25. júní 2024

Jákvæðar niðurstöður gæðakannana

Ánægja nemenda við Háskólann á Bifröst hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, samkvæmt niðurstöðum árlegra gæðakannana.

Hlutfall þeirra nemenda sem segjast hafa jákvæða heildarsýn á Háskólann á Bifröst fór þannig  úr 82% árið 2020 í 93% nú í síðustu gæðakönnun, sem fór fram fyrr á þessu ári. Nemur breytingin á fjögurra ára tímabili því 11 prósentustigum.

Þá hefur á þessu sama tímabili hlutfall þeirra nemenda sem sögðust mæla með náminu við HB hækkað úr 82% í 94%. Hlutfall þeirra sem telja háskólann standa framarlega í upplýsingatækni mældist einnig 94% og hafði þá hækkað um 9% prósentustig eða  úr 85% árið 2020.

Síðast en ekki síst má svo nefna að ánægja með gæði náms hefur einnig aukist og mælist nú 88%, en í síðustu mælingum vegna áranna 2023 og 2022 nam þetta hlutfall 81% og 77%. Heildaraukning á þessum þremur árum nemur þannig 11 prósentustigum.

Að sögn Lydíu Geirsdóttur, gæðastjóra Háskólans á Bifröst, er fremur fátítt að ánægja háskólanema fari ítrekað yfir 90% múrinn í gæðakönnunum. Árangurinn þakkar hún góðu og samstilltu gæðastarfi starfsfólks og kennara við háskólann.

„Við höfum verið að vinna sem heildstætt teymi að því að efla gæðakerfi okkar og er gefandi að sjá að hvernig sú vinna hefur stuðlað að aukinni ánægju nemenda samkvæmt niðurstöðum gæðakannana. Í viðskiptadeild mælist ánægja með gæðin 92% meðal grunnnema og 94% meðal meistaranema, svo að dæmi sé tekið, en ef litið er til nemenda í heild er hlutfallið 88%.

Þá hafa breytt viðhorf til stöðu fjarnáms á háskólastigi einnig haft sitt að segja, sem mátti að mati Lydíu einkum merkja í kjölfar samkomutakmarkana í heimsfaraldrinum samhliða aukinni notkun starfrænna lausna í fjarskiptum.

„Við erum fyrst og fremst þakklát og glöð yfir því að  vinna að gæðamálum Háskólans á Bifröst skili sér með jafn áþreifanlegum hætti og raun ber vitni,“ segir Lydía. „Það er okkur starfsfólkinu frábær hvatning til frekari framgangs á sviði gæðamála háskólastarfsins.“  

Frekari upplýsingar úr niðurstöðum gæðakannana má nálgast hér

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta