Háskólinn á Bifröst áfram í góðri sókn á nýju ári
Nýtt ár fer vel af stað við Háskólann á Bifröst en nærri 40 nýir nemendur hófu þar skólagöngu nú í janúar. Flestir hófu nám í grunn- og meistaranámi eða 34 en aðrir byrjuðu annars vegar í Háskólagátt og hins vegar í opnu námi. Er þetta þriðja árið í röð sem tiltölulega stór hópur kemur inn í skólann á vorönn og hafa þeir verið stærri en áður tíðkaðist á vorönn.
Nú á vorönn hófst nýtt meistaranám í viðskiptalögfræði, MBL, og á haustönn hefst nýtt meistaranám í markaðsfræði innan viðskiptadeildar.
„Háskólinn á Bifröst hefur alltaf þurft að berjast fyrir tilveru sinni en hann verður 100 ára stofnun á næsta ári sem segir að árangur hafi náðst í þeirri baráttu og hún hefur líka mótað Bifrastarandann,“ segir Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst, m.a. í skeleggri grein sinni um stöðu Háskólans á Bifröst sem birtist á Skessuhorni. Nálgast má greinina í heild sinni hér.
Háskólinn á Bifröst hefur verið í góðri sókn síðustu árin. Alls eru um 600 nemendur skráðir til náms við Háskólann á Bifröst á vorönn 2017 sem er svipaður fjöldi og var á sama tíma í fyrra. Flestir eru nemendurnir í grunn- og meistaranámi eða tæplega 500. Undanfarin ár hefur nemendafjöldinn farið vaxandi við Háskólann á Bifröst og á það við á öllum skólastigum, símenntun, Háskólagátt, grunn- og meistaranámi.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta