
Metaðsókn í meistaranám við Háskólann á Bifröst
Metaðsókn er í meistaranám í Háskólann á Bifröst fyrir næsta haust. En umsóknir í meistaranámið voru um 75% fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Formlegum umsóknafresti lauk 15. maí en umsóknir eru áfram að berast skólanum og farið verður yfir þær allar.
„Nýjungar í meistaranáminu hafa fengið mjög góðar viðtökur en markaðsfræði og forysta og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun eru nú í boði í fyrsta sinn í viðskiptadeild og viðskiptalögfræði á meistarastigi er ennfremur á sínu fyrsta ári. Ágæt aðsókn er einnig að öðru námi á meistarastigi, meistaranámi í alþjóðaviðskiptum, forystu og stjórnun og í menningarstjórnun,“ segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst.
Gera má ráð fyrir því að vel á annað hundrað meistaranema hefji nám við Háskólann á Bifröst í haust og verði langstærsti hópurinn sem hafið hefur meistaranám á Bifröst. Háskólinn á Bifröst hefur verið í góðri sókn síðustu árin og voru tæplega 600 nemendur skráðir til náms við háskólann á síðustu haustönn. Nemendafjöldinn hefur farið vaxandi við Háskólann á Bifröst og á það við á öllum skólastigum, símenntun, Háskólagátt, grunn- og meistaranámi.
Allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Háskólans á Bifröst hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta