið 1994 og doktorsprófi í ráðgjafarsálfræði frá University of Texas at Austin 2002. Hún stýrði verkefnahópi hjá Reykjavíkurborg árið 2004, sem mótaði stefnu, verklag og fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð við einelti og áreitni fyrir starfsmenn borgarinnar. Rakel hefur sem mannauðsstjóri til fjölda ára stýrt mótun stefnu og viðbragðsáætlana vegna eineltis og áreitni í nokkrum fyrirtækjum og fylgt þeim eftir. Hún hefur jafnframt brugðist við og tekið á slíkum málum þegar þörf var á. Að lokum má nefna að Rakel tók þátt í að móta fyrstu siðareglur íþróttafélagsins Aftureldingar og var formaður Siðanefndar Aftureldingar um árabil.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta