Líkt og kynlíf og súkkulaði?
Steven Hadley fjallar um menningu og lýðræði í Norræna húsinu fimmtudaginn þann 30. maí nk. kl. 16:00 til 18:00. Erindi sitt nefnir hann Líkt og kynlíf og súkkulaði? Menning, lýðræði og endalok listanna. Steven Hadley er alþjóðlega þekktur fræðimaður á sviði menningarstefnu og áheyrendaþróunar, en rannsóknir hans hafa fyrst og fremst beinst að hugmyndum um aðgengi almennings að menningu og listum.
Framlög til menningarmála og stefnumótun ríkis og sveitarfélaga í listum eru réttlætt með vísan til aðgengis og almennrar þátttöku. Lýðræði er lykilorðið og hugsjónin um að allir hafi jafnan rétt og aðgang að listum og menningu er almennt viðtekin skoðun. En hefur þetta verkefni gengið eftir?
Í könnunum á menningarþátttöku kemur í ljós mikill munur á milli aðstöðu fólks eftir efnahag, aldri, búsetu og menntun. Munur sem hinum innmúruðu finnst vandræðalegt að ræða. Sérstaklega í ljósi þess að megin þorri opinberra styrkja til menningarmála rennur til vel fjármagnaðra stofnanna sem standa vörð um hefðbundin listform og menningarafurðir sem í grunninn eiga að „gera fólki gott“ og „bæta“ það í einhverjum skilningi.
Til þess að breyta þessu þarf róttæka endurskoðun á hugmyndum og kerfum. Það þarf endurheimta hugsjónir um virði lista og menningar í samtímanum og viðmið um árangur sem ekki eru eins upptekin af hagrænum mælikvörðum. Þá þarf virkilega að endurhugsa hvernig við orðum og skiljum hlutverk „skapandi hugsunar“ í opinberu lífi og samfélaginu.
Eftir erindi Stevens Hadley taka þátt í hringborðsumræðum Arna Kristín Einarsdóttir skrifstofustjóri menningar og fjölmiðla í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Gitte Grønfeld Wille, framkvæmdastjóri Norrænu menningargáttarinnar (Nordisk kulturkontakt), Sabina Westerholm forstjóri Norræna hússins í Reykjavík og Njörður Sigurjónsson prófessor við Háskólann á Bifröst. Þá verður opnað á almennar umræður og gestum boðin þátttaka í samtalinu.
Nánari upplýsingar um viðburðinn ásamt fyrirlesara og hringborðsþátttakendum
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta