
Ungmenni úr ungmennaráðum þriggja sveitarfélaga, Langanesbyggðar, Norðurþings og Þingeyjarsveitar.
25. febrúar 2025Byggðabragur unga fólksins, vinnustofa á Húsavík
Síðastliðinn fimmtudag, þann 20. febrúar var haldin vel heppnuð vinnustofa á Húsavík á vegum Rannsókarseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum við Háskólann á Bifröst. Þar komu saman ungmenni úr ungmennaráðum þriggja sveitarfélaga, Langanesbyggðar, Norðurþings og Þingeyjarsveitar. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra – SSNE. Þekkingarnet Þingeyinga fær einnig þakkir fyrir afnot af frábærri fundaraðstöðu á Stéttinni.
Aðal markmiðið var að vinna með þá ágætu samantekt sem rannsóknarsetrið gaf út á síðasta ári og heitir Byggðabragur verkfærakista fyrir sveitarfélög. Aðaláherslur þeirra skýrslu voru dregin saman, og ungmennin fengu að segja sitt um þær, bæði hvernig þau myndu forgangsraða og eigin leiðir að markmiðum. Þá var svolítið fræðst um togkraft og ýtiafl lítilla samfélaga og þau höfðu sinar skoðanir um það, hvað er jákvætt og neikvætt við þeirra eigin samfélög.
Þá var Hugrún Harpa Reynisdóttir, forstöðumaður Nýheima á Höfn með frábæran fyrirlestur um valdeflingu ungmenna og hvað það þýðir að búa í samfélagi. Hún náði vel til þeirra, enda eru Nýheimar í algjörri sérstöðu hvað varðar vinnu með ungmenni. Verkefnið þeirra Heimahöfn (heimahofn.is) hófst nýlega, að undangenginni margra ára vinnu í mismunandi ungamennaverkefnum.
Gréta Bergrún, sérfræðingur á rannsóknarsetrinu var síðan með innlegg um slúður, vald orðanna okkar og hvernig slúður virkar sem vald í samfélögum og hópum. Niðurstöður vinnustofu verða teknar saman í stutta samantekt, sem birt verður á vef rannsóknarsetursins, en ungmennin kynna það einnig fyrir sínum sveitarstjórnum. Rannsóknarsetrið stefnir að frekari rannsóknum og verkefnum er snúa að byggðabrag ungmenna, enda afar mikilvægt fyrir byggðir landsins að heyra raddir unga fólkins þegar byggja á upp öflug samfélög.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta