
Ný fræðibók Eiríks Bergmanns hjá Palgrave Macmillan dreift á heimsvísu
Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, hefur sent frá sér bókina Conspiracy & Populism – The Politics of Misinformation. Hið virta forlag Palgrave Macmillan gefur bókina út á heimsvísu og er hún nú í dreifingu beggja vegna Atlantsála. Conspiracy & Populism er áttunda fræðibók Eiríks en hann hefur einnig sent frá sér þrjár skáldsögur.
Í bókinni greinir Eiríkur hvernig ört vaxandi fylgi þjóðernispopúlískra stjórnmálaflokka í Evórpu og í Ameríku hafi farið hönd í hönd við aukna dreifingu samsæriskenninga. Megin framlag bókarinnar er að rannsaka hvernig popúlistar nýta sér samsæriskenningar til að ala á ótta og draga fólk þannig til fylgislags við sig – meðal annars með dreifingu falsfrétta.
Á meðal þeirra samsæriskenninga sem fjallað er um í bókinni eru til að mynda djúpríkiskenning Dónalds Trumps og Evrarabíukenningin, sú að Íslamistar með aðstoð menningarmarxista á Vesturlöndum ætli sér að yfirtaka Evrópu og afgera hina kristnu arfleifð álfunnar. Þá er farið ofan í sögur um að Angela Merkel sé laundóttir Adolfs Hitlers, að Barack Obama haf verið ólögmætur forseti og að George W. Bush hafi staðið á bak við hryðjuverkaársárnir 11. Septemer. Einnig er rætt um kenningar á borð við þá að helförin sé uppspuni, að meðlimir Pussy Riot séu handbendi Vestursins og að Evrópusambandið sé í raun endureist Rómarveldi, nú á kommúnískum grunni. Þessar sögur og fjöldmargar fleiri sem ræddar eru í bókinni eru á meðal þeirra sem popúlistar hafa haldið að fólki í Evrópu og hafa fengið byr undir báða vængi, til að mynda í Brexit umræðunni í Bretlandi og af forsetum bæði Bandaríkjanna og Rússlands.
„Í bókinni reyni ég að greina í sundur þessa þrjá þræði sem svo mjög hafa einkennt pólitík okkar daga á Vesturlöndum, semsé samsæriskenningar, popúlisma og falsfréttir,“ segir Eiríkur Bergmann, „efni hennar á því erindi til okkar allra.“
Í tilefni af útgáfu bókarinnar efnir Háskólinn á Bifröst til útgáfufagnaðar þann 4.október næstkomandi í Þjóðminjasafni Íslands. Hófið hefst með fyrirlestri höfundar klukkan 16:00 og að því loknu verða léttar veitingar í boði. Fyrirlesturinn og útgáfuhófið er öllum opið á meðan húsrými leyfir.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta