26 þátttakendur frá 15 löndum í alþjóðlegum sumarskóla á Bifröst
14. júlí 2017

26 þátttakendur frá 15 löndum í alþjóðlegum sumarskóla á Bifröst

Alþjóðlegur sumarskóli fór af stað 8. júlí við Háskólann á Bifröst í annað sinn og nam fjölgun þátttakenda 30% milli ára. Titill sumarskólans er: Sustainable future: Creative Leadership in the 21st Century. Næstu þrjár vikur verður fjallað um áskoranir sem leiðtogar framtíðarinnar munu að líkindum fást við, bæði í atvinnulífinu og í persónulegu nærumhverfi.
 
Á dagskrá eru meðal annars námstengdar ferðir í Hús sjávarklasans, í Hellisheiðarvirkjun og á Erpsstaði en þátttakendur munu einnig fá tækifæri til að fara á hestbak, á sjóstöng, í fjallgöngu, í fuglaskoðun og margt fleira.
 
Þátttakendur eru 26 talsins frá 15 löndum víðs vegar um heiminn. Í fyrsta skipti eru þátttakendur frá Brasilíu, Indlandi, Kólumbíu og Bandaríkjunum.
 
Alls eru sex gestakennarar sem taka munu þátt í kennslu og aðstoða umsjónarkennara okkar Einar Svansson og Dr. Auði H. Ingólfsdóttur. Gestakennararnir koma frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Hollandi og Austurríki. Verkefnastjóri alþjóðlega sumarskólans er Karl Eiríksson.