Anna Hildur heiðruð á degi íslenskrar tónlistar
Formleg athöfn vegna Dags íslenskrar tónlistar fór fram í Hörpu sl. föstudag þar sem einstaklingum og hópum voru veittar viðurkenningar fyrir góð störf í þágu íslenskrar tónlistar. Verðlaunahafarnir eiga það sammerkt að mynda eiginlegt stoðkerfi utan um íslenskt tónlistarlíf og veita því vængi á ýmsan hátt. Lítill fugl - heiðursverðlaun Dags íslenskrar tónlistar voru veitt Önnu Hildi Hildibrandsdóttur og eiginmanns hennar heitins Gísla Þórs Guðmundssonar. Anna Hildur tók á móti verðlaununum fyrir að byggja upp íslenskan tónlistariðnað og veita íslensku tónlistarfólki og tónlistarlífi almennt sérstakt atfylgi og stuðning af einlægri ástríðu um áratuga skeið. Anna Hildur er fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst en hún var áður meðal annars umboðsmaður hljómsveitarinnar Bellatrix og saman ráku hún og Gísli umboðs- og ráðgjafafyrirtæki en Anna Hildur var síðar ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri ÚTÓN og síðar Norræna útflutningsverkefnisins NOMEX áður en hún snéri sér að kvikmyndagerð og hóf störf við Háskólann á Bifröst.
Fern önnur verðlaun voru veitt. Nýsköpunarverðlaun sem tónleikastaðurinn R6013 hlaut. Glugginn féll í skaut Brján á Neskaupsstað fyrir uppbyggingu Tónspils. Útflutningsverðlaun hlaut Kælan mikla en einn meðlimur þeirrar sveitar hefur stundað nám í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst. Þorsteinn Eggertsson var einnig sæmdur heiðursmerki STEFs.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta