Jafnrétti og margbreytileiki í stjórnun og menningu skipulagsheilda

Jafnrétti og margbreytileiki í stjórnun og menningu skipulagsheilda

Í kjölfar aukinnar alþjóðavæðingar, fólksflutninga og fjölmenningar hefur lýðfræðilegt landslag íslensks vinnumarkaðar (sem og hins alþjóðlega vinnumarkaðar) aukist sem um munar. Menningarlegur fjölbreytileiki leiðir til þess að einstaklingar eru í samskiptum við fólk með margbreytilegan bakgrunn, sem jafnvel eru af öðru þjóðerni, hafa annað tungumál sem móðurmál, eru meðlimir í hinum ýmsu trúfélögum og hafa búið við og alist upp við annars konar hefðir og venjur.

Fjallað verður gagnrýnt um kerfisbundna einsleitni og afleiðingar þess þegar allir þættir mannlífsins, s.s. skipulagsmál, fyrirtækjamenning, aðstæður fyrir fjölskyldufólk, heilbrigðisþjónusta, menntun og aðrir veigamiklir þættir eru byggðir upp og skipulagðir með þarfir einsleits hóps (þeirra sem völdin hafa) í huga. Þegar talað er um margbreytileika er átt við þjóðerni, kyn, trú, húðlit, þjóðfélagsstöðu, kynhneigð, fötlun, fjölskylduaðstæður, menningu, hefðir, venjur, gildi, ýmsar sértækar þarfir / úrræði og annað sem skipti máli í samhengi við menningarlega fjölbreyti innan skipulagsheildar. Reynsluheimur fólks á vinnustað sem og á milli fyrirtækja og viðskiptavina getur verið mjög ólíkur.

Viðskipti og samstarf milli fyrirtækja og stofnana milli landa og jafnvel heimsálfa hafa færst mjög í aukana og samskiptahæfni og hæfni við að vinna í hóp ólíkra einstaklinga verður sífellt mikilvægari. Þarfir einstaklinga eru margvíslegar og rannsóknir hafa sýnt fram á að eftir því sem menningarlegur fjölbreytileiki er meiri í starfsmannahópi og við stjórnvöl fyrirtækja og stofnana, því meiri líkur eru á því að betri ákvarðanir séu teknar, að fyrirtækjamenning taki tillit til fjölbreyttari þátta (þ.m.t. hafi jákvæð áhrif á starfsánægju og minni starfsmannaveltu) og slíkar skipulagsheildir eru líklegri til að vera betur reknar og auki þannig samkeppnishæfni sína til lengri tíma litið.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að menningarlegur fjölbreytileiki hafi jákvæð áhrif á nýsköpun og skapandi nálganir á viðfangsefni innan skipulagsheilda. Mikilvægt er fyrir verðandi stjórnendur og millistjórnendur að gera sér grein fyrir þeim áskorunum sem fjölmenningarsamfélagið hefur í för með sér; hvernig virkja megi kosti þess að margbreytilegar raddir komi að ákvarðanatökum innan fyrirtækja en líka hversu skaðlegt það getur verið fyrir skipulagsheildir að sporna við margbreytileika og hanga í einsleitni í viðjum íhaldssemi og valdagræðgi fáeinna útvalinna.  

Þetta námskeið er hannað með það í huga að þátttakendur geti hagnýtt efni námskeiðsins í lífi sínu og starfi með það fyrir augum að a) þau auki eigin víðsýni og gagnrýnu hugsun hvað varðar megininntak jafnréttis og menningarlegrar fjölbreytni innan fyrirtækja og þeirra áskorana og hindrana sem slík málefni mæta í skjóli fordóma, sérhagsmunapots, illklífanlegra valdablokka og kerfislægrar mismununar og b) verði meðvitaðri um kosti þess að hafa fjölbreytileika í huga við skipulagningu og stjórnun fyrirtækja og stofnana.

Sjá nánar í kennsluskrá

Fyrir hverja, þátttökugjald, umsóknir, forkröfur og einingar

Námskeiðið hentar þeim sem vilja auka hæfni sína við að stjórna hópi ólíkra einstaklinga sem hafa mismunandi bakgrunn, þekkingu, skoðanir, hefðir og venjur.

Þátttökugjald er 75.000 kr 

Þátttakendur þurfa að hafa lokið grunnnámi á háskólastigi

Námskeiðið veitir 6 ECTS einingar á meistarastigi.

Fyrirkomulag

Námskeiðið er kennt í lotubundnu fjarnámi. Námskeiðið stendur yfir í sjö vikur og nemendur mæta í eina fjögra stunda staðlotu í Borgarnesi. Kennsla hefst 24. febrúar og stendur til 12. apríl 2025. Um fjögurra stunda vinnustofa verður á tímabilinu 20.-23. mars í Borgarnesi, en nánari tímasetning er kynnt í námskeiðinu. Námsmat fer fram dagana 6.-12. apríl.

Þátttakendur taka námskeiðið ásamt nemendum í grunnnámi Háskólans á Bifröst. Þátttakendur geta búist við að verja um 25-30 klukkustundum á viku í vinnu við námskeiðið.     

Kennari

Kennarar námskeiðsins eru Sigrún Lilja Einarsdóttir og Einar Svansson.

Styrkir

Mörg stéttarfélög bjóða upp á styrki vegna námskeiða. Kannaðu málið hjá þínu stéttarfélagi.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til 23. febrúar 2025.

Vinsamlegast láttu fylgja gögn í viðhengi sem sýna að þú uppfyllir aðgangsviðmið. 

Allar nánari upplýsingar eru veittar á netfanginu endurmenntun@bifrost.is.

Hér má sjá nánari upplýsingar um Endurmenntun til eininga við Háskólann á Bifröst

 

Skráning


Skrá mig

Smelltu á hnappinn til að sæka um námskeið í Endurmenntun Háskólans á Bifröst.

 

Svona skráir þú þig á námskeið:

  1. Fylla þarf út umsóknareyðublað í umsóknargáttinni.
  2. Ef þú skráir þig í námskeið með aðgangsviðmið, þarftu að bíða eftir að samþykki berist með tölvupósti.
  3. Til að ljúka við skráningu þarf að ganga frá greiðslu í umsóknargátt og sækja um notendanafn fyrir innra kennslukerfi Háskólans á Bifröst, Uglu https://ugla.bifrost.is. Þar birtast allar upplýsingar um námskeiðið.

Nánari upplýsingar eru veittar á endurmenntun@bifrost.is eða í síma 433 3000.