Útskriftarnemendur viðskiptadeildar

Útskriftarnemendur viðskiptadeildar

15. febrúar 2025

Hátíðleg stund á útskrift Háskólans á Bifröst

Það var hátíðleg stund þegar útskriftarefni tóku við prófskírteinum sínum í Hjálmakletti í dag.

Alls voru 88 háskólanemar brautskráðir eða 49 úr grunnnámi og 39 úr meistaranámi Háskólans á Bifröst. Ef litið er til deildarskiptingar þá brautskráðust 24 úr félagsvísindadeild, 11 úr lagadeild og 53 úr viðskiptadeild. Þar af voru 60 konur og 28 karlar. Nálgast má nánari upplýsingar um brautskráninguna hér.

Að vanda voru verðlaun veitt fyrir framúrskarandi námsárangur. Hvatningarverðlaun hlutu Daniela Katarzyna Zbikowska, Samúel Óskar Juliusson Ajayi og Harpa Louise Guðjónsdóttir. Útskriftarverðlaun fengu Ásdís Inga Haraldsdóttir, Rósa Dögg Ómarsdóttir, Brynjar Örn Sigurðsson, Dagný Björt Jakobsdóttir, Viðar Helgi Guðjohnsen og Bryndís Jóna Magnúsdóttir. Nöfn þeirra hafa þar með bæst við Bifrastarlista háskólans.

Í ávarpi sínu hrósaði Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, útskriftarefnunum fyrir þann glæsilega árangur sem hvert og eitt þeirra hefðu náð. Hún hvatti þau jafnframt til frekari dáða, bað þau um að nema ekki staðar heldur halda áfram að byggja sig upp og nema nýjar lendur í lífi þeirra.

Einnig vék rektor að þeim breytingum sem væru að eiga sér stað innan Háskólans á Bifröst. Umsóknir hefðu margfaldast á milli ára, sem væri afar jákvætt fyrir stöðu fjarnáms á háskólastigi og því aukna jafnrétti til náms sem efling fjarnámsháskóla fæli í sér.   

Útskriftarhátíðin fór fram í Hjálmakletti í Borgarnesi í dag 15.febrúar 2025, og var streymt beint frá viðburðinum á vef háskólans. Þar má einnig nálgast upptöku af útskriftarhátíðinni.