Nýr alþjóðafulltrúi á Bifröst
1. október 2020

Nýr alþjóðafulltrúi á Bifröst

Þorbjörg Valdís Kristjánsdóttir hefur verið ráðin sem alþjóðafulltrúi skólans. Hún útskrifaðist með B.Sc. í líffræði árið 2006 frá Háskóla Íslands og hefur síðan þá unnið fjölbreytt störf sem tengjast alþjóðamálum á einn eða annan hátt. Hún hefur m.a. stýrt fræðsludeild Fjölskyldu-og húsdýragarðins í Reykjavík, starfað með Free Willy/Keiko samtökunum á Íslandi og í Noregi við umönnun háhyrningsins Keikó, starfað sem verkefnastjóri á alþjóðasviði  Rannís og svo síðar alþjóðafulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hún tók þátt í fjölda alþjóðlegra verkefna. Síðustu misseri starfaði hún sem leiðbeinandi og umsjónarkennari við Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi  og stundaði samhliða meistaranám við Háskólann á Akureyri, í kennsluréttindum meðfram vinnu. Þorbjörg Valdís er borin og barnfædd í Borgarfirðinum, nánar tiltekið í Laxholti í Borgarbyggð og er nú búsett í Litla-Laxholti. 

Hlutverk alþjóðafulltrúa er meðal annars að veita nemendum upplýsingar um skiptinám og starfsþjálfun erlendis og umsjón með erlendum skiptinemum við skólann. Auk þess veitir Þorbjörg starfsfólki ráðgjöf vegna endurmenntunar erlendis.