Rannsóknarteymi í nýrri rannsókn um Metamorphonics og nálgun samnefnds fyrirtækis í samfélagstengdri tónlistarsköpun hittist nýlega hér á landi á fyrsta fundi sínum. Anna Hildur er hér önnur f.h.
5. júní 2024Byggjum brýr með samstarfi
Anna Hildur Hildibrandsdóttir frá Háskólanum á Bifröst er einn af rannsakendum í nýrri rannsókn um Metamorphonics og nálgun fyrirtækisins í samfélagstengdri tónlistarsköpun. Þorbjörg Daphne Hall prófessor hjá Listaháskóla Íslands leiðir rannsóknina, en í teyminu eru utan hennar Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths sem á MetamorPhonics fyrirtækið og setti m.a. á stofn Korda Samfónía samfélagshljómsveitina á Íslandi og Ásbjörg Jónsdóttir verkefnastjóri. Einnig taka þátt í rannsókninni Lee Higgins prófessor við York St. John háskólann í Bretlandi og yfirmaður The International Centre for Community Music og Dr. Jo Gibson rannsakandi við The Institute for Social Justice hjá sama háskóla og komu þau nýlega til Íslands til fyrsta fundarins hjá teyminu.
Í lýsingu á rannsókninni segir m.a. að margvísleg samfélagsmiðuð tónlistarverkefni séu til, þar sem unnið er með fjölbreyttum hópum og samfélögum, t.d. einstaklingum í haldi eða skjólstæðingum heilbrigðisstofnana, einstaklinga á ólíkum aldri, með fjölbreytta kunnáttu og bakgrunn. Þessi verkefni endurspegli þá hugmyndafræði að tónlist og tónlistariðkun geti haft jákvæð áhrif á fólk og jafnvel breytt lífi þess til hins betra.
Þar segir enn fremur að meginmarkmið verkefnisins sé að rannsaka MetamorPhonics (MP) sem er dæmi um samfélagsmiðað tónlistarverkefni. Tilgangurinn sé að skilja margvíslega þætti MP, meðal annars bakgrunn og áhugahvöt þátttakenda, hugmyndafræði og leiðarljós MP og bera saman við önnur samfélagsmiðuð tónlistarverkefni. Þá verði kennslufræðileg nálgun MP rannsökuð og sérstaklega skoðað hvernig listræn stjórnun og ákvarðanataka fer fram. Enn fremur verði greint hvernig bakgrunnur þátttakenda hafi áhrif á tónlistarlega nálgun, auk þess sem skoðað verði hvaða áhrif þátttaka í MP verkefnum hafi og hvort áhrif séu að einhverju leyti varanleg á hljómsveitarmeðlimi og líf þeirra utan við verkefnið.
Þá er í verkefninu einnig lögð áhersla á að þjálfa tónlistarleiðtoga til rannsókna á eigin starfi, þróa rannsóknaraðferðir sem snúa að samfélagsmiðuðum tónlistarverkefnum, og tryggja fjölbreyttar miðlunarleiðir á rannsóknarniðurstöðum þar sem rannsakendur, hag- og fagaðilar fá aðgang að niðurstöðunum.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta